Vinnum gegn kvíða barna og unglinga í tæka tíð.

Kvíði er eðilileg tilfinning þegar hann er innan ákveðinni marka. Kvíði getur verið jákvæður því kvíðatilfinningin getur aftrað okkur frá því að ana út í eitthvað alveg óhugsað.

Í dag er farið að veita alvarlegum kvíða meðal barna og unglinga meiri athygli en hingað til og er það vel. Kvíði hrjáir ekki aðeins unglinga, börn í fyrsta bekk grunnskóla geta líka sýnt sterk merki um mikinn kvíða, kvíða sem getur orðið viðvarandi vandamál ef ekkert er að gert.

Það er mikið talað um kvíða - en það er minna unnið að því að hjálpa börnum og unglingum að skilja kvíðann sínn, að skilja hvað það er sem kemur kvíðanum af stað. Kvíði kallar stundum fram ákveðna hegðun, barnið / unglingurinn hagar sér á annan hátt en æskilegt má teljast. Viðbrögðin sem barnið / unglingurinn sýnir eru þá mögulega skoðuð sem óþekkt, þrjóska, ókurteisi, vanvirðing, dónaskapur,sem óásættanleg hegðun, hvort heldur sem er í skóla, í frístund, á heimili sínu eða innan um ókunnuga. 

Hvað þarf til að skólinn fái fyrir alvöru raunhæfa aðstoð skóla og menntamálayfirvalda til að vinna gegn  kvíða barna og unglinga í tæka tíð, áður en kvíðinn þróast út í þunglyndi? 

Hvers vegna er ekki veitt ráðrúm til að vinna markvisst með þessi mál - sálarheill og vellíðan barnanna sett í forgangsröð? Það er auðvelt að kenna börnum jafnt sem unglingum að vinna með tilfinningar sínar og hugsanir. Barn sem er í tilfinningalegu jafnvægi og nær að blómstra í daglegu lífi á auðveldara með að takast á við óhjákvæmilegar fyrirstöður hversdagsins. Sterk sjálfsmynd og sjálfsöryggi styrkir barnið á svo margan hátt.

Vinnum gegn kvíða - í tæka tíð.

 2döpur.mykri  


Fátæklegar staðreyndir úr rauntíma spjaldtölva og snallsíma, skólaárið 2016 - 2017

Tölvueign heimila á stórhöfuðborgarsvæðinu er orðin það almenn í dag að ætla má að hægt sé að segja að tölva sé orðin sjálfsagður hluti af staðalbúnaði vel flestra heimila. 

Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á að samflétta netvædda upplýsingatækni á sem eðlilegastan hátt almennu námi í grunnskólanum. Með tilliti til þess hve stór hluti heimila hefur í dag greiðan aðgang að einni eða fleiri tölvum, auk aðgengis tölvugagna í gegnum snallsíma og spjaldtölvur, þá mætti áætla að langflest börn, á yngsu stigum grunnskólans hefðu greiðan aðgang að tölvum í ýmsu formi heima fyrir. Því væri ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að börnin hefðu einnig ákveðna grunnleikni í að meðhöndla tölvu, þau gætu að minnsta kosti kveikt og slökkt á tölvu og hefðu nokkra grunnfærni í að nota lyklaborð tölvunnar.
Þegar betur er að gáð er það kannski ekki eins eðlilegt og sjálfsagt og virðast kann í fyrstu. Staðreyndin er nefnilega líklega sú að mjög mörg börn á yngsta stigi grunnskólans kunna lítið sem ekkert að nýta sér tölvur til annars en að stjórna stýripinnum leikjatölva og til að taka þátt ýmsum gerðum tölvuleikja. Mörg þeirra hafa þó líklega einnig öðlast færni í að fara inn á youtube til að horfa á myndbönd.
(hluti af stiklum JBS um skólamálin í dag, 2017, 1.2.2017)

kid.computer

 


Eiga landsmenn von á mismunandi menntastefnum eftir búsetu barna?

Margir kennarar og aðrir sem hafa mikinn áhuga á menntun og velferð barna og unglinga hér í borginni, velta því nú fyrir sér hvernig verði með nýju þverpólitísku menntastefnuna sem borgin ætlar að setja fram áætlun um í lok ársins. Ótal spurningar brenna í hugum fólks. Hvernig verður t.d. staðan gagnvart núverandi aðalnámskrá leik og grunnskóla sem öllum kennurum landsins er í dag ætlað að skipuleggja vinnu sína eftir - já og miðla kennslu samkvæmt? Á að standa mismunandi að kennslunni eftir því hvort er í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum? Er hægt að vera með mismunandi menntastefnur í svona litlu og fámennu landi sem Íslandi. Aðrir furða sig á þátttöku erlendra fræðimanna í vinnunni - og hve grannt skuli nú horft til aðferða sem ætla megi að ýta frammistöðu íslenskra nemenda hærra á matskvarðann í PISA könnunum.

skoli

 


Hversu langt á að ganga í niðurskurði í rekstri leikskólanna?


Nú er farið að senda börnin heim vegna manneklu til að tryggja örugga umsjá þeirra barna sem eftir eru. Er það forsvaranlegt af hálfu borgaryfirvalda að aðstæður í leikskólum borgarinnar séu orðnar með þessu hætti.
Verðum við ekki að fara að snúa blaðinu við. Þetta getur ekki gengið svona.
Það hefur oft komið fram í máli leikskólastjóra að sökum veikinda starfsfólks verði álagið oft mikið. Leikskólastjórarnir, leikskólakennararnir og annað starfsfólk þurfi þá að sjá um að sinna meiru en sínu eigin starfi. Þannig sé reynt að halda starfseminni í eðlilegum skorðum. Þetta er þó engan vegin hægt til lengdar og ekki forsvaranlegt þegar um mikil forföll er að ræða. Ef ekki er hægt að kalla til auka starfsfólk vegna sparnaðar er ekki undarlegt þó að leikskólastjórar neyðist til að senda börnin heim til að auðveldara sé þá að tryggja umönnun þeirra barna sem eftir verða. 
Það að senda börnin heim er örugglega eitt það síðasta sem leikskólastjórarnir ákveða að gera og þetta er þeim ábyggilega þungbær ákvörðun.

Leikskólastjórar hafa nú þegar sparað eins og þeim er framast unnt. Þegar leikskólastjóri sem hefur 20 ára starfsreynslu við stjórnun og rekstur leikskóla og hlýtur að teljast sérfræðingur í slíkum rekstri segir að það sé ekki hægt að spara meira - þá hlýtur það að vera rétt. 

En hvað ætli sé skilgreint sem grunnþjónusta við börnin og forráðamenn þeirra? 
Hversu langt er nú þegar gengið á grunnþjónustuna? Verður gengið enn lengra? Hvenær? Með hvaða hætti?  Fá foreldrar endurgreitt vegna þeirra daga sem börnin eru send heim? Hver eru viðbrögð atvinnurekenda þegar foreldrar mæta með börn sín í vinnuna þar sem leikskólinn hefur þurft að senda þau heim?

Við hljótum að þurfa að setja allt kapp á að finna fé til að hægt sé að reka leikskólana með öruggum hætti og þannig að börnin fá þá bestu umönnun og þjónustu sem kostur er. 
Einhvers staðar leynast peningar í kerfinu. Vissulega er þörf á að fara í margvíslegar framkvæmdir víða í borginni, lagfæra götur, sprengja fyrir lögnum, byggja eitt og annað .... en við megum ekki vanrækja börn borgarinnar. Öryggi barnanna, góð umönnun og uppfræðsla þarf að vera í forgangi. 1ars


Hlustum betur á það sem er ekki sagt!

Hlustum á fólkið í kringum  okkur.
Á undanförnum vikum hefur verið áberandi blaðaumfjöllun um kvíða og þunglyndi. Minningargreinar bera þess líka á stundum merki að einstaklingar hafa ekki fundið neinn ljósan punkt í umhverfi sínu og tilveru. Á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og ungmennaráðs Reykjavíkur nýverið var sterkt ákall um auðvelt aðgengi grunnskólanemenda að sálfræðiaðstoð ef eða þegar á þyrfti að halda. Hingað til hefur sálfræðiþjónusta eða aðrar samtalsmeðferðir ekki verið niðurgreiddar af ríkinu og svo virðist sem það sé ekki á döfinni alveg strax. Til að stemma stigu við svo miklum kvíða og þunglyndi á framhaldsskólaaldri þarf að huga betur að þessum málum á meðan ungmennin eru á grunnskólaaldri. Slíkt þarf ekki að kosta meiri útgjöld heldur er frekar um hugarfarsbreytingu að ræða.
Það þarf að gefa því meiri gaum sem er að gerast og gefi sér tíma til að hlusta á börnin og unglingana. Við þurfum að læra að þegja og hlusta. Hlusta á það sem er sagt og ekki síður að hlusta eftir því sem ekki er sagt.

10256511_10152438574413933_2157575515497538641_n


Nemendamiðað skólastarf og Barnasáttmálinn

Innleiðing Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna í reykvískum skólum
Nú er mikið fjallað um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í skóla Reykjavíkur í tengslum við nemendamiðað skólastarf. Þegar skólastjórnendur leik og grunnskóla þurfa nú þegar að velta hverri einustu 10 krónu mynt nokkrum sinnum í hendi sér áður en ákveðið er í hvaða verkefni innan skólans peningurinn á að fara - þá má búast við að mörgum þykir undarlegt að nú eigi að fara í gang með enn eina áherslubreytinguna í skólakerfinu. En er það í raun og veru svo? Eru við ekki í dag að leggja kapp á að virða margvíslegan rétt bæði leik- og grunnskólabarnanna okkar? Ég held það. Við getum hins vegar alltaf gert betur.

Á Öskudagsráðstefnunni svonefndu, sem haldin var fyrir kennara hér í höfuðborginni á Öskudaginn, var megin áherslan á nemendamiðað skólastarf og kynnt innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í einum skóla á Englandi. Að mörgu leyti mjög áhugaverð kynning. Af kynningarmyndböndum sem þarna voru sýnd þar sem börnin í viðkomandi skóla sögðu frá skólastarfinu var auðfundið að mikil áhersla virtist vera á að leita eftir styrkleikum hvers og eins og að leyfa börnunum að njóta sín sem best í þekkingarleitinni. Ég er sannfærð um að kennarar í leik og grunnskólum Reykjavíkur leggja sig nú þegar eftir þessu. Hinar stóru bekkjardeildir í reykvískum skóla án aðgreiningar - þar sem allir eiga að fá að njóta sín - þá verður þetta hinsvegar oft afar erfitt í framkvæmd. 

Þröngt mega sáttir sitja
Annað sem var áberandi á myndböndunum sem voru sýnd frá enska skólanum voru húsakynnin. Í enska skólanum virtist vera talsvert aðþrengt varðandi húsrými, hver fermeter virtist nýttur - eða svo var að sjá. Í dag þegar erfitt er að koma frístundastarfi grunnskólanna fyrir inni í skólabyggingum eftir skóla þá væri okkur fróðlegt að læra að nýta skólarýmið betur. Það gætum við hugsanlega lært bæði af skólanum í Englandi og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum. 

Jákvæður agi - námsfriður og sjálfstraust
Agi virtist líka mikill - þ.e. jákvæður agi. Það kom greinilega fram að börnin litu á það sem sinn rétt að aðrir nemendur kæmu vel fram við sig og að vinnufriður ríkti. Allir ættu að koma vel fram hver við annan. Annað sem var athyglisvert var að nemendur voru í skólabúningum - sem dregur úr að aðskilnaði eftir efnahag. Nokkrir skólar í Reykjavík bjóða í dag upp á merktar skólapeysur þó notkun þeirra sé ekki orðin algeng.

England - Indland
Fyrirlestur og myndbandið minntu mig á margt sem ég sá og upplifði á skólaheimsóknum mínum á Indlandi árið 2001 þegar við fórum um 10 manna hópur kennara og annarra sem höfðum brennandi áhuga á árangursríkri kennslu og heimsóttum 12 indverska skóla á 10 dögum, skóla sem voru þekktir fyrir afburða námsárangur nemenda af öllum þjóðfélagasþrepum. Mér virtist í fljótu bragði að eitt af því sem væri sammerkt skólanum á Englandi og skólunum sem ég heimsótti á Indlandi að kennsluhættir væru skipulagðir með það í huga að virkja áhuga einstaklingsins á náminu og að nemendinn væri látinn finna að hann réði við námið. Námsaðstoð,uppörvun, uppbygging sjálfstrausts og jákvæður agi virtust sjálfsagðir hlutar af skólastarfinu.

Hlúum að sérhverju barni
Þetta er hluti af því sem ég hef ótal sinnum talað fyrir bæði í borgarstjórn og á fundum skóla- og frístundaráðs, þ.e. að brýnt sé að koma til móts við þarfir nemenda, þeim sé veitt aðstoð við námið strax og ljóst sé að aðstoðar sé þörf. Með sultarólinni sem umlykur skólana í dag og sífellt er strekkt á, tel ég að það megi teljast kraftaverki næst ef okkur tekst að innleiða þessa "nýju" (en samt gömlu) áherslur í skólakerfinu okkar með þeim hætti að nemendamiðað skólastarf verði að raunveruleika með farsælum hætti.

Kvíði - þunglyndi - andlegir og líkamlegir erfiðleikar
Í dag er mikið talað um að kvíði og þunglyndi séu að verða sífellt meira áberandi hjá börnum og unglingum. Getur verið að þetta hafi alltaf verið - en nú sé fullorðið fólk frekar farið að taka eftir ýmsum einkennum sem geta bent til þess að barn sé kvíðið eða jafnvel þunglynt? Getur verið að við séum alltof fljót á okkur að setja kvíða og þunglyndisstimpilinn á umsagnarblaðið? Getur verið að skólakerfið okkar ýti í dag undir að mörgum börnum líður ekki nógu vel? Getur verið að það við teljum okkur vera að gera svo vel en í raun séu inngrip sérfræðinganna að missa marks? 


Allt að 3ja ára bið eftir brýnni aðstoð
Biðlistar eftir greiningum eru lengri en eðlilegt getur talist - amk. í ýmsum hverfum Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar sjá um ýmsa sértæka þjónustu, greiningar og meðferðir þegar börnunum okkar líður illa og ýmsir brestir verða á skólagöngunni. Í dag getur barn þurft að bíða í allt að því þrjú ár eftir því að nafn hans eða hennar sé næst á lista eftir viðtali og mögulegri greiningu á þjónustumiðstöð. Er hægt að réttlæta þessa löngu bið? Ég get ekki séð það. Þar að auki geta orðið langir biðlistar eftir sértækri þjónustu við börn sem af einhverjum ástæðum er talið brýnt að taka tímabundið út úr almennum skóla til að vinna að lausn á sértækum vanda þeirra.

Grunnþjónustu og velferð æskunnar í forgang
Verum skynsöm, spörum á "réttum" stöðum, hliðrum til verkefnum í þjóðfélaginu, frestum skipulags framkvæmdum og verkefnum sem mögulega geta beðið og gerum skólunum kleift að hlúa sem best að börnunum okkar. Það skortir ekki á þekkingu og hæfni kennaranna - það skortir að skólastjórnendum og kennurum sé veitt svigrúm til að vinna verk sín sem skyldi.


Er næg kennslumálaráðgjöf í mennta- og menningarmálaráðuneytinu?

Eru nánir aðstoðarmenn mennta- og menningarmálaráðherra öllum hnútum kunnugir í skóla - og menntakerfi landsins? Frá leikskóla til framhaldsskóla?

Mennta- og menningarmálaráðherra var að ráða sér nýjan aðstoðarmann, nú eru þeir því tveir. Ég efast ekki um manngildi þessara ágætu einstaklinga - en það væri fróðlegt að vita hvort þeir þekki vel til innviða og uppbyggingar í skólakerfinu; leikskóla > grunnskóla > framhaldsskóla? Vissulega er glænýrri stofnun menntamála ætlað að sinna menntamálunum en mér þykir það skjóta samt dálítið skökku við að ráðherrann velji sér ekki menntunarfræðing til að hafa sér við hlið í svo mikilvægum málaflokki. Lögfræðingar, viðskiptafræðingar, markaðsfræðingar ...... gott fólk með framsýni og uppbyggingu að leiðarljósi .... en hvers vegna ekki líka fólk "af gólfinu" - fólk sem veit hvað er að gerast innan veggja skólanna?


Fyrirhugaðar breytingar á námsmati 10.bekkinga eru ekki tímabærar

Njóta allir 10. bekkingar jafnræðis í vor hvað varðar námsmatið óháð skóla og búsetu?

Illugi, - hvernig væri að fresta nýja námsmatinu um eitt ár? - Vöndum til verka!
Það er með ólíkindum að nú þegar meira en mánuður er liðinn af skólaárinu, þá eru kennarar ekki með skýr skilaboð með hvaða hætti eigi að meta þekkingu, frammistöðu og virkni nemenda í 10. bekk. Misvísandi skilaboð og óvissa skapa óþarfa kvíða hjá nemendum. 

Hvernig verður námsmatið í vetur? Hvernig verður einkunnagjöfin í vor? Hvernig verður ákveðið hvaða krakkar fá A og hverjir fá bara B+ eða B ?
"Ef ég fæ bara B er ég þá miklu lélegri en þeir sem fá B+? Hvaða munur er á A og B+? Verður einkunnagjöfin sambærileg í öllum grunnskólunum? Verða tekin upp samræmd próf eða verða inntökupróf í framhaldsskólana. Hvernig kemst ég sem best út úr námsmatinu? Hvernig geta allir kennarar metið  hæfni nemenda á alveg sambærilegan hátt? Hvað skipta hæfniviðmiðin miklu  máli í lokamatinu? Er ykkur sem ráðið þessu virkilega alvara með því að við sem erum í 10. bekk eigum að geta gert allt það sem þið setjið sem hæfnimarkmið? Þið hljótið að vera að grínast – er það ekki annars?"

Njóta allir 10. bekkingar jafnræðis þegar þeir útskrifast í vor hvað varðar námsmatið – bæði óháð skóla og búsetu? Skiptir máli hvort Ari og Anna búa í Reykjavík eða á t.d. Vopnafirði? Skiptir máli hvort Baldur og Björg búa í vesturhluta eða austurhluta Reykjavíkur, Garðabæ eða Kópavogi? Verður þau öll metin á sambærilegan hátt í 10.bekknum sínum í vetur? Hvernig er það mögulegt ef matsaðferðir liggja ekki fyrir fyllilega augljósar öllum?


Óraunhæf hæfnimarkmið
Nú á að leggja ofuráherslu á að nemendur geti nýtt sér þekkingu sína við hinar ýmsu aðstæður og það er gott eitt um það að segja enda er til lítils að eyða mörgum árum í grunnskóla í að læra eitthvað sem nýtist ekki síðar. Þannig hefur það þó ekki verið hingað til. Núna þykir mér þó gengið heldur langt í þessum efnum því það er með ólíkindum að lesa um hin háleitu hæfnimarkmið sem blessaðar unglingarnir okkar eiga að standa undir eftir nokkra mánuði. Það er engu líkara en þeir sem hönnuðu sum hæfnimarkmiðin hafi villst á handriti og talið sig vera að skrifa hæfniviðmið fyrir mun eldri einstaklinga. Höfundarnir hafi amk verið með einstaklinga í huga sem hafi verið þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga í grunnskóla þar sem einstaklingsmiðað nám stóð algjörlega undir nafni, þar sem hver og einn fékk að njóta hæfileika sinna sem skyldi, fékk fyllilega að blómstra undir leiðsögn sinna frábæru kennara. Þar sem aðstæður hafi verið með talsvert öðrum hætti en því hvernig raunverulegar aðstæður eru í íslenskum grunnskólum í dag þar sem tími og fé er naumt skammtað, víða skortir viðhlítandi tækjabúnað og nútímalegar aðstæður til skapandi kennslu, bæði innandyra og fyrir utan sjálft skólahúsnæðið. Svo má ekki gleyma þróunarverkefnum sem gætu mörg hver undirbúið unga fólkið undir nám og störf framtíðarsamfélagi þar sem þau munu vafalítið mörg þurfa að skapa sér sinn eiginn atvinnuvettvang sökum vaxandi atvinnuleysis. 

Vandaðra breytinga er þörf
Vissulega er breytinga þörf í menntakerfinu okkar hér á Íslandi en alla þróunarvinnu verður að vanda vel til því annars valda ómarkvissar og ósamhæfðar breytingar meiri skaða en framförum. Nýja námskráin sem er enn kölluð ný þó hún sé orðin nokkurra ára gömul boðar miklar breytingar sem geta orðið samfélaginu góð lyftistöng þegar litið er til áhrifa þeirra til framtíðar. Það þarf hinsvegar að gefa skólunum, stjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum ráðrúm til að átta sig á þessum breytingum til hlítar. Þannig er staðan ekki í dag, því miður. Skólafólk hefur leitað eftir leiðbeiningum frá yfirvaldi menntamála en þær leiðbeiningar hafa hingað til verið af alltof skornum skammti. 

Væri nú ekki skynsamlegra að fresta breytingum á námsmati um eitt ár til viðbótar til að hægt verði að ná góðri samstöðu um námsmatið, samvinnu allra sem koma að málinu - og ekki síst til að tryggja jafnræði allra 10. bekkinga að vori. 

"Illugi, - hvað liggur okkur á?"


Jóna Björg Sætran


Um átök og yfirgang á íbúafundi í Seljakirkju vegna breyttrar starfsemi í íbúðakjarna

Seljakirkja










Miðvikudagskvöldið 20.5.2015, var haldinn mjög sérstakur og átakamikill íbúafundur í Seljakirkju í Breiðholti þar sem var troðfullur salur af fólki með fjölmargar spurningar sem alltof fá svör fengust við. Til fundarins hafði verið boðað af hópi íbúa í hverfinu vegna óljósra frétta um breytta starfsemi íbúðakjarna í Rangárseli 16 – 20.  Nokkur tilvik höfðu komið upp síðustu vikur þar sem fólk sem býr í næsta nágrenni íbúðakjarnans hafði orðið fyrir ónæði og truflunum vegna þessarar breyttu starfsemi.

Íbúðakjarninn Rangárseli hefur í all mörg ár gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem góður valkostur fyrir einstaklinga með líkamlega fötlun, fólk sem hefur viljað búa sem mest sjálfstætt en þurft meiri eða minni aðstoð við daglegt líf. Við sem búum í Seljahverfi höfum geta verið stolt af því að þetta góða úrræði væri til staðar í hverfinu okkar og á svona líka góðum stað, miðsvæðis og stutt í falleg útivistarsvæði þar sem börn sem fullorðnir sem og aldraðir hafa notið veðursældar á góðviðrisdögum og börnin leikið sér áhyggjulaus. Þarna eru tveir skólar, tvær kirkjur, félagsmiðstöð, leikskóli, skólasundlaug, dvalarheimili fyrir aldraða og íþróttahús í næsta nágrenni. Mikil umferð barna, unglinga og fullorðinna.

Nú hefur Reykjavíkurborg fest kaup á íbúðakjarnanum Rangárseli og breytt starfseminni sem þar fer fram. Eftir því sem næst verður komist þá eru þarna nú íbúðaúrræði fyrir fólk með margþætta eða samþætta fötlun, í einhverjum tilvikum einnig andlega fötlun og jafnvel umtalsverðar geðraskanir og hegðunarvanda og meðal annars íbúðarúrræði fyrir nokkra einstaklinga sem þurfa stöðuga umsjón umönnunarstarfsmanna og sólarhrings gæslu.

Mikillar óánægju gætti meðal fundarmanna með hve litlar upplýsingar íbúar hverfisins hefðu fengið  varðandi starfsemina í íbúðakjarnanum. Þrír fulltrúar á vegum borgarinnar stigu í ræðustól en skildu eftir sig enn fleiri spurningar meðal fundarmanna en svör. Ein af tillögum þeirra til að bæta ástandið var að óska eftir samstarfi við íbúa hverfisins og stungu m.a. upp á nágrannavörslu af hálfu íbúanna í næsta nágrenni. Þessi tillaga féll vægast sagt í grýttan jarðveg fundarmanna og vakti bæði undrun og hneykslan.

Mikil reiði var meðal fundargesta vegna þess hvernig staðið var að breytingunum og víst er að það hefði verið betra fyrir velferðarsvið og velferðarráð  borgarinnar og borgaryfirvöld að halda íbúafund fyrir breytingarnar og útskýra hvers konar starfsemi myndi fara þarna fram og hvernig búið yrði að íbúum hússins bæði hvað varðar umönnun og gæslu í þeim tilvikum sem þess er þörf. Það var ekki gert því þessar breytingar falla víst ekki undir ákvæði um grenndarkynningu eða svo var fundargestum tjáð af fulltrúum borgarinnar. 

Þeir íbúar hverfisins sem lýstu því ónæði sem þeir hafa orðið fyrir vegna breyttrar starfsemi í íbúðakjarnanum fengu skömm fyrir frá fulltrúum borgarinnar. Mér sýnist eftir fundinn í Seljakirkju liggja nokkuð ljóst fyrir að fram að þessu hefur ekki verið næg umönnun og gæsla fyrir þá íbúa með margþætta eða samþætta fötlun sem þarna búa og þurfa 24tíma vöktun og gæslu. Einstaklingar sem vitað er að þurfa stöðuga gæslu allan sólarhringinn eiga t.d. alls ekki að vera einir og án gæslu að valsa úti á róluvelli eða í almenningsgarði í nágrenninu eins og fram kom á fundinum að dæmi eru um.

Ég vona að nú verði strax breyting þar á og að fundin verði farsæl lausn á þeim vandamálum sem íbúar íbúðakjarnans og nágrannar þeirra standa frammi fyrir. Margvíslegar athugasemdir komu fram á fundinum frá fundarmönnum og því miður fékk fólk ekki skilmerkileg svör frá fulltrúum borgarinnar. Formaður velferðarráðs á vegum meirihluta borgarstjórnar fór í ræðustól og hefði mátt stilla máli sínu í hóf og vanda sig betur.

Sjálf er ég búsett í Seljahverfi og mætti þarna ekki síst sem íbúi í hverfinu (þó ég sé vissulega líka varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina) og er því annt um öryggi og friðsæld í hverfinu og þá er ég ekki aðeins að tala um öryggi fárra - heldur allra, vissulega líka fólks með fjölþættar greiningar, margþætta eða samþætta fötlun.
Einn af fulltrúum borgarinnar lagði áherslu á mannréttindi íbúa íbúðakjarnans til að búa við góðar og heimilislegar aðstæður, þeim liði vel og upplifðu heimilisbrag. Vissulega eru það mannréttindi fólks með margþætta eða samþætta fötlun að fá að búa við góðar aðstæður og að fá að njóta lífsins eins vel og hægt er - og á eigin forsendum, en það vöknuðu ýmsar spurningar í huga mínum þarna á fundinum - og eftir hann, hvort þessir einstaklingar byggju við þær bestu aðstæður sem völ væri á þeim til handa. Er nægilegt rými til að þeir geti notið friðsældar og útiveru? Búa þeir sjálfir við nægilegt öryggi hvort heldur sem er innanhúss eða utan og rétt við mikla umferðargötu? 

Í nútíma samfélagi er vissulega þörf á því að gera sem flestum kleift að búa við heimilislegar og notalegar aðstæður. Það er vissulega jákvætt að vinna að blandaðri uppbyggingu íbúðakjarna og leyfa flóru mannlífsins að njóta sín sem best. Það þýðir hins vegar ekki að kasta til þess höndunum, ana af stað í framkvæmdir án þess að hugsa þær til enda. Ef einhverjar líkur eru á að öryggi vistmanna, starfsmanna þeirra eða nágranna sé á einhvern hátt ógnað, þá þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt áður en að starfsemin hefst. Það þýðir ekki fyrir fulltrúa borgarinnar að hrópa ókvæðisorð að fundarmönnum úr ræðustól og skamma þá fyrir að taka ekki tillit til mannréttinda íbúa íbúðakjarnans. Slíkt er ekki til framdráttar því sem reynt er að gera til hagsbóta fyrir einstaklinga sem þurfa sérstök úrræði.


Bíða í 20 mánuði eftir talþjálfun

Á mbl.is í dag er frétt um langan biðtíma eftir talþjálfun leikskólabarna, grunnskólabarna og fullorðinna hjá Talþjálfun Reykjavíkur. Þar kemur fram að auk 240 barna á leikskólaaldri sem bíði eftir talþjálfun bíði einnig um 100 grunnskólabörn auk þriggja fullorðinna einstaklinga. 

Þetta nær ekki nokkurri átt.
Í greininni er rakið ferlið sem fer í gang ef vísbendingar um slakan málþroska koma í ljós við 2 1/2 og 4ra ára skoðun barna á vegum heilsugæslunnar. Ferlið virðist hálf flókið og við tekur alltof langur biðtími.

Hvaða áhrif getur slakur málþroski haft á daglegt líf barnanna?
Hvaða áhrif hefur slakur málþroski á líðan og nám barnanna þegar þau koma í grunnskólann?

Þessum aðstæðum þarf að gefa betri gaum og finna virkar úrbætur ekki seinna en strax.nam 


mbl.is Fjögur hundruð börn þurfa að bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband