Auðlegðin í pappakassanum á Indlandi

Þar sem við ræðum svo mikið um auðlegð kemur upp í hugann mynd af konum á Indlandi þar sem þær sitja á vel sópaðri jörðinni með ýmis konar hannyrðir í kjöltu sér. Ég er þarna stödd í hópi íslenskra kennara með brennandi áhuga á bættum kennsluháttum.

Konurnar sitja í hálfhring en fyrir miðju er pappakassi.

Þær brosa ánægðar - en samt dálítið feimnar - jafnvel auðmjúkar og sýna okkur handavinnuna sína.
Kassinn virðist mikilvægur. Túlkurinn talar við konuna sem virðist vera í forystu hópsins, hún handleikur pappakassann, hún horfir á konurnar sem fylgjast vel með og vilja leggja eitthvað til málanna.

Loksins fengum við að heyra söguna. Hjálparstarfið í þessu þorpi gekk út á að fá konurnar út úr kofunum sínum til að koma til fræðslu í heilbrigðismálum einu sinni í viku. Þegar það tókst var námið þróað yfir í handverk, einkum kennslu í að taka mál og síðan sníða og sauma föt. Fyrir hvern dag sem konurnar mættu til kennslunnar lagði banki stórborgarinnar ákveðna upphæð inn á bankareikning á nafni viðkomandi konu. Þegar konurnar voru fullnema í fræðunum og færar um að
sauma flíkur eftir máli var hverri konu afhent saumavél á hennar nafni. Eftir því sem þær luku hverju hannyrðaverkefninu á fætur öðru þurftu þær að greiða bankanum til baka upp í andvirði vélarinnar.

Eftir að verð vélarinnar var greitt upp áttu konurnar sjálfar saumavélarnar og komnar með eigin fyrirtæki má segja. Áfram urðu þær að greiða hluta af launum sínum í sjóð, núna í pappakassan sem var sameiginlegur sjóður þeirra allra. Þegar sjóðurinn var lagður inn bætti bankinn alltaf við jafn hárri upphæð.  Konurnar gátu síðan sótt um styrk úr sjóðnum til að geta t.d. sent börn sín til mennta eða til að greiða t.d. dýra læknisþjónustu.

Vægi og máttur kynjanna í þorpinu hafði breyst. Karlarnir unnu flestir við að plægja akrana og reyna að rækta fóður handa þessum örfáu skepnum sem þarna sáust.
Karlmennirnir voru allt í einu búnir að missa fyrri valdastöðu þegar konurnar voru háðar þeim í nær einu og öllu. Núna áttu konurnar peningana. Seðlarnir í pappakassanum góða ásamt mótframlagi bankans gerði þeim kleift að styðja við bakið á þeim konum sem á styrk þurftu að halda. Þær réðu loksins. Karlmennirnir þurftu að biðja konurnar um að sækja um styrk ef þurfti t.d. að kaupa nýjan uxa! Auðlegðin var þarna geymd í pappakassa, auðlegðin sem hafði skapast í gegnum sjálfshjálpina og saumavélarnar. Líf þeirra hafði breyst.

Langerfiðasta þrepið í þessu tilviki var að fara út um dyrnar á leirkofanum með stráþakinu. Þegar þær fengust til þess og komu í fyrstu hreinlætisfræðsluna í "fræðslu"kofanum var í raun einn stærsti sigurinn í höfn. Þær höfðu fengist til að taka ákvörðun um að gera líf sitt betra.

Þú verður að leyfa þér að vilja sjá bjartari framtíð. Ert þú búin/-n að veita þér heimild til þess?

 

 


Hugsun - orð - virðing og eigin væntumþykja; ég - um mig - frá mér - til mín

Nú við upphaf mánaðarins er ágætt að líta aðeins í kringum sig og taka stefnuna á næsta 30 + 1 dag. Þetta er jú mánuðurinn þegar allt fer að breytast, fríin að verða búin, skólarnir að fara að byrja. Það er ekki laust við að maður sjái kvíðahnútana fara að myndast og stækka í kringum sig.
Það er eins og allt breytist eitthvað á sumrin, það verður svo miklu léttara yfir fólki, það virkar miklu glaðara og hamingjusamara.

En, þarf þessi gleði að enda og stritið að taka við? Er þess ekki kostur að gefa sér tíma til að staldra aðeins við, meta stöðuna? Hvað liggur fyrir að gera næstu vikur og mánuði? Gerðu eitthvað róttækt en raunhæft í að aðlaga þróun mála fyrirfram að því sem þú helst vilt.

Einn besti staðurinn til að byrja er í huganum.

1. Hvernig eru þínar eigin hugsanir um þig? - Hvaða afleiðingar hefur það í för með sér?
2. Hvernig talar þú um þig? - Hvaða áhrif heldur þú að það hafi á þig?
3. Berðu virðingu fyrir þér? - Hvernig sýnir þú það?
4. Þykir þér vænt um þig? - Hvernig sýnir þú það?

Þessar athugasemdir taka ekki svo ýkja mikið rými - en það segir ekki allt um gildi þeirra og raunveruleg áhrif þeirra á líf þitt - og þá um leið á líf þeirra sem þér þykir vænst um.
Áhrifanna gætir ótrúlega víða, jafnvel víðar en við fáum nokkurn tímann vitneskju um.

Taktu nú fram gömlu góðu ómissandi gormabókin og punktaði niður svörin við þessum fjórum spurningum hér að ofan.
Veltu síðan fyrir þér hvort áhrifin séu þér að skapi.
Hvernig getur þú breytt afleiðingum áhrifanna þannig að lífið brosi breiðar og blíðar við þér?

Gangi þér vel

Jóna Björg Sætran


Hvaða jákvæðu hugsanir eru í varasjóðnum hjá þér?

Hvað ég á við? Jú, ég á við eitthvað skemmtilegt til að hugsa um þegar dregur fyrir sólu innra með þér.

Finndu þér nú blað, eða farðu yfir á word skjal (í kaffipásu í vinnunni eða þegar þú kemur heim) og skrifaðu niður eitthvað broslegt, skondið, skemmtilegt, fyndið - eitthvað sem hefur kallað fram ánægju hjá þér.

Þú hlýtur að muna eftir einhverju, er það ekki?

EF þú finnur ekkert, skrifaðu þá niður eitthvað sem þú vildir gjarnan að myndi gerast og þér myndi þykja skemmtilegt. Skrifaðu það eins og það hafi gerst.

Búðu þér til svona varasjóð af skemmtilegum tilvikum sem kalla fram ánægjutilfinningar. Hafðu blað með þeim með þér í ferðalagið, í vinnuna, settu þetta í budduna / seðlaveskið / rassvasann/ úlpuna........ Önnur leið væri t.d. að gera ýmis tákn eða myndir á lítið spjald, eitthvað sem er táknrænt fyrir þessa atburði en yrði alltof plássfrekt að skrifa um ......... og vertu með á þér.

Þegar ský dregur fyrir sólu innra með þér getur verið gott að draga fram varasjóðinn, "velja sér hugsun", slaka á og "upplifa ferlið", virkilega njóta þess. Það getur tekið tíma - það getur líka tekið á, en viti menn (og konur), það er mjög líklegt að það fari smátt og smátt að rofa til.

Hvers vegna?
Jú, sjáðu til, þú getur nefnilega aðeins hugsað eina hugsun í einu (þetta á líka við um okkur stelpur) og þegar þú hugsar um og upplifir innra með þér þessa jákvæðu atburði, þá fara af stað nokkurs konar domino árhrif á sál og líkama. Vellíðunartilfinningarnar framkalla öðru vísi líkamsvessa en leiðinlegu og sársaukafullu hugsanirnar. Smátt og smátt fer þér að líða betur og þú getur farið að takast á við verkefnin sem bíða þín.´
Já, ég veit að þetta er ekkert alltaf auðvelt, - en prófaðu þetta, það er engu að tapa og allt að vinna!

Hvað dettur þér nú fyrst í hug? Punktaðu það niður!


"Ég er frábær! Mér líður vel! Ég get það sem ég vil!"

...".......... Bíddu við, er allt í lagi með þig? - Hvað er eiginlega í gangi?" Stúrinn unglingurinn leit varlega inn um eldhúsdyrnar þar sem ég sat með morgunkaffið og kleinuna og fór yfir markmiðaspjöldin mín. Aldrei var friður. maður þurfti víst að fara enn fyrr á fætur til að fá að gera þetta í friði.
Árásin hélt áfram um leið og hann kom auga á staflann af gulu spjöldunum mínum á eldhúsborðinu, staflann sem hafði orðið til seint í gærkvöldi á meðan hann hékk yfir einhverju í kassanum, staflann sem hafði hækkað enn meira eldsnemma í morgun þegar ég gat ekki sofið lengur. Hann tók eitt og eitt spjald, las það rámri syfjulegri röddu sem bar þess merki að munnhreinsun morgunsins var ekki lokið. "Ég kynnist skemmtilegu fólki í vinnunni. - Ég hef fjárhagslegt frelsi. ... Ég er stundvís. - Ég ber virðingu fyrir sjálfri mér. - Ég hrósa sjálfri mér. - Ég ............." hann þagnaði, horfði á spjaldið sem hann hafði dregið úr bunkanum ................. þagði, nuddaði einhverjar morgunstírur úr öðru auganu og teygði sig í kleinu.

 


Til hamingju með hvað? Ég sem missti vinnuna!

Maggi varð ekkert smá undrandi þegar ég óskaði honum til hamingju!
Hann varð eiginlega hálf fúll - hvað ég væri eiginlega að meina. Væri ég nú farin að gera grín að erfiðleikum hans?
Það væri sko ekkert sniðugt við það að missa vinnuna, vinnuna sem hann hefði haft sl. 5 ár og hefði bara verið þokkalega launuð. Þetta hefði verið fín vinna. Allavega hefði hann geta staðið í skilum með leiguna.
Ég vildi ekki bakka með hamingjuóskina og benti honum á lokaðar dyr í námunda við okkur, og aðrar sem voru opnar. "Það er nokkuð víst að þó svo að þessar dyr hafi verið að lokast hjá þér, þá voru aðrar að opnast, - lífið heldur áfram, orkan heldur áfram - það er stöðugt streymi - farðu bara að leita og finndu þessar dyr sem voru að opnast!"

"Notaðu tækifærið og veltu því fyrir þér hvernig þú vilt hafa hlutina, hættu þessu kvarti og kveini.
Það ert þú sem berð ábyrgð á því hvernig þetta leysist allt saman hjá þér, ekki bíða eftir að einhver komi og bjóði þér vinnu, farðu sjálfur af stað - og byrjaðu innra með þér, taktu til í sálartetrinu, finndu hvað þú vilt!"
"Hvað með gulu spjöldin og rauðu pennana?- Notaðu verkfærin sem þú hefur og farðu að byggja upp í stað þess að vera að rífa niður! Þú getur svo miklu meira en þú heldur."

....................... nú er að sjá hvað gerist!

 

 


Karlmenn vilja líka "Blómstra!"

Nú í vikunni var ég með enn eitt "Blómstraðu!" námskeið í heimahúsi.
Þetta var verulega skemmtilegt enda allir sem þarna voru einstaklingar sem voru mættir með það í huga að vilja gera gott líf enn betra. Það er nefnilega einu sinni svo, að þeir sem sækja "Blómstraðu!" eru alls ekkert endilega í bullandi vandamálum, heldur fólk sem vill bæta um betur það sem er gott hjá því nú þegar í dag.
Aðalmálið er að vita hvað maður vill, marka sér ákveðna stefnu. Það getur hins vegar stundum reynst dálítið erfitt til afmörkunar. Hvað er maður að gera í dag? Byggja markmiðin mín í dag á mínum eigin óskum - eða byggjast þau á væntingum annarra í minn garð? Er það réttlætanlegt? Ungir menn á öllum aldri velta þessum spurningum fyrir sér á "Blómstraðu!" ekki síður en konurnar.
Það eiga allir að hafa þann rétt að velja sinn farveg, konur jafnt sem karlar.
Fyrir nokkru spurði ég einn þátttakandann, ungan mann á þrítugsaldri, hvort honum þætti heitið "Blómstraðu!" of kvenlegt. Hvort það gæti fælt herrana frá. Hann sagðist hæstánægður með heitið því hann vildi fá að blómstra. Hann vildi njóta þess að vera sá sem hann væri, en hann vildi skerpa sýnina á markmiðin og fá aðstoð við að skilja betur hvers vegna hann væri staddur þar sem hann væri í dag. Hugarróin væri líka ekki síður mikilvæg fyrir sig og alla hina strákana heldur en stelpurnar. Það að blómstra væri jafn mikilvægt fyrir alla.
Þetta svar dugði mér, ég læt "Blómstraðu!" heitið halda sér.


Hættum að EYÐA tíma með börnunum okkar!

Mikið finnst mér alltaf jafn undarlegt þegar ég rekst á fyrirsagnir í fjölmiðlum landsins þar sem talað er um að EYÐA tíma með hinum og þessum, t.d. börnum okkar eða ástvinum.

Jú, vissulega líður tíminn - og kemur ekki aftur, en er ekki samt rökréttara að hugsa það þannig að við séum að nota tímann með þessum einstaklingum frekar en að eyða honum.

Er ég kanski ein um þessa skoðun? Að það að eyða einhverju sé frekar neikvæð merking - eins og t.d. þegar talað er um að eyða tímanum, þá erum við ekki að nýta hann neitt sérlega vel. Ef við hins vegar tölum um að nota tímann - eða njóta ákveðins tíma / tímabils - þá séum við frekar að verja tímanum til jákvæðra athafna.

"Eyddu meiri tíma með barninu þínu"!  væri ekki huggulegra að segja "Njóttu þess að vera meira með barninu þínu"!

"Eyddu helginni með elskunni þinni í rómantíkinni hjá okkur"! (augl. frá hóteli) - mætti ekki frekar segja t.d. "Njóttu helgarinnar með elskunni ............................"! ´

Já, tíminn er líklega eitt það dýrmætasta sem við höfum fyrir utan góða heilsu, nýtum hann því vel og njótum þess að vera með börnunum okkar, ástvinum - eða öðru skemmtilegu fólki.


Peningagræðgi - eða hvað?

Um daginn hitti ég ágæta konu sem brá heldur betur í brún þegar ég talaði um meiri auðlegð, nýja íbúð, nýjan bíl og peninga sem dæmi um markmið. Hún varð eiginlega hneyksluð. Átti markmiðasetningin virkilega að ganga út á veraldleg markmið? Þvílíkur hégómi! Slíkt ætti ekki að skipta máli.

Í mínum augum er auðlegð hvað það er sem þú vilt fá inn í líf þitt.
Auðlegð getur verið góð heilsa, matur á borðið handa öllum fjölskyldumeðlimum alla daga ársins, peningar til að senda barnið sitt í tónlistartíma, nýr bíll - beint úr kassanum, ástvinur ........ Auðlegð er það sem þú þarfnast hverju sinni.

Hvers vegna ætti ég ekki að vilja eignast nýjan bíl?
Hvað væri rangt við það ef ég gæti borgað hann sjálf og þyrfti ekki að fá neinn annan til að greiða hann fyrir mig?
Hvernig hagnast aðrir á því ef ég kaupi mér, segjum nýjan bíl?
Bílasalinn fær líklega söluþóknun og getur líklega nýtt þá peninga fyrir sig og fjölskyldu sína. Framleiðandinn sér fram á að selja fleiri bíla. Ef enginn keypti nýja bíla myndi störfum fækka í verksmiðjunni. Það er því einhverjir erlendis sem starfa í bílaverksmiðjunni sem framleiddu bílinn sem ég gæti hugsað mér að kaupa. Þeir fá kaup sem þeir geta vonandi nýtt fyrir gos og sína....... o.sv.frv.

Jú, hún sættist á það fyrir rest að þetta væri í lagi.
Það hagnast margir á því að ég kaupi mér bíl.

Kanski ég hitti hana á bílasölunni eftir helgi..... í deildinni sem selur GLÆNÝJA SPORTBÍLA!
Hvaða lit ætli hún velji?

 

 

 

 

 

 


Hvers vegna er ég að leiðbeina fólki með efnið á The Secret?

Já, ég hef fengið nokkrar spurningar um þetta þannig að það er best að kynna sig.

Menntunartitillinn minn í dag er M.Ed., menntunarfræðingur, þið getið lesið heilmikið um bakgrunn minn - starfsferil o.fl. ef óskað er með því að smella hér 

Námstækni ehf.
Árið 2004 stofnaði ég kennslu og ráðgjafafyrirtækið Námstækni ehf. Meginmarkið fyrirtækisins er að miðla efni sem getur nýst einstaklingum og fyrirtækjum til vaxandi vellíðunar, velgengni og auðlegðar, allt eftir áhuga, vilja og sjálfsábyrgð hvers og eins.

Í þeim tilgangi hef ég á undanförnum árum einkum sótt mér viðbótar fræðslu og reynslu til Bandaríkjanna og Kanada, til frömuða á ýmsum sviðum persónulegrar árangurstækni og tölvutækni.

PhotoReading / Myndlestur, lestrar- og námstækni
2004 fékk ég réttindi til að kenna PhotoReading, Myndlestur, í samstarfi við Paul R. Scheele og fyrirtæki hans, Learning Strategies Corporation í Minneapolis í Bandaríkjunum. PhotoReading er öflug  lestrar- og námstækni sem gagnast öllum sem þurfa að lesa mikinn texta, auðveldar yfirsýn og skilning á efninu. Það sem er svo frábært við þessa lestrar- og námstækni er að aðferðin getur bæði gagnast þeim sem hafa áður lært hraðlestur sem og þeim sem eru lesblindir.  Þeir sem eru lesblindir þurfa stundum að koma tvisvar á námskeið til að ná tækninni en ég hef engan heyrt kvarta yfir því þar sem ég býð öllum þátttakendum að koma og sitja annað námskeið sér til upprifjunar án aukagjalds.

 The Secret - Persónuleg kynni JBS af leiðbeinendum í The Secret
Á námskeiðum og ráðstefnum erlendis 2004, 2005 og 2006, hef ég kynnst ýmsum aðilum sem koma fram í myndbandinu The Secret, m.a. Jack Canfield, Loral Langemeier og Marie Diamond. 
Einnig hef ég unnið mikið með efni Jack Canfield, James Arthur Ray, J. Harv. Ecker, Bill Harris, Loral Langemeier og Marie Diamond sem er Feng Shui meistari. Sl. tvö ár hef ég svo kynnt mér Diamond Feng Shui fræði undir handleiðslu Marie Diamond, bæði í Bandaríkjunum og í Belgíu.


Markþjálfun  
Það var árið 1998 sem ég byrjaði að vinna við persónulega leiðsögn þegar ég tók þjálfun sem leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi á árangursnámskeiðunum Phoenix - leiðin til hámarksárangurs. Í dag býð ég upp á einkaleiðsögn, mark-þjálfun, fyrir þá sem vilja sérstaka aðstoð við að vinna að markmiðum sínum. Markþjálfun / lífstíls-leiðsögn er skipulögð með þeim hætti að í upphafi er ákveðið að vinna saman í ákveðinn lágmarkstíma, í t.d. 3 mánuði. Að þeim tíma liðnum er hægt að bæta við tímum sé þess óskað. Hlutverk mitt sem þjálfa er að aðstoða skjólstæðinginn við að fá skarpari sýn á eigin markmið, finna hverjar séu sterkar hliðar viðkomandi og leiðbeina við að styrkja þær enn frekar. Nánari upplýsingar er hægt að fá með því að senda fyrirspurn á jona@namstaekni.is

Læt þessar upplýsingar duga, nú er alla vega komið á hreint hvers vegna ég tel mig geta frætt aðra um efnið á The Secret.

Já, eitt enn, ég hef fengið fyrirspurnir um námskeiðsgögnin á Blómstraðu.
Þau eru að sjálfsögðu á íslensku. Þetta eru verkefni sem er unnið með á námskeiðinu til að skerpa sýnina á markmiðin, finna betur hvað þú vilt, þú sjálf eða sjálfur, ekki hvað aðrir vilja að þú viljir!

Verið sæl að sinni, leyfið ykkur að njóta lífsins!
JBS


Nýttu þér"Leyndarmálið" og blómstraðu

THE Secret, Leyndarmálið, tekið saman af Rhondu Byrne frá Ástralíu, hefur vakið geysimikla athygli um allan heim. Það er nær sama hvar þú ert eða við hverja þú talar, fljótlega minnist einhver á The Secret. Hér er meginþráðurinn að einstaklingurinn geti nýtt eigin viljastyrk til að stjórna hugsunum sínum, tilfinningum, athöfnum og árangri. Hér er ekki um nýjar aðferðir að ræða heldur er hér lögð áhersla á að deila aðferðunum með sem flestum til aukins árangurs og velgengni fyrir alla sem hafa áhuga á. Myndbandið The Secret er áhugaverð blanda af leiknum atriðum og umfjöllun valdinna fyrirlesara sem eiga það sameiginlegt að aðstoða aðra við að ná hámarksárangri. Í bókinni The Secret er að finna ýmsa fróðleiksmola sem veita dýpri innsýn.

Þú berð ábyrgð

Í langflestum tilvikum berum við sjálf ábyrgð á persónulegri líðan okkar. Ef aðstæður okkar eru aðrar en við viljum er vert að huga að því hvernig við nýtum eigin færni til að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Fyrsta skrefið er að vita hvað þú vilt. Hvernig viltu hafa framtíðina? Hvað viltu vera, gera og eiga? Hverju viltu fá áorkað? Hvað viltu skilja eftir þegar þú hverfur héðan að kvöldi dags?

Áhrif orkuflæðis og aðdráttarafls

Allt í umhverfi okkar byggist á ákveðnu orkuflæði. Þar sem hugsanir þínar sendi eftir eðli sínu ýmist jákvæðar eða neikvæðar orkubylgjur út í umhverfið getir þú nýtt þér aðdráttarlögmálið (Law of Attraction) þér í hag. Hugsanir þínar geti virkað eins og nokkurs konar segull sem dragi að sér aðstæður, tækifæri o.fl. sem séu í samræmi við margendurteknar hugsanir þínar séu þær tengdar sterkum tilfinningalegum upplifunum. Þannig getir þú aukið vellíðan þína, velgengni og auðlegð.

Hugsun, tilfinning, framkvæmd

Allt byrjar með hugsuninni. Notaðu því færnina sem enginn getur tekið frá þér, færnina til að hugsa. Breyttu því hvernig þú hugsar og um leið getur þú breytt lífi þínu því þú ert það sem þú hugsar, upplifir tilfinningalega og framkvæmir. Settu þér skrifleg, tímasett og raunhæf markmið. Skrifaðu markmiðin í fyrstu persónu eintölu og í nútíð. Notaðu mikið af sterkum lýsingarorðum til að lýsingin verði sem áhrifaríkust. Skrifaðu lýsingu á draumadeginum. Klipptu út myndir sem eru táknrænar fyrir óskir þínar og búðu þér til markmiðamynd (nánar lýst á www.blomstradu.net). Þú þarft ekki endilega að vita hvernig þú ætlar að fara að því að ná markmiðunum því þú getur leitað þér þekkingar og leiðsagnar síðar. Aðalatriðið er að ákveða hvað þú vilt. Leggðu áherslu á það sem þú vilt, ekki á það sem þú vilt ekki. Ef þú setur neikvætt orð eins og t.d. skuldir inn í markmiðið þá er hætta á að undirmeðvitundin haldi áfram að tengja hugsanir þínar við skuldirnar. Gerðu ráðstafanir til að borga skuldirnar en lýstu fjárhagslegu frelsi í markmiðasetningunni.

Ímyndaður raunveruleiki

Hugsanir okkar eru almennt í myndrænu formi. Þegar þú veist hvað þú vilt vera, gera og eiga, þá skaltu slaka vel á og æfa þig í að upplifa nýju lífsmyndina sem raunveruleika í huganum. Ekki horfa á þig utan frá heldur æfðu þig í að framkalla vellíðunartilfinningu yfir að hafa náð þessum markmiðum þínum. Gerðu þetta sem oftast og ekki síst rétt fyrir svefninn.

Hvað er auðlegð?

Hvernig þú metur auðlegð fer eftir þínu eigin gildismati. Sumir taka andlega auðlegð fram yfir þá veraldlegu, sumir vilja ferðast um heiminn – aðrir fjárfesta í fasteignum. Hvað er þér mikilvægast?

Það er ekkert rangt við að vilja njóta meiri fjárhagslegrar auðlegðar, búa við fjárhagslegt frelsi og geta gert það sem þig langar til að gera – þegar þig langar til þess. Fjárhagsleg auðlegð veitir þér einnig fleiri tækifæri til að leggja öðrum lið, hjálpa öðrum til að hjálpa sér sjálfir.

Eigin væntumþykja og sjálfsvirðing

Ef þú vilt að öðrum þyki vænt um þig og sýni þér virðingu þá verður þér að þykja vænt um þig og þú verður að bera virðingu fyrir þér. Eigin væntumþykja og sjálfsvirðing er ein forsenda þess að þú getir veitt öðrum verulega væntumþykju, ánægju og gleði.

Áhugavert efni

Það er mikið ánægjuefni að orðspor efnisins The Secret skuli hafa náð til svo margra hér á landi. Ég vil hvetja fólk til að kynna sér þetta efni sem best því það á svo sannarlega erindi til allra (sjá www.thesecret.tv).

Fyrirlesararnir á myndbandinu eru flestir vel þekktir í Bandaríkjunum á ýmum sviðum tengdum árangurssálfræði og auðvelt er að nálgast margs konar áhugavert ítarefni af vefsíðum þeirra. Upplýsingar um vefslóðir, umsagnir um áhugaverðar bækur og geisladiska eftir þessa aðila og fleiri má sjá á www.blomstradu.net. Þar er einnig fjallað um íslenska sjálfseflingarnámskeiðið Blómstraðu! en þar er að finna margt sem á beinan samhljóm með efninu í Leyndarmálinu, The Secret.

Leyfðu þér að blómstra, njóttu þess að skapa þér blómlega framtíð.

Jóna Björg Sætran


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband