Færsluflokkur: Lífstíll
21.5.2015 | 15:25
Um átök og yfirgang á íbúafundi í Seljakirkju vegna breyttrar starfsemi í íbúðakjarna
Miðvikudagskvöldið 20.5.2015, var haldinn mjög sérstakur og átakamikill íbúafundur í Seljakirkju í Breiðholti þar sem var troðfullur salur af fólki með fjölmargar spurningar sem alltof fá svör fengust við. Til fundarins hafði verið boðað af hópi íbúa í hverfinu vegna óljósra frétta um breytta starfsemi íbúðakjarna í Rangárseli 16 20. Nokkur tilvik höfðu komið upp síðustu vikur þar sem fólk sem býr í næsta nágrenni íbúðakjarnans hafði orðið fyrir ónæði og truflunum vegna þessarar breyttu starfsemi.
Íbúðakjarninn Rangárseli hefur í all mörg ár gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem góður valkostur fyrir einstaklinga með líkamlega fötlun, fólk sem hefur viljað búa sem mest sjálfstætt en þurft meiri eða minni aðstoð við daglegt líf. Við sem búum í Seljahverfi höfum geta verið stolt af því að þetta góða úrræði væri til staðar í hverfinu okkar og á svona líka góðum stað, miðsvæðis og stutt í falleg útivistarsvæði þar sem börn sem fullorðnir sem og aldraðir hafa notið veðursældar á góðviðrisdögum og börnin leikið sér áhyggjulaus. Þarna eru tveir skólar, tvær kirkjur, félagsmiðstöð, leikskóli, skólasundlaug, dvalarheimili fyrir aldraða og íþróttahús í næsta nágrenni. Mikil umferð barna, unglinga og fullorðinna.
Nú hefur Reykjavíkurborg fest kaup á íbúðakjarnanum Rangárseli og breytt starfseminni sem þar fer fram. Eftir því sem næst verður komist þá eru þarna nú íbúðaúrræði fyrir fólk með margþætta eða samþætta fötlun, í einhverjum tilvikum einnig andlega fötlun og jafnvel umtalsverðar geðraskanir og hegðunarvanda og meðal annars íbúðarúrræði fyrir nokkra einstaklinga sem þurfa stöðuga umsjón umönnunarstarfsmanna og sólarhrings gæslu.
Mikillar óánægju gætti meðal fundarmanna með hve litlar upplýsingar íbúar hverfisins hefðu fengið varðandi starfsemina í íbúðakjarnanum. Þrír fulltrúar á vegum borgarinnar stigu í ræðustól en skildu eftir sig enn fleiri spurningar meðal fundarmanna en svör. Ein af tillögum þeirra til að bæta ástandið var að óska eftir samstarfi við íbúa hverfisins og stungu m.a. upp á nágrannavörslu af hálfu íbúanna í næsta nágrenni. Þessi tillaga féll vægast sagt í grýttan jarðveg fundarmanna og vakti bæði undrun og hneykslan.
Mikil reiði var meðal fundargesta vegna þess hvernig staðið var að breytingunum og víst er að það hefði verið betra fyrir velferðarsvið og velferðarráð borgarinnar og borgaryfirvöld að halda íbúafund fyrir breytingarnar og útskýra hvers konar starfsemi myndi fara þarna fram og hvernig búið yrði að íbúum hússins bæði hvað varðar umönnun og gæslu í þeim tilvikum sem þess er þörf. Það var ekki gert því þessar breytingar falla víst ekki undir ákvæði um grenndarkynningu eða svo var fundargestum tjáð af fulltrúum borgarinnar.
Þeir íbúar hverfisins sem lýstu því ónæði sem þeir hafa orðið fyrir vegna breyttrar starfsemi í íbúðakjarnanum fengu skömm fyrir frá fulltrúum borgarinnar. Mér sýnist eftir fundinn í Seljakirkju liggja nokkuð ljóst fyrir að fram að þessu hefur ekki verið næg umönnun og gæsla fyrir þá íbúa með margþætta eða samþætta fötlun sem þarna búa og þurfa 24tíma vöktun og gæslu. Einstaklingar sem vitað er að þurfa stöðuga gæslu allan sólarhringinn eiga t.d. alls ekki að vera einir og án gæslu að valsa úti á róluvelli eða í almenningsgarði í nágrenninu eins og fram kom á fundinum að dæmi eru um.
Ég vona að nú verði strax breyting þar á og að fundin verði farsæl lausn á þeim vandamálum sem íbúar íbúðakjarnans og nágrannar þeirra standa frammi fyrir. Margvíslegar athugasemdir komu fram á fundinum frá fundarmönnum og því miður fékk fólk ekki skilmerkileg svör frá fulltrúum borgarinnar. Formaður velferðarráðs á vegum meirihluta borgarstjórnar fór í ræðustól og hefði mátt stilla máli sínu í hóf og vanda sig betur.
Sjálf er ég búsett í Seljahverfi og mætti þarna ekki síst sem íbúi í hverfinu (þó ég sé vissulega líka varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina) og er því annt um öryggi og friðsæld í hverfinu og þá er ég ekki aðeins að tala um öryggi fárra - heldur allra, vissulega líka fólks með fjölþættar greiningar, margþætta eða samþætta fötlun.
Einn af fulltrúum borgarinnar lagði áherslu á mannréttindi íbúa íbúðakjarnans til að búa við góðar og heimilislegar aðstæður, þeim liði vel og upplifðu heimilisbrag. Vissulega eru það mannréttindi fólks með margþætta eða samþætta fötlun að fá að búa við góðar aðstæður og að fá að njóta lífsins eins vel og hægt er - og á eigin forsendum, en það vöknuðu ýmsar spurningar í huga mínum þarna á fundinum - og eftir hann, hvort þessir einstaklingar byggju við þær bestu aðstæður sem völ væri á þeim til handa. Er nægilegt rými til að þeir geti notið friðsældar og útiveru? Búa þeir sjálfir við nægilegt öryggi hvort heldur sem er innanhúss eða utan og rétt við mikla umferðargötu?
Í nútíma samfélagi er vissulega þörf á því að gera sem flestum kleift að búa við heimilislegar og notalegar aðstæður. Það er vissulega jákvætt að vinna að blandaðri uppbyggingu íbúðakjarna og leyfa flóru mannlífsins að njóta sín sem best. Það þýðir hins vegar ekki að kasta til þess höndunum, ana af stað í framkvæmdir án þess að hugsa þær til enda. Ef einhverjar líkur eru á að öryggi vistmanna, starfsmanna þeirra eða nágranna sé á einhvern hátt ógnað, þá þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt áður en að starfsemin hefst. Það þýðir ekki fyrir fulltrúa borgarinnar að hrópa ókvæðisorð að fundarmönnum úr ræðustól og skamma þá fyrir að taka ekki tillit til mannréttinda íbúa íbúðakjarnans. Slíkt er ekki til framdráttar því sem reynt er að gera til hagsbóta fyrir einstaklinga sem þurfa sérstök úrræði.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2013 | 15:37
Feng Shui fræðin, 5000 ára gömul en nýtast enn!
Feng Shui, þessi margra alda gömlu fræði, heimsspeki og listgrein, eru enn í góðu gildi. Það var fyrir bráðum níu árum síðan að ég kynntist Feng Shui fræðunum fyrst fyrir alvöru. Orkuflæði, hugarró, friðsæld, vellíðan - allt var þetta eitthvað sem maður sá fallegar myndir af og var fjallað um í erlendum fræðibókum, en hvernig var þetta gert? Hvernig gat það verið að það hvernig maður sneri rúminu sínu, hvaða myndir voru valdar sem veggskreytingar, hvaða hlutir voru staðsettir hvar, hvar speglarnir voru staðsettir, - hvernig mátti það vera að þessi atriði gæti skipt máli varðandi vellíðan og hamingju fólks? Feng Shui fyrir betri líðan í svefnherberginu? Gat það verið? Það var ofar mínum skilningi.
Þá var ég svo heppin að fá tækifæri til að kynnast þessu nánar og smá saman lærðist hvernig nýta má Feng Shui fræðin t.d. fyrir heimilið almennt.
Það er alltaf afar ánægjulegt þegar hægt er að vinna með umhverfið og gera það þannig að okkur líði betur. Umhverfi okkar skiptir svo miklu máli.
Eitt finnst mér afskaplega undarlegt varðandi nánasta umhverfi fyrirtækja. Það er hvað það getur verið erfitt að finna aðaldyrnar, það hvar á að komast inn í fyrirtækið til að geta nýtt sér þjónustu þess.
Þetta á ekki bara við stórfyrirtæki, þetta getur líka átt við einkaheimili. Eitt sinn kvartaði fólk undan því við mig að gestir sem kæmu í heimsókn kæmu nær aldrei að aðaldyrunum í gegnum garðinn (sem var mjög fallegur) heldur bönkuðu gestir á bakdyrnar hjá bílskúrnum. Húsráðendum þótti þetta leitt því umhverfi aðaldyranna var mjög vandað og garðurinn augnayndi. Þegar ég svo kom á staðinn ..... þá ók ég sjálf fram hjá húsinu því ég sá hvergi húsnúmer sem passaði við það sem hafði verið gefið upp. Við að bakka og leita betur sá ég það loksins .... og fór að því. Þá kom skýringin á þessu. Það vantaði að færa til húsnúmerið, húsnúmerið var einungis á hlið hússins, við bakdyrainnganginn. Þegar ekið var fyrir framan húsið, eftir aðalgötunni var ekkert númer að sjá.
Næsta dag færðu húsráðendur húsnúmerið og komu því fyrir á áberandi stað sem leiddi þá gestina rétta leið. Flóknara var það nú ekki.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)