Armbeygjur hugans geta byrjað hér og nú!

Jæja, hvernig gekk þér svo í gær með að gera þér grein fyrir því hverjir hafa “forritað” þig til þessa? Kom þér eitthvað á óvart? Stundum líður maður nefnilega bara áfram, siglir í gegnum öldurnar eftir bestu getu hverju sinni, en ......... svo allt í einu uppgötvar þú að kanski hefði verið miklu sniðugra, betra OG skemmtilegra – að fara öðruvísi að.

Hvað þá?

Í stað þess að sýta um of það sem liðið er, er þá ekki bara miklu viturlegra að taka fram nýtt blað, opna nýtt Word skjal í tölvunni, og taka nýja stefnu? Ekki vera að eyða dýrmætri orku í að velta sér um of úr því sem búið er. Það er miklu vænlegra til góðra verka að spá frekar í hvernig hægt sé að “forrita sig samkvæmt eigin vilja og óskum”.

Já, hvað viltu? Hvernig viltu blómstra?


Það er álitið að allt að 60 – 65 þúsund hugsanir fari í gegnum huga mannsins við “venjulegar” aðstæður hvern sólarhring, EN það er líka talað um að um 95% af þessum hugsanafjölda séu sömu hugsanirnar dag eftir dag – eftir dag – eftir dag............ Hvers vegna? Jú, við erum svo mikið að fást við það sama á hverjum degi. Við festumst í vananum. Er ekki kominn tími til að fara að bretta upp ermarnar og taka sér tak? Taka upp nýjar aðferðir, gera það sem nærir þig og gleður og hjálpar þér þá um leið að gleðja þá sem eru í kringum þig enn frekar en í dag. Brosa – og fá bros til baka!


Breyttu til – og vittu til – þú ferð jafnvel að fá nýjar hugmyndir! Sittu annars staðar við eldhúsborðið næst þegar þú færð þér morgunverð, gakktu aðra leið frá heimili þínu og að bílnum eða strætó. Farðu í aðra matvöruverslun til að versla í matinn ...... breyttu til. Taktu eftir því sem er að gerast í kringum þig. Hlustaðu á það sem aðrir eru að segja við þig. Já, hlustaðu - ég er að tala um virka hlustun þar sem þú reynir virkilega að þegja og hlusta – ekki bara heyra það sem þú “heldur að hann eða hún sé að segja” – eða hafa tilhneigingu til að heyra það sem þú er hrædd/-ur um að viðkomandi sé að segja.

 

Tilbreytingin gæti orðið fyrsta skrefið hjá þér til að taka nýja stefnu og efla þinn innri styrk til að taka nýjar ákvarðanir. Mundu nú að hafa smá minnisblað og blýantsstubb við hendina í vasanum eða veskinu, það er aldrei að vita nema nýjar hugmyndir fari að streyma til þín. Hvernig skyldi þetta nú þróast?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vigdís Stefánsdóttir

Sæl Jóna

flott blogg hjá þér - þarf að fara að koma í heimsókn og spjalla:) 

Vigdís Stefánsdóttir, 7.8.2007 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband