4.8.2007 | 02:02
Auðlegðin í pappakassanum á Indlandi
Þar sem við ræðum svo mikið um auðlegð kemur upp í hugann mynd af konum á Indlandi þar sem þær sitja á vel sópaðri jörðinni með ýmis konar hannyrðir í kjöltu sér. Ég er þarna stödd í hópi íslenskra kennara með brennandi áhuga á bættum kennsluháttum.
Konurnar sitja í hálfhring en fyrir miðju er pappakassi.
Þær brosa ánægðar - en samt dálítið feimnar - jafnvel auðmjúkar og sýna okkur handavinnuna sína.
Kassinn virðist mikilvægur. Túlkurinn talar við konuna sem virðist vera í forystu hópsins, hún handleikur pappakassann, hún horfir á konurnar sem fylgjast vel með og vilja leggja eitthvað til málanna.
Loksins fengum við að heyra söguna. Hjálparstarfið í þessu þorpi gekk út á að fá konurnar út úr kofunum sínum til að koma til fræðslu í heilbrigðismálum einu sinni í viku. Þegar það tókst var námið þróað yfir í handverk, einkum kennslu í að taka mál og síðan sníða og sauma föt. Fyrir hvern dag sem konurnar mættu til kennslunnar lagði banki stórborgarinnar ákveðna upphæð inn á bankareikning á nafni viðkomandi konu. Þegar konurnar voru fullnema í fræðunum og færar um að
sauma flíkur eftir máli var hverri konu afhent saumavél á hennar nafni. Eftir því sem þær luku hverju hannyrðaverkefninu á fætur öðru þurftu þær að greiða bankanum til baka upp í andvirði vélarinnar.
Eftir að verð vélarinnar var greitt upp áttu konurnar sjálfar saumavélarnar og komnar með eigin fyrirtæki má segja. Áfram urðu þær að greiða hluta af launum sínum í sjóð, núna í pappakassan sem var sameiginlegur sjóður þeirra allra. Þegar sjóðurinn var lagður inn bætti bankinn alltaf við jafn hárri upphæð. Konurnar gátu síðan sótt um styrk úr sjóðnum til að geta t.d. sent börn sín til mennta eða til að greiða t.d. dýra læknisþjónustu.
Vægi og máttur kynjanna í þorpinu hafði breyst. Karlarnir unnu flestir við að plægja akrana og reyna að rækta fóður handa þessum örfáu skepnum sem þarna sáust.
Karlmennirnir voru allt í einu búnir að missa fyrri valdastöðu þegar konurnar voru háðar þeim í nær einu og öllu. Núna áttu konurnar peningana. Seðlarnir í pappakassanum góða ásamt mótframlagi bankans gerði þeim kleift að styðja við bakið á þeim konum sem á styrk þurftu að halda. Þær réðu loksins. Karlmennirnir þurftu að biðja konurnar um að sækja um styrk ef þurfti t.d. að kaupa nýjan uxa! Auðlegðin var þarna geymd í pappakassa, auðlegðin sem hafði skapast í gegnum sjálfshjálpina og saumavélarnar. Líf þeirra hafði breyst.
Langerfiðasta þrepið í þessu tilviki var að fara út um dyrnar á leirkofanum með stráþakinu. Þegar þær fengust til þess og komu í fyrstu hreinlætisfræðsluna í "fræðslu"kofanum var í raun einn stærsti sigurinn í höfn. Þær höfðu fengist til að taka ákvörðun um að gera líf sitt betra.
Þú verður að leyfa þér að vilja sjá bjartari framtíð. Ert þú búin/-n að veita þér heimild til þess?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.