Færsluflokkur: Bloggar

PhotoReading - myndlestur, já það er bara að virka!

Strákgreyið með þykku bókina, já og auðséð að hann átti mikið verk fyrir höndum. Hann var líklega ekki sá eini sem sat með skrudduna sína og fletti fyrstu síðunum hægt ............ mjög hægt ....... fáeinum síðum .......... hvenær skyldi kaflinn verða búinn? Ætti ég að prófa að segja honum að það sé nú hægt að gera þetta á fljótlegri hátt, hann þurfi ekki endilega að velja lengstu og erfiðustu leiðina að prófskírteininu.
Nei, auðvitað gat ég ekki farið að skipta mér af þarna í háloftunum, nóg er nú samt.

Það ætti auðvitað að kenna þetta öllum sem eru komnir á hans aldur, lestrarhestum og hinum líka sem varla komast yfir bók á árinu, hvað þá þeim sem eru komnir í framhaldsnám. Ég hef nú stundum, nei annars - margoft er nú réttara, hugsað til þess hve námið hefði verið léttara, ég tala nú ekki um meistaraprófsnámið ......... já og svo kennslan hér áður fyrr og kennsluundirbúningurinn.

Þarna kom flugfreyjan með moggann, alltaf gaman að glugga í hann þegar maður hefur ekki verið lengi heima. Skrýtið hvað allt mögulegt verður áhugavert þegar maður les íslensku blöðin í háloftunum. Fínt að glugga í þau á meðan bókin væri að meltast hjá mér. Kíki í hana á eftir, hvort sem er búin að sjá myndina sem þeir bjóða uppá. Frábært að geta nýtt tímann því í mörg horn að líta þegar ég kem heim.

 


"Hvað ertu eiginlega að gera með bókina? Ertu smá skrýtin?"

Loksins. Margra tíma bið á flugstöðinni var lokið og ég loksins sest í langþráð sætið mitt. Var svo heppin að geta fengið sæti við ganginn. Bókin beið. Nú var um að gera að skella sér í allan undirbúninginn áður en að flugfreyjurnar bæru fram hressinguna sem myndi pottþétt bragðast vel eftir þessa löngu bið. Greip bókina, ákvað tilganginn, fletti henni fram og tilbaka, skoðaði textauppbyggingu og síðan var það slökunin. Það var ekki erfitt að slaka á þarna í háloftunum þrátt fyrir suð í hreyflum og skvaldur í röðinni fyrir aftan mig. Þurfti eiginlega að passa að sofna ekki. Festi athyglispunktinn og fór svo að fletta. Sneri bókinni að sjálfsögðu við og fletti henni tilbaka á hvolfi, ekkert á móti því. Brosti meira að segja smávegis á meðan, tók bara allan pakkann. Skrapp út að borða með höfundinum á meðan ég myndlas ...... við vorum stödd á Hawaii, mundi sem betur fer eftir að vista í lokin. Skellti mér svo í að skoða textann betur................ en eftir smástund varð mér litið á strákinn hinu megin við ganginn með hnausþykka kennslubók á borðinu fyrir framan sig ......... hann var að horfa á mig, hann varð eitthvað hálfs skrýtinn í framan og sagði lágt "hvað varstu eiginlega að gera?" Ég gat ekki annað en brosað, grey strákurinn hefur haldið að ég væri stórskrýtin. Það var ekki hægt annað en að vorkenna honum, maður sá svo greinilega á bókinni hans að hann var bara búinn með örfáar blaðsíður þó ég væri búin að myndlesa alla bókina! Nú kom flugfreyjan með rúnnstykkin og djúsinn, frábært!


"Hvað eru margir Siggar eftir?"

“Hæ hæ, hvernig gengur? Er Siggi kominn á sinn stað? eða ætti ég frekar að spyrja hve margir Siggar eru eftir?” ... ég var alveg að verða of sein á námskeið en var ákveðin í að ýta aðeins á eftir dömunni með þetta.

“... sko  - ég var byrjuð en þá kom Lísa vinkona í heimsókn með krakkana ........ það var sko hún sem kynnti mig fyrir Sigga, þau voru leikfélagar og hún hélt alltaf rosamikið upp á hann, ....... hún bara spurði hvort ég væri orðin eitthvað rugluð!” “Siggi kominn niður í skúffu!”

Þetta var nú ekki nógu gott. Ætlaði nú gömul æskuvinkona gamla, látna kærastans að fara að hafa ómeðvitað áhrif á það hvort glæsileg ung kona (að vísu með dálítið brotna sjálfsímynd) fengi að njóta þess að vera elskuð á ný af nýjum draumaprinsi! Nú var að setja handbremsuna í botn.

“Heyrðu vinan, hvort ætlar þú að fara að opna augun fyrir umhverfinu og sjá blómin í blómagarðinum eða að sitja heima og fletta í alfræðiorðabók yfir hugsanlegar merkingar á orðinu einlífi, skírlífi, klausturlíf, ......... Hristu þessa stelpu af þér, hún er ekki vinkona í raun ef hún er að leggja þessa pressu á þig, hún er sjálf ekki komin yfir þessa erfiðleika sem þið lentuð jú öll í en ÞÚ er ákveðin í halda áfram eða................ heyrðu, ég þarf að beygja ....... rosaleg umferð er þetta, - haltu nú áfram og sendu mér línu um hvernig gengur, þú ert með netfangið............. bæ!”


"Á ég virkilega að taka niður myndina af honum Sigga mínum?"

“Ertu að meina það? Á ég virkilega að taka niður myndina af honum Sigga?” Stúlkan leit á mig hálf hrygg.

“Ja, mér finnst það” sagði ég. “Líttu í kringum þig hérna í stofunni og kíktu svo inn í svefnherbergið á eftir. Teldu hvað þú ert með margar myndir af gamla góða kærastanum sem dó fyrir ...... ja, teldu í huganum fyrir hvað mörgu árum síðan!”

“Þú ert enn með myndir af honum úti um allt, kveikir á kertum við myndirnar og ............. Hvaða áhrif heldur þú að þetta hafi á þig? Hvaða skilaboð ertu að senda út í alheiminn?

“Heldur þú að Siggi hefði viljað að þú yrðir alltaf ein?”

“Siggi var fínn strákur – en eru ekki að verða 9 ár frá því að hann dó, og þú ert enn að syrgja hann – á sama tíma og þú vilt fara að kynnast einhverjum æðislegum gæja til að njóta þess að vera til”.

“Taktu nú myndirnar niður, þú getur skilið eina eftir, kveiktu bara af og til á kerti hjá myndinni hans ....... og veldu þér glaðlegar og rómantískar myndir á veggina.........við getum spáð í það saman ef þú vilt. Þegar þú ert búin að því – þá skulum við skella okkur í bæinn og tékka á Bóndarósunum ........ !”Ha, bóndarósum, til hvers?”

“Engan asa stúlka, eitt í einu, fyrst myndirnar niður, slökkva á kertunum, taka smá til og pússa OG SVO athugum við þetta með Bóndarósirnar!”


Líttu í kringum þig!

Hvað sérðu þegar þú horfir í kringum þig heima hjá þér? ´

Þú ert með markmiðin þínu alveg á tæru, er það ekki?
Er samræmi á milli þess sem þú hefur sett þér sem markmið og þess sem þú ert með í kringum þig allan daginn - heima / í vinnunni / og svo aftur heima þegar vinnudegi lýkur?

Farðu aðeins yfir markmiðin þín - og fáðu þér síðan smá göngutúr um híbýlin þín og horfðu gagnrýnum augum á umhverfi þitt.

Hvernig er með veggskreytingarnar?

Er samræmi á milli markmiðanna og veggskreytinganna - eða eru veggskreytingarnar í hróplegu ósamræmi við það sem þú vilt að sé raunveruleiki þinn?

Hvernig getur þú komið betra samræmi á - án mikils tilkostnaðar?
Spáðu aðeins í þetta.

 

 

 


Armbeygjur hugans geta byrjað hér og nú!

Jæja, hvernig gekk þér svo í gær með að gera þér grein fyrir því hverjir hafa “forritað” þig til þessa? Kom þér eitthvað á óvart? Stundum líður maður nefnilega bara áfram, siglir í gegnum öldurnar eftir bestu getu hverju sinni, en ......... svo allt í einu uppgötvar þú að kanski hefði verið miklu sniðugra, betra OG skemmtilegra – að fara öðruvísi að.

Hvað þá?

Í stað þess að sýta um of það sem liðið er, er þá ekki bara miklu viturlegra að taka fram nýtt blað, opna nýtt Word skjal í tölvunni, og taka nýja stefnu? Ekki vera að eyða dýrmætri orku í að velta sér um of úr því sem búið er. Það er miklu vænlegra til góðra verka að spá frekar í hvernig hægt sé að “forrita sig samkvæmt eigin vilja og óskum”.

Já, hvað viltu? Hvernig viltu blómstra?


Það er álitið að allt að 60 – 65 þúsund hugsanir fari í gegnum huga mannsins við “venjulegar” aðstæður hvern sólarhring, EN það er líka talað um að um 95% af þessum hugsanafjölda séu sömu hugsanirnar dag eftir dag – eftir dag – eftir dag............ Hvers vegna? Jú, við erum svo mikið að fást við það sama á hverjum degi. Við festumst í vananum. Er ekki kominn tími til að fara að bretta upp ermarnar og taka sér tak? Taka upp nýjar aðferðir, gera það sem nærir þig og gleður og hjálpar þér þá um leið að gleðja þá sem eru í kringum þig enn frekar en í dag. Brosa – og fá bros til baka!


Breyttu til – og vittu til – þú ferð jafnvel að fá nýjar hugmyndir! Sittu annars staðar við eldhúsborðið næst þegar þú færð þér morgunverð, gakktu aðra leið frá heimili þínu og að bílnum eða strætó. Farðu í aðra matvöruverslun til að versla í matinn ...... breyttu til. Taktu eftir því sem er að gerast í kringum þig. Hlustaðu á það sem aðrir eru að segja við þig. Já, hlustaðu - ég er að tala um virka hlustun þar sem þú reynir virkilega að þegja og hlusta – ekki bara heyra það sem þú “heldur að hann eða hún sé að segja” – eða hafa tilhneigingu til að heyra það sem þú er hrædd/-ur um að viðkomandi sé að segja.

 

Tilbreytingin gæti orðið fyrsta skrefið hjá þér til að taka nýja stefnu og efla þinn innri styrk til að taka nýjar ákvarðanir. Mundu nú að hafa smá minnisblað og blýantsstubb við hendina í vasanum eða veskinu, það er aldrei að vita nema nýjar hugmyndir fari að streyma til þín. Hvernig skyldi þetta nú þróast?  


Hverjir eru áhrifavaldarnir í lífi þínu?

Hvers vegna ert þú í þeim sporum sem þú stendur í núna?

Aðstæður þínar í dag þurfa á engan hátt að vera lýsandi fyrir framtíð þína. Þér er það nokkuð í sjálfsvald sett hvort þú heldur áfram á sömu braut eða hvort þú vilt velja aðra stefnu.

Hverjir hafa verið áhrifavaldar í lífi þínu hingað til? Foreldrar, aðrir fjölskyldumeðlimir, leikfélagar, skólafélagar, kennarar, vinir, kunningjar, vinnufélagar, vinnuveitendur, fjölmiðlar, þjóðfélagsstraumar, atvik og aðstæður þar sem þú hefur staldrað við í styttri eða lengri tíma í gegnum árin? Áhrifin geta bæði hafa verið jákvæð og ...... miður jákvæð.

Nú er að opna word skjal og skrifa niður í 5 - 10 mín. alla þá áhrifavalda sem þér koma í hug að hafi mótað líf þitt, haft afgerandi áhrif á skoðanir þínar, sjálfstraust og sjálfsvirðingu.
Ertu sátt/-ur við niðurstöðuna? Hvers konar áhrif hafði hver og einn?

Að sjálfsögðu verður þetta ekki tæmandi skilgreining hjá þér til þess þyrftir þú líklega nokkra daga, ég á nú ekki von á því að þú hafir þá svona á lausu um mitt sumar - já og við lok verslunarmannahelgarinnar. Þú getur alveg látið hálftíma duga að sinni. 

Aðaltilgangurinn með þessari æfingu er að þú gerir þér grein fyrir því að þú hefur orðið fyrir alls konar áhrifum sem hafa svo mótað þig og líf þitt fram til þessa. Þú hefur hlotið ákveðna forritun frá fjölmörgum aðilum. Þegar þú hefur gert þér þetta ljóst getur þú líka skilið að þú hefur það í þínu valdið að "forrita sjálfa/-n þig upp á nýtt", þannig að þú takist á við verkefni dagsins í dag og morgundagsins á eigin forsendum en ekki eftir því sem aðrir hafa innprentað þér að henti þér best.

Hugsaðu sjálfstætt - taktu sjálfstæðar ákvarðanir og út frá eigin forsendum. 
Málaðu regnboga lífs þíns með litunum úr litakassanum þínum, nýttu þér alla regnbogans liti og njóttu þess að vera þú! 

 

 


Einelti á vinnustöðum er óréttlætanlegt

Manni bregður óneitanlega við þegar eineltismál á vinnustöðum ber á góma. Hve lengi þarf fólk að sitja undir slíkum átroðningi af öðrum áður en þeir fá rönd við reist? Andlegt ofbeldi hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar en líkamlegt ofbeldi og áhrifin geta varað í óendanlega mörg ár. Það þarf sterkar taugar til að standa upp á móti slíku. Sumum er það um megn og láta eineltið þá ganga yfir sig alltof lengi án þess að gera neitt í málunum. Þeir leita hugsanlega til einhvers samstarfsmanns en sá eða sú fær viðkomandi til að gera ekkert í málinu, það gæti gert illt verra. Hver myndi líka trúa viðkomandi? Einelti! Hér! Það getur ekki verið!
Hvar eru trúnaðarmenn starfsmanna í slíkum tilvikum - og hvers vegna geta starfsmennirnir ekki leitað til þeirra í trausti þess að geta þar fundið samstöðu og sjálfsagða aðstoð til að ná fullum styrk og sjálfsvirðingu til að láta binda endi á málið.
Hve margir skyldu hafa upplifað einelti á sínum vinnustað? Einstaklingar sem upplifa einelti á vinnustað sínum geta engan veginn notið sín á vinnustaðnum. Hvernig eiga þeir þá að geta sýnt hvað í þeim býr?
Það er óskandi að umræðan sem farin er af stað verði til þess að það verði veruleg vakning um þessi mál þannig að fólk fái að njóta sín betur.
Það er gleðilegt þegar fólk í þessari aðstöðu ákveður "Hingað og ekki lengra!" Það getur tekið á - en það er þess virði, það er ekki nokkurt réttlæti í því að láta aðra orkuræna sig með einelti, sama hver á í hlut og hvar. Síðan er að losa sig við leiðindin sem þessu fylgja. Sleppa takinu á hugarangrinu sem vill koma í kjölfar eineltisins. Vinna að því að eignast hugarró í þeim tilgangi að geta farið að njóta sín á ný. Allir hafa rétt á því að blómstra. 

Auðlegðin í pappakassanum á Indlandi

Þar sem við ræðum svo mikið um auðlegð kemur upp í hugann mynd af konum á Indlandi þar sem þær sitja á vel sópaðri jörðinni með ýmis konar hannyrðir í kjöltu sér. Ég er þarna stödd í hópi íslenskra kennara með brennandi áhuga á bættum kennsluháttum.

Konurnar sitja í hálfhring en fyrir miðju er pappakassi.

Þær brosa ánægðar - en samt dálítið feimnar - jafnvel auðmjúkar og sýna okkur handavinnuna sína.
Kassinn virðist mikilvægur. Túlkurinn talar við konuna sem virðist vera í forystu hópsins, hún handleikur pappakassann, hún horfir á konurnar sem fylgjast vel með og vilja leggja eitthvað til málanna.

Loksins fengum við að heyra söguna. Hjálparstarfið í þessu þorpi gekk út á að fá konurnar út úr kofunum sínum til að koma til fræðslu í heilbrigðismálum einu sinni í viku. Þegar það tókst var námið þróað yfir í handverk, einkum kennslu í að taka mál og síðan sníða og sauma föt. Fyrir hvern dag sem konurnar mættu til kennslunnar lagði banki stórborgarinnar ákveðna upphæð inn á bankareikning á nafni viðkomandi konu. Þegar konurnar voru fullnema í fræðunum og færar um að
sauma flíkur eftir máli var hverri konu afhent saumavél á hennar nafni. Eftir því sem þær luku hverju hannyrðaverkefninu á fætur öðru þurftu þær að greiða bankanum til baka upp í andvirði vélarinnar.

Eftir að verð vélarinnar var greitt upp áttu konurnar sjálfar saumavélarnar og komnar með eigin fyrirtæki má segja. Áfram urðu þær að greiða hluta af launum sínum í sjóð, núna í pappakassan sem var sameiginlegur sjóður þeirra allra. Þegar sjóðurinn var lagður inn bætti bankinn alltaf við jafn hárri upphæð.  Konurnar gátu síðan sótt um styrk úr sjóðnum til að geta t.d. sent börn sín til mennta eða til að greiða t.d. dýra læknisþjónustu.

Vægi og máttur kynjanna í þorpinu hafði breyst. Karlarnir unnu flestir við að plægja akrana og reyna að rækta fóður handa þessum örfáu skepnum sem þarna sáust.
Karlmennirnir voru allt í einu búnir að missa fyrri valdastöðu þegar konurnar voru háðar þeim í nær einu og öllu. Núna áttu konurnar peningana. Seðlarnir í pappakassanum góða ásamt mótframlagi bankans gerði þeim kleift að styðja við bakið á þeim konum sem á styrk þurftu að halda. Þær réðu loksins. Karlmennirnir þurftu að biðja konurnar um að sækja um styrk ef þurfti t.d. að kaupa nýjan uxa! Auðlegðin var þarna geymd í pappakassa, auðlegðin sem hafði skapast í gegnum sjálfshjálpina og saumavélarnar. Líf þeirra hafði breyst.

Langerfiðasta þrepið í þessu tilviki var að fara út um dyrnar á leirkofanum með stráþakinu. Þegar þær fengust til þess og komu í fyrstu hreinlætisfræðsluna í "fræðslu"kofanum var í raun einn stærsti sigurinn í höfn. Þær höfðu fengist til að taka ákvörðun um að gera líf sitt betra.

Þú verður að leyfa þér að vilja sjá bjartari framtíð. Ert þú búin/-n að veita þér heimild til þess?

 

 


Hugsun - orð - virðing og eigin væntumþykja; ég - um mig - frá mér - til mín

Nú við upphaf mánaðarins er ágætt að líta aðeins í kringum sig og taka stefnuna á næsta 30 + 1 dag. Þetta er jú mánuðurinn þegar allt fer að breytast, fríin að verða búin, skólarnir að fara að byrja. Það er ekki laust við að maður sjái kvíðahnútana fara að myndast og stækka í kringum sig.
Það er eins og allt breytist eitthvað á sumrin, það verður svo miklu léttara yfir fólki, það virkar miklu glaðara og hamingjusamara.

En, þarf þessi gleði að enda og stritið að taka við? Er þess ekki kostur að gefa sér tíma til að staldra aðeins við, meta stöðuna? Hvað liggur fyrir að gera næstu vikur og mánuði? Gerðu eitthvað róttækt en raunhæft í að aðlaga þróun mála fyrirfram að því sem þú helst vilt.

Einn besti staðurinn til að byrja er í huganum.

1. Hvernig eru þínar eigin hugsanir um þig? - Hvaða afleiðingar hefur það í för með sér?
2. Hvernig talar þú um þig? - Hvaða áhrif heldur þú að það hafi á þig?
3. Berðu virðingu fyrir þér? - Hvernig sýnir þú það?
4. Þykir þér vænt um þig? - Hvernig sýnir þú það?

Þessar athugasemdir taka ekki svo ýkja mikið rými - en það segir ekki allt um gildi þeirra og raunveruleg áhrif þeirra á líf þitt - og þá um leið á líf þeirra sem þér þykir vænst um.
Áhrifanna gætir ótrúlega víða, jafnvel víðar en við fáum nokkurn tímann vitneskju um.

Taktu nú fram gömlu góðu ómissandi gormabókin og punktaði niður svörin við þessum fjórum spurningum hér að ofan.
Veltu síðan fyrir þér hvort áhrifin séu þér að skapi.
Hvernig getur þú breytt afleiðingum áhrifanna þannig að lífið brosi breiðar og blíðar við þér?

Gangi þér vel

Jóna Björg Sætran


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband