Jólin koma ábyggilega kl.18 24.12.

Já, nú eru jólin alveg að koma.
 Dagarnir, já klukkustundirnar þjóta áfram á ógnarhraða.  Margur vildi vafalítið geta stoppað klukkuna, þó ekki væri nema í nokkrar klukkustundir, bara svona til rétt að ná að gera allt sem við viljum ná að gera fyrir jólin. Við þurfum að ná að skoða betur gjafaúrvalið, kíkja á tónlistarviðburði, fara á kaffihús og setjast niður með vinkonunum í smá jólaglögg.  Það er svo margt sem er gaman að gera svona rétt fyrir jólin og skemmtilegast þegar við ákveðum að gefa okkur tíma til að njóta þessa sérstaka andrúmslofts sem fyllir borg og bæ fáeinar vikur á hverju ári. Það verður nefnilega allt eitthvað svo öðruvísi þennan stutta tíma sem er almennt alltof fljótur að fljúga frá okkur.

Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli um þessi jól? Það er yndælt að fara á jólatónleika, hlusta á nýjustu jólalögin og teygja stórutána inn á kaffihúsin þar sem misreyndir rithöfunar og ljóðskáld lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum.  Skemmtilegast er þó að geta deilt slíkum upplifunum með góðum vinum.

Börnin reynum við að setja í forgang, tökum fagnandi boðum þeirra um að mæta sem gestir á helgileiki í skólanum þeirra, horfa á þau sem hirðingja eða vitringa, hlýða  þeim yfir textann eða æfa með þeim danssporin fyrir jólaballið. Allt þetta er ómetanlegt fyrir okkur öll, því þrátt fyrir allt annríkið þá er það jú þetta sem gefur lífinu gildi og börnin muna eftir þegar þau eldast.

Hvað skiptir þig mestu máli um þessi jól? Er verkefnalistinn þinn langt kominn?

Kaupa jólagjafir _____ X?  Jólatónleikar ______ X?   Jólaleikritið í skólanum ____ X?
Baka sörur ____ ?    Kaupa tilbúið smákökudeig og baka _____? Redda Laufabrauði ___ ?
Skipuleggja jólaboðin ___?   Velja jólavínið ___? Dót í skóinn ___ ? Jóladresssið klárt ___? Föt fyrir jólaboðin ___?

Hverju ertu að gleyma?  Ábyggilega einhverju?  Punktaðu það hjá þér?
Hvað af þessu skiptir mestu máli? Eða – skipta þessi atriðið yfirhöfuð einhverju veigamiklu máli? Jú – einhver þeirra, en ef til vill ekki eins mikið og við viljum vera láta.

Staðreyndin er jú sú að kl. 18 á aðfangadag, þá koma jólin. Jólin í hverju því formi sem við höfum haft í huga innra með okkur. Jólafriðurinn svífur til okkar í gegnum tónana í jólamessunum. Kirkjur landsins fyllast pott þétt einu sinni á ári, á aðfangadagskvöld. Það segir sína sögu. Fólk kemur prúðbúið til kirkju og það er einhver leyndardómsfull lotning í loftinu. Allir taka undir í Heimsumból og jafnvel ókunnugir bjóða hver öðrum gleðileg jól.

Í ár skulum við virkilega njóta þess að halda jól óháð því hverjar aðstæður okkar eru. Jólin koma nefnilega til okkar ef við leyfum þeim það, hvort heldur sem við náum öllu því sem við höfðum ætlað okkur.
Kæru lesendur, innilega gleðiríka jólahátíð. Megir þú njóta hennar á þann hátt sem þér hentar með fjölskyldu þinni og vinum.

Með jólakveðjum

Jóna Björg Sætran
www.coach.is

055

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband