Hvað á að verða um kennarastéttina?

Einu sinni fyrir langa löngu hélt ég úti bloggi hér á vefnum. Af einhverjum dularfullum ástæðum dróg fyrir bloggskýið - þangað til í dag. Þetta er jú frábær leið til að koma hugsunum sínum og skoðunum á framfæri og því um að gera að nýta sér það. Hver veit nema það verði hægt að koma einhverjum skoðanaskiptum í gang. 

Eitt sem brennur á mér þessa mánuðina er það hvernig komið er fyrir afstöðu íslenskra ráðamanna gagnvart kennarastétt landsins. Það sætir furðu margra sem til þekkja hve kennarastarfið er lítils metið í þjóðfélaginu. Þjóðfélagið byggir á fólkinu sem býr í landinu. Samfélagið mótast af líðan fólks. Börnin erfa landið. Barnabörnin líka. Hvernig kemur þjóðfélagið fram við þessi börn sem eru að vaxa upp í dag og eiga að erfa landið. Hvaða þjónustu eru þau að fá? Hvernig líður þeim dags daglega? Hér á ég ekki aðeins við hvernig þau eru að standa sig í námi og hvaða einkunnir þau útskrifast með úr grunn- eða framhalsskóla. Það er ekki síður mikilvægt að spyrja sig hvernig þeim líður innra með sér. Hver er þeirra andlega líðan?
Hvað kemur þetta því við hvernig ráðamenn landsins meta kennarastétt landsins og meta hvaða laun skulu greidd fyrir þá vinnu sem kennarar sinna? Jú - kennararnir eiga ekki aðeins að sinna uppfræðslu nemenda sinna heldur er í síauknu mæli orðið áberandi uppeldishlutverks skólanna. Kennarastarfið verður sífellt umfangsmeira, föstum viðverutímum kennara  fjölgar og sífellt fjölgar þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að kennarar sinni.  
Á sama tíma og kröfur aukast á starf, umfang og skyldur kennara, þá dregur úr raun virði kennaralaunanna. Hvernig má það vera? Á þessi þróun að halda áfram í sömu átt? 
Hér er ekki við skólastjórnendur að sakast. Skólastjórnendur eru almennt með hendur all bundnar og geta ekki þrátt fyrir einbeittan vilja skipulagt skólastarf í sínum skóla á þann hátt sem þeim þykir vera vænlegast til árangurs. Þeir geta séð möguleika sem þeim er ekki fært að nýta vegna annmarka kerfisins. 
Er ekki kominn tími til að breyta þessari launastefnu?  Hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband