6.8.2007 | 01:33
Hverjir eru áhrifavaldarnir í lífi þínu?
Hvers vegna ert þú í þeim sporum sem þú stendur í núna?
Aðstæður þínar í dag þurfa á engan hátt að vera lýsandi fyrir framtíð þína. Þér er það nokkuð í sjálfsvald sett hvort þú heldur áfram á sömu braut eða hvort þú vilt velja aðra stefnu.
Hverjir hafa verið áhrifavaldar í lífi þínu hingað til? Foreldrar, aðrir fjölskyldumeðlimir, leikfélagar, skólafélagar, kennarar, vinir, kunningjar, vinnufélagar, vinnuveitendur, fjölmiðlar, þjóðfélagsstraumar, atvik og aðstæður þar sem þú hefur staldrað við í styttri eða lengri tíma í gegnum árin? Áhrifin geta bæði hafa verið jákvæð og ...... miður jákvæð.
Nú er að opna word skjal og skrifa niður í 5 - 10 mín. alla þá áhrifavalda sem þér koma í hug að hafi mótað líf þitt, haft afgerandi áhrif á skoðanir þínar, sjálfstraust og sjálfsvirðingu.
Ertu sátt/-ur við niðurstöðuna? Hvers konar áhrif hafði hver og einn?
Að sjálfsögðu verður þetta ekki tæmandi skilgreining hjá þér til þess þyrftir þú líklega nokkra daga, ég á nú ekki von á því að þú hafir þá svona á lausu um mitt sumar - já og við lok verslunarmannahelgarinnar. Þú getur alveg látið hálftíma duga að sinni.
Aðaltilgangurinn með þessari æfingu er að þú gerir þér grein fyrir því að þú hefur orðið fyrir alls konar áhrifum sem hafa svo mótað þig og líf þitt fram til þessa. Þú hefur hlotið ákveðna forritun frá fjölmörgum aðilum. Þegar þú hefur gert þér þetta ljóst getur þú líka skilið að þú hefur það í þínu valdið að "forrita sjálfa/-n þig upp á nýtt", þannig að þú takist á við verkefni dagsins í dag og morgundagsins á eigin forsendum en ekki eftir því sem aðrir hafa innprentað þér að henti þér best.
Hugsaðu sjálfstætt - taktu sjálfstæðar ákvarðanir og út frá eigin forsendum.
Málaðu regnboga lífs þíns með litunum úr litakassanum þínum, nýttu þér alla regnbogans liti og njóttu þess að vera þú!
Athugasemdir
Flott skrif og án efa góð aðferð til virkrar og meðvitaðrar tilveru.
Lárus Gabríel Guðmundsson, 6.8.2007 kl. 01:57
Já þegar maður hugsar um áhrifavaldana í lífi sínu, þá kemur líka upp hugsunin. Ætla ég að láta aðra stjórna lífi mínu? Ég tel nefnilega eftir að hafa verið á námskeiðum hjá Jónu Björg, að ég sé sjálf minn mesti áhrifavaldur og mun eftir því sem ég hef lært, hér og þar í lífinu, að ég sé minn gæfusmiður. Það er öllum til góðs að fá leiðsögn sem virkar. Hugsunin er til alls fyrst og með því að breyta hugarfarinu í jákvæðar áttir þá virkar það svo sannarlega.
Ragnheiður Ólafsdóttir, 6.8.2007 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.