Nýttu þér"Leyndarmálið" og blómstraðu

THE Secret, Leyndarmálið, tekið saman af Rhondu Byrne frá Ástralíu, hefur vakið geysimikla athygli um allan heim. Það er nær sama hvar þú ert eða við hverja þú talar, fljótlega minnist einhver á The Secret. Hér er meginþráðurinn að einstaklingurinn geti nýtt eigin viljastyrk til að stjórna hugsunum sínum, tilfinningum, athöfnum og árangri. Hér er ekki um nýjar aðferðir að ræða heldur er hér lögð áhersla á að deila aðferðunum með sem flestum til aukins árangurs og velgengni fyrir alla sem hafa áhuga á. Myndbandið The Secret er áhugaverð blanda af leiknum atriðum og umfjöllun valdinna fyrirlesara sem eiga það sameiginlegt að aðstoða aðra við að ná hámarksárangri. Í bókinni The Secret er að finna ýmsa fróðleiksmola sem veita dýpri innsýn.

Þú berð ábyrgð

Í langflestum tilvikum berum við sjálf ábyrgð á persónulegri líðan okkar. Ef aðstæður okkar eru aðrar en við viljum er vert að huga að því hvernig við nýtum eigin færni til að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Fyrsta skrefið er að vita hvað þú vilt. Hvernig viltu hafa framtíðina? Hvað viltu vera, gera og eiga? Hverju viltu fá áorkað? Hvað viltu skilja eftir þegar þú hverfur héðan að kvöldi dags?

Áhrif orkuflæðis og aðdráttarafls

Allt í umhverfi okkar byggist á ákveðnu orkuflæði. Þar sem hugsanir þínar sendi eftir eðli sínu ýmist jákvæðar eða neikvæðar orkubylgjur út í umhverfið getir þú nýtt þér aðdráttarlögmálið (Law of Attraction) þér í hag. Hugsanir þínar geti virkað eins og nokkurs konar segull sem dragi að sér aðstæður, tækifæri o.fl. sem séu í samræmi við margendurteknar hugsanir þínar séu þær tengdar sterkum tilfinningalegum upplifunum. Þannig getir þú aukið vellíðan þína, velgengni og auðlegð.

Hugsun, tilfinning, framkvæmd

Allt byrjar með hugsuninni. Notaðu því færnina sem enginn getur tekið frá þér, færnina til að hugsa. Breyttu því hvernig þú hugsar og um leið getur þú breytt lífi þínu því þú ert það sem þú hugsar, upplifir tilfinningalega og framkvæmir. Settu þér skrifleg, tímasett og raunhæf markmið. Skrifaðu markmiðin í fyrstu persónu eintölu og í nútíð. Notaðu mikið af sterkum lýsingarorðum til að lýsingin verði sem áhrifaríkust. Skrifaðu lýsingu á draumadeginum. Klipptu út myndir sem eru táknrænar fyrir óskir þínar og búðu þér til markmiðamynd (nánar lýst á www.blomstradu.net). Þú þarft ekki endilega að vita hvernig þú ætlar að fara að því að ná markmiðunum því þú getur leitað þér þekkingar og leiðsagnar síðar. Aðalatriðið er að ákveða hvað þú vilt. Leggðu áherslu á það sem þú vilt, ekki á það sem þú vilt ekki. Ef þú setur neikvætt orð eins og t.d. skuldir inn í markmiðið þá er hætta á að undirmeðvitundin haldi áfram að tengja hugsanir þínar við skuldirnar. Gerðu ráðstafanir til að borga skuldirnar en lýstu fjárhagslegu frelsi í markmiðasetningunni.

Ímyndaður raunveruleiki

Hugsanir okkar eru almennt í myndrænu formi. Þegar þú veist hvað þú vilt vera, gera og eiga, þá skaltu slaka vel á og æfa þig í að upplifa nýju lífsmyndina sem raunveruleika í huganum. Ekki horfa á þig utan frá heldur æfðu þig í að framkalla vellíðunartilfinningu yfir að hafa náð þessum markmiðum þínum. Gerðu þetta sem oftast og ekki síst rétt fyrir svefninn.

Hvað er auðlegð?

Hvernig þú metur auðlegð fer eftir þínu eigin gildismati. Sumir taka andlega auðlegð fram yfir þá veraldlegu, sumir vilja ferðast um heiminn – aðrir fjárfesta í fasteignum. Hvað er þér mikilvægast?

Það er ekkert rangt við að vilja njóta meiri fjárhagslegrar auðlegðar, búa við fjárhagslegt frelsi og geta gert það sem þig langar til að gera – þegar þig langar til þess. Fjárhagsleg auðlegð veitir þér einnig fleiri tækifæri til að leggja öðrum lið, hjálpa öðrum til að hjálpa sér sjálfir.

Eigin væntumþykja og sjálfsvirðing

Ef þú vilt að öðrum þyki vænt um þig og sýni þér virðingu þá verður þér að þykja vænt um þig og þú verður að bera virðingu fyrir þér. Eigin væntumþykja og sjálfsvirðing er ein forsenda þess að þú getir veitt öðrum verulega væntumþykju, ánægju og gleði.

Áhugavert efni

Það er mikið ánægjuefni að orðspor efnisins The Secret skuli hafa náð til svo margra hér á landi. Ég vil hvetja fólk til að kynna sér þetta efni sem best því það á svo sannarlega erindi til allra (sjá www.thesecret.tv).

Fyrirlesararnir á myndbandinu eru flestir vel þekktir í Bandaríkjunum á ýmum sviðum tengdum árangurssálfræði og auðvelt er að nálgast margs konar áhugavert ítarefni af vefsíðum þeirra. Upplýsingar um vefslóðir, umsagnir um áhugaverðar bækur og geisladiska eftir þessa aðila og fleiri má sjá á www.blomstradu.net. Þar er einnig fjallað um íslenska sjálfseflingarnámskeiðið Blómstraðu! en þar er að finna margt sem á beinan samhljóm með efninu í Leyndarmálinu, The Secret.

Leyfðu þér að blómstra, njóttu þess að skapa þér blómlega framtíð.

Jóna Björg Sætran


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt í umhverfi okkar byggist á ákveðnu orkuflæði. Þar sem hugsanir þínar sendi eftir eðli sínu ýmist jákvæðar eða neikvæðar orkubylgjur út í umhverfið getir þú nýtt þér aðdráttarlögmálið (Law of Attraction) þér í hag.

Værir þú til í að útskýra aðeins nánar fyrir mér hvað þú átt við með að allt í umhverfi okkar byggist á orkuflæði? Einnig þætti mér fróðlegt að vita hvernig hugsanir senda frá sér orku, á hvaða formi er þessi orka? Einnig, hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri orku?

Virðingarfyllst,

Grétar Amazeen 

Grétar Amazeen (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 14:54

2 Smámynd: Ragnheiður Ólafsdóttir

Vertu velkomin í blogheimin, já bókin Leyndarmálið og myndin eru stórkostlegar upplýsingar til okkar um hvernig við getum breytt hugsanagangi okkar í jákvæðar áttir á öllum sviðum lífs okkar og þar með öðlast betri andlegri, líkamlegri og tilfinningalegri líðan og stuðlað að betri velgengni í lífi okkar.  Frábært að þú ert komin  í blogg hópinn Jóna Björg mín.  Ragnheiður Ól

Ragnheiður Ólafsdóttir, 20.7.2007 kl. 11:29

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Tek undir allt það sem sagt er hér að ofan, hef reynt þetta á eigin skinni, var neikvæð og óhamingjusöm og fannst betra að trúa á neikvæða útkomu en jákvæða svo vonbrigðin yrðu minni. Eftir að hafa kynnt mér the secret fór ég að breyta öllum mínum hugsanagangi og....viti menn...allt í kringum mig gengur betur, ég hef náð markmiðum og eignast hluti sem aðeins voru draumsýnir. Jákvæðar hugsanir senda frá sér öðruvísi strauma en neikvæðar...og ef einhver ætlar að efast um að hugurinn sé máttugri en okkur grunar þá getur sá hinn sami bara haldið áfram að vera innilokaður í sínum eigin þrönga heimi.

Takk fyrir þessa umræðu.

Gíslína Erlendsdóttir, 21.7.2007 kl. 11:40

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég fór á fyrirlesturinn í Háskólabíó á sínum tima og mér fannst margt í The Secret minna mig á efni bókar sem ég las fyrir margt löngu.  Sú bók heitir The Seven Spiritual Laws of Success - a practical guide to the fulfillment of your dreams eftir Deepak Chopra.  Bókin byrjar á tilvitun í gamalt indverskt kvæði þar sem segir:

You are what your deep, driving desire is.

As your desire is, so is your will. 

As your will is, so is your deed.

As your deed is, so is your destiny.

        Brihadaranyaka Upansihad IV.4.5

Það er ekki mikið meira sem þarf að segja.  Við þurfum samkvæmt þessu að ákveða hverjar okkar raunverulegu langanir eru til að vita hver forlög okkar eru.

En lögmálin 7 eru:

The Law of Pure Potentiality

The Law of Giving

The Law of "Karma" og Cause and Effect

The Law of Least Effort

The Law of Intention and Desire

The Law of Detachment

The Law of "Dharma" or Purpose of Life

Höfundurinn segir að þó svo að bókin beri titilinn The Seven Spiritual Law of Success þá gæti hún allt eins heitið The Seven Spiritual Law of Life.  Með orðinu Law er átt við það sem við köllum lögmál.

Báðar bækurnar eru áhugaverð lesning, sem benda okkur á að velferð okkar og hagsæld er í okkar höndum, ef við nýtum okkur bara þann meðbyr sem hægt er að finna um allt og hættum að vinna gegn okkur sjálfum. 

Marinó G. Njálsson, 21.7.2007 kl. 13:36

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

The Secret er ágæt, en minnir á köflum soldið á sjónvarpsauglýsingu "infomercial-style", þar sem áherslan er öll á hversu gott og gagnlegt þetta sé og hversu miklu betra líf manns geti orðið fyrir vikið. Sem er auðvitað rétt því það er vissulega hægt með rétta hugarfarinu eins og mörg stórmennin hafa gert í gegnum tíðina. Mér sjálfum fannst samt vanta dálítið meiri leiðbeiningar um það hvernig maður ætti svo að fara að því að taka upp þetta "rétta" hugarfar, þar sem maður er nú ekki mjög vanur að hugsa um það hvernig maður hugsar! ;) Þar sem ég er þar að auki mjög forvitinn og fróðleiksfús þá vildi ég fræðast meira um það sem liggur að baki þessum hugmyndum og hvort þær hefðu einhverja tengingu við þann bakgrunn sem ég hef t.d. í raunvísindum. Með öðrum orðum þá vildi raunsæi efahyggjupúkinn sem í mér býr ekki gleypa þetta að ókönnuðu máli, ef ske kynni að hér væri á ferðinni enn ein vafasöm nýaldar "vísindaspekin", en svo er reyndar ekki.

Þeim sem vilja kynna sér meira um vísindalegu hliðina á því hvernig veruleikinn verður til skv. þessum hugmyndum, vil ég benda á myndina "What the (Bleep) do we Know?". Í henni tókst á undraverðan hátt að tengja saman vísindamenn, fræðimenn og spekinga úr gjörólíkum áttum sem virðast allir hafa verið að stúdera þetta sama fyrirbæri nema bara frá mismunandi hliðum, og margt þar sem kemur þægilega á óvart.

Aðalhandbók þeirrar lífsspeki sem felst í aðdráttarlögmálinu er bókin "The MastGer Key System" sem Charles F. Haanel skrifaði árið 1917, en hann var viðskiptajöfur, repúblikani, síðar 32. gráðu frímúrari (athyglisvert!) og rithöfundur í Missouri USA. Ég vil einnig mæla eindregið með bókinni "The Science of Getting Rich" eftir Wallace D. Wattles. Hún er skrifuð 1910 og sækir hugmyndir sínar í austræna dulspeki en yfirfærir þær yfir á vestrænt samfélag í dögun iðnbyltingarinnar, prýðilegur heilabrjótur fyrir þá sem eru heimspekilega þenkjandi og besta bók sem ég hef lesið! Báðar þessar bækur er hægt að nálgast á heimasíðu The Secret með því að gerast meðlimur, eða bara nota linkana hér að ofan.

Kveðja til allra, og njótið þess að uppgötva.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.7.2007 kl. 03:51

6 Smámynd: Jóna Björg Sætran

Sæll Sigurður
Takk fyrir að taka tíma í að svara blogginu mínu, netgreininni.
Það er leitt að þú skyldir ganga út eftir aðeins 20 mín. af myndbandinu The Secret. Hvernig veist þú þá nægilega mikið um restina af myndbandinu til að geta dæmt það á þann hátt sem þú gerir?
Ég er sammála þér um ýmislegt. Það er ekki nægilegt að hugsa jákvæðar hugsanir og fá það þannig allt sem þú vilt. Það væri eins og að taka þátt í barnaleikriti þar sem álfkonan sveiflaði töfrasprotanum og þú mættir segja til um hvers kona líf hún myndi velja handa þér. Svo einfalt er það ekki.

Það er hins vegar talið vísindalega sannað að hugsanir fólks hafi áhrif út fyrir líkamann. Sjá www.hado.com
Japanskar rannsóknir hafa þannig m.a. sýnt fram á breytingar á vatnkristöllum eftir því hvernig hugsanir eru ríkjandi nálægt vatninu.

Hef þetta ekki lengra að sinni
kveðja
Jóna Björg

Jóna Björg Sætran, 23.7.2007 kl. 00:41

7 Smámynd: Lúðvík Bjarnason

Sæl og blessuð!

Ég vil benda á http://www.abraham-hicks.com/ 

 kv

Lúðvík Bjarnason

Lúðvík Bjarnason, 25.7.2007 kl. 10:46

8 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Ég rakst nú á nokkuð gagnlega bók um daginn, það má fræðast frekar um hana hérna!

Magnús V. Skúlason, 26.7.2007 kl. 14:20

9 Smámynd: Dresimagnum

Ég fékk að sjá þessa mynd fyrir nokkrúm mánuðum þegar ég var í bandaríkjunum í ferðalagi. Þar fannst mér þetta virka neysluhvetjandi á fólkið í kringum mig.

Mig langar að vita hver er að bak við þetta "projekt" og hver er tilgangurinn?

Dresimagnum, 27.7.2007 kl. 17:53

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Bob Doyle er einn af þeim sem kemur fram í the secret á síðunnihand er mikið talað um EFT emotional freedom tækni sem fleur í sér leiðir til að losa um innri blokkeringar fyrir auðvlegð, og losa úr læðingi orkustíflur eða hugmyndir sem koma í veg fyrir að þú getir látið þeta lögmál aðlöðunar virka. Ef þú segir sjálfum þér stöðugt innra með þér að þú sért ekki verðugur eða eigir ekki allt gott skilið, slkar ekki sjálfan þig í raun getur það verið hindrun. Við hjónin vorum einmitt að klára EFT kúrs og fleiri námskeið til að vinna með slíkar blokkeringar sem hægt að er með ákveðinni tækni að fjarlægja og það verður að segjast að þær virka mjög vel!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 29.7.2007 kl. 23:37

11 Smámynd: Jóna Björg Sætran

Frábært að fá svona fínar ábendingar.
Það er mikilvægt að benda á allt þetta góða efni sem er á boðstólum fyrir þá sem hafa áhuga á.
Þessar hindranir sem þú lýsir hér að ofan eru því miður mjög algengar hjá fólki, oftar en ekki eru þær áskapaðar vegna umhverfisáhrifa, áhrifa frá uppalendum, samferðafólki og fjölmiðlum.
Meira um það síðar, takk takk takk - fyrir bæði þetta og önnur góð innlegg

Jóna Björg Sætran

Jóna Björg Sætran, 30.7.2007 kl. 01:05

12 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

Góðan dag

Ég er að lesa bókina "The Secret" akkúrat núna - við gætum í marga daga rökrætt og skrifað um það sem þar er sagt - en upp úr stendur þessi spurning fyrir mig

Ég vil breyta lífi mínu - breyta þeirri stöðu sem ég er í - í dag

Og ég byrjaði að nota tækni þá sem kennd er í "The Secret" í maí í vor - og ég hef unnið skipulega og náð árangri - og held áfram að ná árangri.

Þetta eru ekki ný fræði og þið sem hafið kynnt ykkur Yoga ættuð að skilja þessi fræði vel.

ég hef bæði stundað yoga, hugleiðslu og sótt óteljandi námskeið í því að bæta sjálfa mig og mitt líf og allt sem ég hef lært er sett fram í þessarri bók The Secret - eins og sagt er í formála bókarinnar þá eru þetta mjög gömul fræði.

Þannig að ef okkur líður vel og við erum 100% ánægð með það sem við höfum - þá erum við auðvitað þar og gerum engar breytingar

En ef við viljum breytingar þá leitum við að þeim og þær koma til okkar þegar við erum tilbúin til þess að hleypa þeim inn í líf okkar.

Takk fyrir frábæran pistil - ég las hann allann

kveðja

Ingibjörg Þ 

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 30.7.2007 kl. 09:33

13 Smámynd: Mofi

Sæl öll,

Það er góður og þarfur boðskapur að hugsa jákvætt og þar stendur The secret sig vel.  Góð viðbót við myndina fannst mér vera hljóðskrá sem hægt er að nálgast á www.mastersofthesecret.com  Margir sem tala þarna eru þeir sömu og í myndinni sjálfri en þarna kemur fram það sem þeim fannst vanta í myndina.

En þessi mynd og hugmynd hefur líka sínar skuggahliðar. Hún setur þetta fram sem vísindi þar sem reynt skammtafræði við þetta. Einnig er þetta látið vera eins og Harry Potter, þar sem þetta eru einshvers konar galdrar.  Sjúklingur smitaður af HIV getur ekkert talað sjúkdóminn burt, sá sem er lamaður getur ekkert óskað sér upp úr hjólastólnum og sá sem er fátækur getur ekkert orðið ríkur með því að beina einhverri orku úr geimnum til að fylla vasa sína af gulli.  Þar gékk The secret allt of langt. Við erum aðeins mannlegar verur þar sem hver dagur getur verið okkar síðasti.

Kv,
Halldór

Mofi, 30.7.2007 kl. 11:19

14 Smámynd: Jóna Björg Sætran

Sæll Halldór

Kærar þakkir fyrir skrifin.
Ég er alveg sammála þér í því að það megi ekki setja þessi fræði fram sem einhverja galdra. Það er líka staðreynd að það er ekki hægt að breyta hverju sem er í hvað sem er.
Við erum svo sannarlega mannlegar verur, því er jú líka um að gera að nýta okkur hvern dag sem best - á þann hátt sem hvert okkar vill velja fyrir sig.

Það er ýmislegt tengt þessum fræðum sem kemur alls ekki nægilega skýrt fram í myndinni - og heldur ekki í bókinni. Þess vegna er það sem margir þeirra sem þar koma fram eru að senda fólki gögn um "það sem ekki var sagt....!"

Hvað varðar myndina þá ráðlegg ég alltaf fólki að horfa á hana nokkrum sinnum í upphafi og síðan af og til. Það er nefnilega þannig að við það að sjá hana margsinnis þá tekur maður eftir hlutunum stundum í öðru ljósi en við fyrstu sýn.
Maðurinn sem lenti í flugslysinu sem talað er við í myndinni hefur haft möguleika á að ná sér þó svo að læknarnir hafi ekki skynjað það í upphafi. Hvað varðar konuna sem lýsir sinni sjúkdómssögu þá get ég ekki annað sagt en það að ég hef ekki heimild til að rengja það sem þar er sagt.

Ég hef þetta ekki lengra en þakka þér fyrir að benda á þessi atriði. Það er öllum hollt að gera sér grein fyrir að það er ekkert hókus pókus til lengdar. Enn sem komið er hef ég hvergi rekist á alvöru töfrasprota, þennan sem mig dreymdi um í gamla daga - fyrir alveg ótrúlega mörgum árum - sem lítil stelpa í sveitinni á sumrin......

Takk takk

Jóna Björg Sætran

Jóna Björg Sætran, 30.7.2007 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband