Færsluflokkur: Menntun og skóli
Tölvueign heimila á stórhöfuðborgarsvæðinu er orðin það almenn í dag að ætla má að hægt sé að segja að tölva sé orðin sjálfsagður hluti af staðalbúnaði vel flestra heimila.
Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á að samflétta netvædda upplýsingatækni á sem eðlilegastan hátt almennu námi í grunnskólanum. Með tilliti til þess hve stór hluti heimila hefur í dag greiðan aðgang að einni eða fleiri tölvum, auk aðgengis tölvugagna í gegnum snallsíma og spjaldtölvur, þá mætti áætla að langflest börn, á yngsu stigum grunnskólans hefðu greiðan aðgang að tölvum í ýmsu formi heima fyrir. Því væri ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að börnin hefðu einnig ákveðna grunnleikni í að meðhöndla tölvu, þau gætu að minnsta kosti kveikt og slökkt á tölvu og hefðu nokkra grunnfærni í að nota lyklaborð tölvunnar.
Þegar betur er að gáð er það kannski ekki eins eðlilegt og sjálfsagt og virðast kann í fyrstu. Staðreyndin er nefnilega líklega sú að mjög mörg börn á yngsta stigi grunnskólans kunna lítið sem ekkert að nýta sér tölvur til annars en að stjórna stýripinnum leikjatölva og til að taka þátt ýmsum gerðum tölvuleikja. Mörg þeirra hafa þó líklega einnig öðlast færni í að fara inn á youtube til að horfa á myndbönd.
(hluti af stiklum JBS um skólamálin í dag, 2017, 1.2.2017)
2.2.2017 | 17:37
Eiga landsmenn von á mismunandi menntastefnum eftir búsetu barna?
Margir kennarar og aðrir sem hafa mikinn áhuga á menntun og velferð barna og unglinga hér í borginni, velta því nú fyrir sér hvernig verði með nýju þverpólitísku menntastefnuna sem borgin ætlar að setja fram áætlun um í lok ársins. Ótal spurningar brenna í hugum fólks. Hvernig verður t.d. staðan gagnvart núverandi aðalnámskrá leik og grunnskóla sem öllum kennurum landsins er í dag ætlað að skipuleggja vinnu sína eftir - já og miðla kennslu samkvæmt? Á að standa mismunandi að kennslunni eftir því hvort er í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum? Er hægt að vera með mismunandi menntastefnur í svona litlu og fámennu landi sem Íslandi. Aðrir furða sig á þátttöku erlendra fræðimanna í vinnunni - og hve grannt skuli nú horft til aðferða sem ætla megi að ýta frammistöðu íslenskra nemenda hærra á matskvarðann í PISA könnunum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2016 | 10:37
Hversu langt á að ganga í niðurskurði í rekstri leikskólanna?
Nú er farið að senda börnin heim vegna manneklu til að tryggja örugga umsjá þeirra barna sem eftir eru. Er það forsvaranlegt af hálfu borgaryfirvalda að aðstæður í leikskólum borgarinnar séu orðnar með þessu hætti.
Verðum við ekki að fara að snúa blaðinu við. Þetta getur ekki gengið svona.
Það hefur oft komið fram í máli leikskólastjóra að sökum veikinda starfsfólks verði álagið oft mikið. Leikskólastjórarnir, leikskólakennararnir og annað starfsfólk þurfi þá að sjá um að sinna meiru en sínu eigin starfi. Þannig sé reynt að halda starfseminni í eðlilegum skorðum. Þetta er þó engan vegin hægt til lengdar og ekki forsvaranlegt þegar um mikil forföll er að ræða. Ef ekki er hægt að kalla til auka starfsfólk vegna sparnaðar er ekki undarlegt þó að leikskólastjórar neyðist til að senda börnin heim til að auðveldara sé þá að tryggja umönnun þeirra barna sem eftir verða.
Það að senda börnin heim er örugglega eitt það síðasta sem leikskólastjórarnir ákveða að gera og þetta er þeim ábyggilega þungbær ákvörðun.
Leikskólastjórar hafa nú þegar sparað eins og þeim er framast unnt. Þegar leikskólastjóri sem hefur 20 ára starfsreynslu við stjórnun og rekstur leikskóla og hlýtur að teljast sérfræðingur í slíkum rekstri segir að það sé ekki hægt að spara meira - þá hlýtur það að vera rétt.
En hvað ætli sé skilgreint sem grunnþjónusta við börnin og forráðamenn þeirra?
Hversu langt er nú þegar gengið á grunnþjónustuna? Verður gengið enn lengra? Hvenær? Með hvaða hætti? Fá foreldrar endurgreitt vegna þeirra daga sem börnin eru send heim? Hver eru viðbrögð atvinnurekenda þegar foreldrar mæta með börn sín í vinnuna þar sem leikskólinn hefur þurft að senda þau heim?
Við hljótum að þurfa að setja allt kapp á að finna fé til að hægt sé að reka leikskólana með öruggum hætti og þannig að börnin fá þá bestu umönnun og þjónustu sem kostur er.
Einhvers staðar leynast peningar í kerfinu. Vissulega er þörf á að fara í margvíslegar framkvæmdir víða í borginni, lagfæra götur, sprengja fyrir lögnum, byggja eitt og annað .... en við megum ekki vanrækja börn borgarinnar. Öryggi barnanna, góð umönnun og uppfræðsla þarf að vera í forgangi.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2016 | 10:06
Hlustum betur á það sem er ekki sagt!
Hlustum á fólkið í kringum okkur.
Á undanförnum vikum hefur verið áberandi blaðaumfjöllun um kvíða og þunglyndi. Minningargreinar bera þess líka á stundum merki að einstaklingar hafa ekki fundið neinn ljósan punkt í umhverfi sínu og tilveru. Á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og ungmennaráðs Reykjavíkur nýverið var sterkt ákall um auðvelt aðgengi grunnskólanemenda að sálfræðiaðstoð ef eða þegar á þyrfti að halda. Hingað til hefur sálfræðiþjónusta eða aðrar samtalsmeðferðir ekki verið niðurgreiddar af ríkinu og svo virðist sem það sé ekki á döfinni alveg strax. Til að stemma stigu við svo miklum kvíða og þunglyndi á framhaldsskólaaldri þarf að huga betur að þessum málum á meðan ungmennin eru á grunnskólaaldri. Slíkt þarf ekki að kosta meiri útgjöld heldur er frekar um hugarfarsbreytingu að ræða.
Það þarf að gefa því meiri gaum sem er að gerast og gefi sér tíma til að hlusta á börnin og unglingana. Við þurfum að læra að þegja og hlusta. Hlusta á það sem er sagt og ekki síður að hlusta eftir því sem ekki er sagt.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2016 | 10:06
Nemendamiðað skólastarf og Barnasáttmálinn
Innleiðing Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna í reykvískum skólum
Nú er mikið fjallað um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í skóla Reykjavíkur í tengslum við nemendamiðað skólastarf. Þegar skólastjórnendur leik og grunnskóla þurfa nú þegar að velta hverri einustu 10 krónu mynt nokkrum sinnum í hendi sér áður en ákveðið er í hvaða verkefni innan skólans peningurinn á að fara - þá má búast við að mörgum þykir undarlegt að nú eigi að fara í gang með enn eina áherslubreytinguna í skólakerfinu. En er það í raun og veru svo? Eru við ekki í dag að leggja kapp á að virða margvíslegan rétt bæði leik- og grunnskólabarnanna okkar? Ég held það. Við getum hins vegar alltaf gert betur.
Á Öskudagsráðstefnunni svonefndu, sem haldin var fyrir kennara hér í höfuðborginni á Öskudaginn, var megin áherslan á nemendamiðað skólastarf og kynnt innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í einum skóla á Englandi. Að mörgu leyti mjög áhugaverð kynning. Af kynningarmyndböndum sem þarna voru sýnd þar sem börnin í viðkomandi skóla sögðu frá skólastarfinu var auðfundið að mikil áhersla virtist vera á að leita eftir styrkleikum hvers og eins og að leyfa börnunum að njóta sín sem best í þekkingarleitinni. Ég er sannfærð um að kennarar í leik og grunnskólum Reykjavíkur leggja sig nú þegar eftir þessu. Hinar stóru bekkjardeildir í reykvískum skóla án aðgreiningar - þar sem allir eiga að fá að njóta sín - þá verður þetta hinsvegar oft afar erfitt í framkvæmd.
Þröngt mega sáttir sitja
Annað sem var áberandi á myndböndunum sem voru sýnd frá enska skólanum voru húsakynnin. Í enska skólanum virtist vera talsvert aðþrengt varðandi húsrými, hver fermeter virtist nýttur - eða svo var að sjá. Í dag þegar erfitt er að koma frístundastarfi grunnskólanna fyrir inni í skólabyggingum eftir skóla þá væri okkur fróðlegt að læra að nýta skólarýmið betur. Það gætum við hugsanlega lært bæði af skólanum í Englandi og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum.
Jákvæður agi - námsfriður og sjálfstraust
Agi virtist líka mikill - þ.e. jákvæður agi. Það kom greinilega fram að börnin litu á það sem sinn rétt að aðrir nemendur kæmu vel fram við sig og að vinnufriður ríkti. Allir ættu að koma vel fram hver við annan. Annað sem var athyglisvert var að nemendur voru í skólabúningum - sem dregur úr að aðskilnaði eftir efnahag. Nokkrir skólar í Reykjavík bjóða í dag upp á merktar skólapeysur þó notkun þeirra sé ekki orðin algeng.
England - Indland
Fyrirlestur og myndbandið minntu mig á margt sem ég sá og upplifði á skólaheimsóknum mínum á Indlandi árið 2001 þegar við fórum um 10 manna hópur kennara og annarra sem höfðum brennandi áhuga á árangursríkri kennslu og heimsóttum 12 indverska skóla á 10 dögum, skóla sem voru þekktir fyrir afburða námsárangur nemenda af öllum þjóðfélagasþrepum. Mér virtist í fljótu bragði að eitt af því sem væri sammerkt skólanum á Englandi og skólunum sem ég heimsótti á Indlandi að kennsluhættir væru skipulagðir með það í huga að virkja áhuga einstaklingsins á náminu og að nemendinn væri látinn finna að hann réði við námið. Námsaðstoð,uppörvun, uppbygging sjálfstrausts og jákvæður agi virtust sjálfsagðir hlutar af skólastarfinu.
Hlúum að sérhverju barni
Þetta er hluti af því sem ég hef ótal sinnum talað fyrir bæði í borgarstjórn og á fundum skóla- og frístundaráðs, þ.e. að brýnt sé að koma til móts við þarfir nemenda, þeim sé veitt aðstoð við námið strax og ljóst sé að aðstoðar sé þörf. Með sultarólinni sem umlykur skólana í dag og sífellt er strekkt á, tel ég að það megi teljast kraftaverki næst ef okkur tekst að innleiða þessa "nýju" (en samt gömlu) áherslur í skólakerfinu okkar með þeim hætti að nemendamiðað skólastarf verði að raunveruleika með farsælum hætti.
Kvíði - þunglyndi - andlegir og líkamlegir erfiðleikar
Í dag er mikið talað um að kvíði og þunglyndi séu að verða sífellt meira áberandi hjá börnum og unglingum. Getur verið að þetta hafi alltaf verið - en nú sé fullorðið fólk frekar farið að taka eftir ýmsum einkennum sem geta bent til þess að barn sé kvíðið eða jafnvel þunglynt? Getur verið að við séum alltof fljót á okkur að setja kvíða og þunglyndisstimpilinn á umsagnarblaðið? Getur verið að skólakerfið okkar ýti í dag undir að mörgum börnum líður ekki nógu vel? Getur verið að það við teljum okkur vera að gera svo vel en í raun séu inngrip sérfræðinganna að missa marks?
Allt að 3ja ára bið eftir brýnni aðstoð
Biðlistar eftir greiningum eru lengri en eðlilegt getur talist - amk. í ýmsum hverfum Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar sjá um ýmsa sértæka þjónustu, greiningar og meðferðir þegar börnunum okkar líður illa og ýmsir brestir verða á skólagöngunni. Í dag getur barn þurft að bíða í allt að því þrjú ár eftir því að nafn hans eða hennar sé næst á lista eftir viðtali og mögulegri greiningu á þjónustumiðstöð. Er hægt að réttlæta þessa löngu bið? Ég get ekki séð það. Þar að auki geta orðið langir biðlistar eftir sértækri þjónustu við börn sem af einhverjum ástæðum er talið brýnt að taka tímabundið út úr almennum skóla til að vinna að lausn á sértækum vanda þeirra.
Grunnþjónustu og velferð æskunnar í forgang
Verum skynsöm, spörum á "réttum" stöðum, hliðrum til verkefnum í þjóðfélaginu, frestum skipulags framkvæmdum og verkefnum sem mögulega geta beðið og gerum skólunum kleift að hlúa sem best að börnunum okkar. Það skortir ekki á þekkingu og hæfni kennaranna - það skortir að skólastjórnendum og kennurum sé veitt svigrúm til að vinna verk sín sem skyldi.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2015 | 13:59
Um átaksverkefni til að efla og styrkja börn og unglinga í vanda sem og fjölskyldur þeirra.
Málefni grunnskólans eru mér afar hugleikin enda hef ég nýtt mestan hluta starfsævi minnar við kennslu. Sem varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og aðalmaður í skóla og frístundaráði (og sem aðalmaður í mannréttindaráði) legg ég mikla áherslu á að vinna að uppbyggingu og jákvæðri þróun innan kennslu- og uppeldismála í Reykjavík á víðum grunni. Kveikjan að því sem ég geri hér að umræðuefni er samtal mitt við skólastjóra nokkurn í grunnskóla í Reykjavík í byrjun október sl. en ég hafði þá sent fyrirspurn til nokkurra skólastjóra hvaða mál innan grunnskólans þeim þætti brýnast að unnið yrði í nú þegar og ég gæti hugsanleg aðstoðað þá við. Það sem þessum ágæta skólastjóra var efst í huga var vandi nemenda sem væru að fara útí eða komin í neyslu fíkniefna.
Skólastjórinn sagði:
Nemanda sem er kominn í neyslu er vikið tímabundið úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans. Sú lausn er því miður vandfundin. Nemandinn getur ekki verið í skólanum ef hann er í neyslu, hvað þá ef hann er farinn að selja. Bakland þessara barna heima fyrir er mjög misjafnt og er stundum svo til ekkert. Það er alltaf bið eftir meðferðarúrræði og börnin verða af lögbundinni kennslu á meðan þau bíða heima eftir að komast í úrræði.
Til að vinna þessu máli brautargengi óskaði ég eftir og hóf umræðu um þetta mál á borgarstjórnarfundi 21. október 2014. Þrátt fyrir mikið og gott forvarnarstarf er fíkniefnavandi á meðal grunnskólanemenda sorgleg staðreynd þó ekki sé hægt að fullyrða með vissu um heildar umfangið, hvorki hvað varðar einstaka skóla, skólahverfi né umfang neyslu og sölu hinna ýmsu vímuefna meðal nemendanna.
Þó svo að tilfellin séu ekki mörg þá vakna spurningar um hvernig hægt sé að standa sem best að sem öflugustu forvarnarstarfi og svo hvernig sé heillavænlegast að vinna að því að hjálpa börnum og unglingum sem af einhverjum ástæðum leiðast út í vímu- og fíkniefnanotkun, hjálpa þeim til að vinna sig út úr fíkninni. Þá er mikið starf fyrir höndum að vinna að sjálfseflingu unga fólksins og hjálpa því að öðlast þann kjark og styrk sem þarf til að ná tökum á heilbrigðu líferni á nýjan leik og síðan til að ná góðum tökum á náminu til að vinna upp það sem fór forgörðum.
Við getum vissulega fagnað auknum áhuga ungs fólks á heilbrigðu líferni, margs konar íþróttum og hollustu en við megum ekki loka augunum fyrir því sem miður fer. Vímuefna- og eiturlyfjaváin verður sífellt alvarlegri og það þarf ekki annað en að rýna smávegis í minningargreinar um ungt fólk til að skynja alvarleikann. Það hlýtur að eiga að vera eitt af forgangsverkefnum skóla- og borgaryfirvalda sem og foreldra og annarra aðstandenda að vinna að sem allra bestu úrbótum í þessum málaflokki og efla og styrkja unga fólkið okkar eftir því sem tök eru á. Til þess þarf aukið fé, auknar fjárveitingar núna til öflugra forvarna og uppbyggingar sem geta skilað sér margfalt til borgarinnar síðar.
Í Verklagsreglum sem unnar voru af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur sem og Velferðarsviði Reykjavíkur og voru síðast uppfærðar árið 2012 er rakið hvernig bregðast skuli við fjölþættum vanda grunnskólanema og hvaða þjónustu beri að veita þeim. Þar er m.a. að finna í hvaða ferli mál eiga að fara ef grunur leikur á að nemandi sé undir áhrifum vímuefna í skólanum eða á skólalóð, hafi þau undir höndum, dreifi þeim eða selji í skólanum eða á skólalóðinni.
Við yfirlestur vinnuferlanna sem virðast nokkuð skýrir (og hægt er að finna á netinu) væri hægt að telja að þessi mál væru í góðum farvegi - en er það svo?
Í dag er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr skóla í eina viku, sbr. 15. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla ber skólanefnd ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði aldrei síðar en innan þriggja vikna. Samkvæmt þessu getur nemandi því verið án skóla- eða kennsluúrræðis í allt að þrjár vikur en í einhverjum tilvikum fær nemandi kennslu í skólanum utan hefðbundins kennslutíma. Nemendur sem eru í meðferð á Bugl eða Stuðlum hafa fengið kennslu frá Brúarskóla meðan á innlögn stendur og er það vel. Engir sérmenntaðir meðferðaraðilar á þessu sviði (þ.e. að vinna með nemendur sem hafa verið í, eða eru í, vímuefnavanda) starfa hinsvegar í grunnskólunum þannig að þegar nemandinn hefur lokið meðferð og kemur aftur í skólann fer veittur stuðningur mögulega eftir aðstæðum í skólanum þó þeim sé til að byrja með fylgt dálítið eftir af fulltrúum Brúarskóla og grunnskólum standi einnig til boða ráðgjöf frá ráðgjafarsviði Brúarskóla varðandi skólagöngu og nám þessara nemenda. En það er takmarkað hvað hægt er að vinna mikið upp námslega séð í almennum kennslustundum og hætta á unglingurinn dragist enn meira aftur úr námslega séð. Fyrst og fremst þarf þó að leggja áherslu á að vinna með sjálfstraustið, sjálfsvirðinguna, ánægju og gleði unglingsins. Oft þyrfti að breyta áherslum í námi, fækka um tíma bóklegum áherslum og leyfa nemandanum að fást við ýmsa verklega námsþætti sem geta um leið stuðlað að innri endurhæfingu og jákvæðri sjálfsmynd.
Notkun fíkniefna setur ekki aðeins spor á sjálfan fíkilinn heldur getur fjölskylda hans ekki síður þurft á miklum stuðningi að halda sem og fræðslu varðandi hvernig sé best að veita barninu aðhald og stuðning til að auka líkurnar á að fullur bati náist. Annað getur ekki verið án hins ef varanlegur bati á að nást og því áríðandi að samtvinna meðferðarúrræði til handa bæði nemandanum og fjölskyldu hans.
Það er brýnt að kannað sé með hvaða hætti borgin getur styrkt ennfrekar þau meðferðarúrræði sem í dag standa ungum fíkniefnaneytendum og fjölskyldum þeirra til boða og hvernig megi stytta biðtímann eftir virkri þjónustu. Eins er brýnt að skerpa á virkri eftirmeðferð eftir að nemandinn kemur úr meðferðarúrræðinu. Það verður að ríkja jafnræði meðal reykvískra barna og unglinga hvað þetta varðar. Það er með öllu óásættanlegt að það geti farið eftir því í hvaða hverfi borgarinnar barnið býr hversu fljótt það kemst í virkt úrræði. Slíkt er ekki bjóðandi í Reykjavík árið 2015.
En hvaða nemendur eru líklegri an aðrir til að leita í fíknina? Ánægður, glaðlyndur unglingur sem er fullur sjálfstrausts, er í góðum samskiptum við fjölskyldu sína og félaga, tekur þátt í markvissu félags-, íþrótta eða tómstundastarfi og gengur vel í skólanum, hann eða hún er að öllum líkindum mun ólíklegri til að lenda í klóm vímu - og eiturlyfjafíkninnar en unglingi sem á í miklum erfiðleikum í námi, er með brotna sjálfsímynd og lélegt sjálfstraust, er í lélegum félagslegum samskiptum og er hugsanlega þolandi eineltis, andlegs eða líkamlegs ofbeldis.
Eitt besta forvarnarúrræðið hlýtur að vera að leggja aukna áherslu á að byggja upp vellíðan, gott sjálfstraust, ákveðna sjálfsvirðingu og innri gleði. Lífsleikni í víðum skilningi þarf að þræða í auknu mæli í daglegt skólastarf með þetta í huga. Hér er ekki hægt að undanskilja uppalendur og heimilin. Foreldrar bera ábyrgð á vellíðan og velgengni barna sinna.
Við hjá Framsókn og flugvallarvinum viljum efla uppbyggingarstarf innan skólanna til að byggja betur upp andlega sterka einstaklinga sem fá að njóta sín betur í skólakerfinu og daglegu lífi, þeir fái að vaxa, dafna og þroskast á eigin forsendum, verða félagslega sterkir ekki síður en vel menntaðir.
Í viðleitni minni til að koma í gang gagnvirkum umræðum og markvissu ferli til virkra úrbóta hvað varðar að efla og styrkja börn og unglinga í vanda tengdan vímuefnum sem og fjölskyldur þeirra, þá opnaði ég umræðu um málið á borgarstjórnarfundi 21.10.2014 eins og ég gat um hér að framan.
Í lok máls mín lagði ég fram tillögu máli mínu til stuðnings, tillögu sem tæki til samvinnu þriggja stórra sviða í borginni þ.e. skóla og frístundasviðs, velferðarsviðs og mannréttindasviðs til að endurskoða í sameiningu Verklagsreglur um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Það gleðilega gerðist að meirihluti borgarstjórnar óskaði eftir að fá að taka þátt í bókuninn með smá orðalagsbreytingum þó sem ég samþykkti og var málinu síðan vísað til borgarráðs.
Í kjölfarið var farið að vinna í málinu og á fundi skóla- og frístundaráðs 4. febrúar sl. mættu fulltrúar velferðarsviðs til að kynna hvernig þessari þjónustu væri háttað í dag og nefndu dæmi um leiðir sem þættu vænlegar til jákvæðra umbóta.
Það er vafalítið hægt að finna ýmsar leiðir til virkra úrbóta til að vinna á vímuefnavánni meðal grunnskólanemenda. Hér verða allir að taka höndum saman og vinna einhuga að því að koma virkum úrræðum í gang og þannig að nemendur og fjölskyldur þeirra fái þann stuðning sem þarf án tillits til búsetu.
Tillögu mína er hægt að lesa í opinberum fundargerðum borgarstjórnar frá 21.10.2014 en þar segir:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og mannréttindaskrifstofu að endurskoða gildandi verklagsreglur sem samþykktar voru 2012 um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Sérstökum sjónum verði beint að nemendum í vímuefnavanda, auk annarra þeirra þátta sem taka þarf tillit til í þessum efnum. Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Hægt er að hlusta á málflutning minn og umræðuna um málið á upptöku frá fundinum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2014 | 12:08
Er misræmi í stærðfræðikennslu milli skólastiga?
Í dag er verið að velta fyrir sér orsaka vanda menntunar á Íslandi. Greinar eru birtar um vankunnáttu nemenda við upphaf háskólanáms, m.a. vanþekkingu þeirra í ýmsum grundvallaratriðum í stærðfræði. Háskólakennarar þurfi að eyða dýrmætum kennslutíma á háskólastigi í að kenna nemendum ýmis grundvallaratriði í stærðfræði sem nemendur ættu að fá haldgóða þekkinu á og færni í að nota í framhaldsskólanámi sínu.
Hvað er það sem veldur? Er það í raun vanhæfni kennaranna í framhaldsskólunum .... eða er orsakanna jafnvel að leita annars staðar? Hvernig er t.d. með samræmið og samfelluna í stærðfræðikennslu grunnskólanna? Er stærðfræðikennsla grunnskólanna með samræmdum hætti? Er skipulag hennar samræmt á milli grunnskóla eða fer skipulag hennar eftir þeim áherslum sem hver og einn skólastjórnandi ákveður í samvinnu við teymi stærðfræðikennara í viðkomandi skóla? Er samræmi á milli kennslugagna, kennsluaðstöðu og kennsluaðferða allra 10. bekkja á landinu hvað varðar stærðfræðikennslu?
Við þurfum að byggja góðan grunn strax í upphafi sem síðan er hægt að byggja jafnt og þétt ofan á. Nemendur sem eiga í erfiðleikum með að skilja stærðfræðina eiga skilyrðislaust að fá góðar leiðbeiningar, útskýringar og verkefni við hæfi þannig að þeir nái að skilja, tileinka sér og nota allar helstu grunnaðferðirnar. Námið þarf að vera í takt við aldur og þroska og ekki síður í takt við það hvað á að taka við. Það verður að vera samfella í náminu, stærðfræðinni sem og öðru námi.
Í dag þykir sjálfsagt mál að nemendur hafi aðgang að tölvu og nettenginu heima fyrir. Þetta á við strax í yngstu bekkjum grunnskólans enda byggir upplýsingakerfi grunnskólanna til foreldra á því að foreldrar hafi aðgengi að tölvu og netsambandi heima fyrir.
Hvers vegna ekki að nýta nútíma tölvutækni meira en gert er til að kenna ýmsar aðferðir í stærðfræði?Stuttir myndbandsþættir þar sem farið er rólega í gegnum ákveðna grunnþætti stærðfræðinnar, farið í gegnum reikningsaðferðir - útbúið einfalt en hnitmiðað kennsluefni þar sem nemendur geta rifjað upp kennsluaðferðirnar jafnt í skólanum og þegar heim er komið. Þetta kæmi foreldrum grunnskólabarna líka vel því það er oft sem foreldrarnir eiga í erfiðleikum með að aðstoða börn sín varðandi heimanám í stærðfræðinni.
Myndskeið með stærðfræðiaðferðum kenndum í framhaldsskólum gætu líka gert gæfumuninn fyrir marga nemendur í framhaldsskólum. Það á ekki síst við ef þær fullyrðingar eru réttar að marga stærðfræðikennara á framhaldsskólastigi skorti sjálfa sérmenntun á sviði kennslu í framhaldsskólastærðfræði.
Grundvallarskilyrði fyrir samfellu í skólastarfi er að skólastigin ræði saman og vinni að samfellunni í sameiningu. Það er ekki nóg að setja fram staðhæfingar og markmið í aðalnámskrám því það hefur lítið að segja ef ekki er hugað sem skyldi að því sem fer í raun og veru fram í kennslustundum.
Ef við viljum í raun bæta árangur íslenskra nemenda í stærðfræði þá þarf að vinna þá vinnu frá grunni. Umræða og ádeilur varðandi niðurstöður Pisakönnunarinnar nú nýverið gefa kjörið tilefni til að gera verulegt átak í þessum málum. Það er ekki nóg að kennarar vinni störf sín af metnaði og samviskusemi, yfirvöld kennslumála þurfa að skoða hvernig má bæta kennsluaðstöðuna og einnig að áætla kennurum tíma til bæði símenntunar og samstarfs. Það þarf að meta kennarastarfið sem skyldi. Það þarf að skoða málið í samhengi við aðra þætti skólastarfsins og samfellu þess. Við skulum ekki heldur gleyma því að námið hefst í raun í leikskólanum því þar er fyrsti grunnurinn lagður sem síðan er byggt ofan á.
Jóna Björg Sætran, M.Ed.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2013 | 14:44
Hvað á að verða um kennarastéttina?
Einu sinni fyrir langa löngu hélt ég úti bloggi hér á vefnum. Af einhverjum dularfullum ástæðum dróg fyrir bloggskýið - þangað til í dag. Þetta er jú frábær leið til að koma hugsunum sínum og skoðunum á framfæri og því um að gera að nýta sér það. Hver veit nema það verði hægt að koma einhverjum skoðanaskiptum í gang.
Eitt sem brennur á mér þessa mánuðina er það hvernig komið er fyrir afstöðu íslenskra ráðamanna gagnvart kennarastétt landsins. Það sætir furðu margra sem til þekkja hve kennarastarfið er lítils metið í þjóðfélaginu. Þjóðfélagið byggir á fólkinu sem býr í landinu. Samfélagið mótast af líðan fólks. Börnin erfa landið. Barnabörnin líka. Hvernig kemur þjóðfélagið fram við þessi börn sem eru að vaxa upp í dag og eiga að erfa landið. Hvaða þjónustu eru þau að fá? Hvernig líður þeim dags daglega? Hér á ég ekki aðeins við hvernig þau eru að standa sig í námi og hvaða einkunnir þau útskrifast með úr grunn- eða framhalsskóla. Það er ekki síður mikilvægt að spyrja sig hvernig þeim líður innra með sér. Hver er þeirra andlega líðan?
Hvað kemur þetta því við hvernig ráðamenn landsins meta kennarastétt landsins og meta hvaða laun skulu greidd fyrir þá vinnu sem kennarar sinna? Jú - kennararnir eiga ekki aðeins að sinna uppfræðslu nemenda sinna heldur er í síauknu mæli orðið áberandi uppeldishlutverks skólanna. Kennarastarfið verður sífellt umfangsmeira, föstum viðverutímum kennara fjölgar og sífellt fjölgar þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að kennarar sinni.
Á sama tíma og kröfur aukast á starf, umfang og skyldur kennara, þá dregur úr raun virði kennaralaunanna. Hvernig má það vera? Á þessi þróun að halda áfram í sömu átt?
Hér er ekki við skólastjórnendur að sakast. Skólastjórnendur eru almennt með hendur all bundnar og geta ekki þrátt fyrir einbeittan vilja skipulagt skólastarf í sínum skóla á þann hátt sem þeim þykir vera vænlegast til árangurs. Þeir geta séð möguleika sem þeim er ekki fært að nýta vegna annmarka kerfisins.
Er ekki kominn tími til að breyta þessari launastefnu? Hvað finnst þér?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)