Krókusar og Kaffi Rót

Gærdagurinn var í senn ánægjulegur og annasamur - eins og flestir dagar eru jú sem betur fer.
Sólin skein svo glatt að ekki var hjá því komist að drífa sig út í sólina í smá garðvinnu við að hreinsa dauða trjákvisti og annan garðaúrgang. Blómstrandi krókusarnir njóta nú frelsisins í hreinsuðum beðum og gleðja augað ásamt túlípönum og páskaliljum. Það er ótrúlegt hvað birtir til í litlum garði við það að margra ára tré eru lækkuð í loftinu svo um munar. Nú er loksins hægt að deila blómadýrðinni með nágrönnunum. Þó "skógarhöggið" hafi gengið nærri viðkvæmum tilfinningum fyrir mánuði síðan er eftirsjáin mun minni nú þegar við fáum notið sólargeislanna betur en um áraraðir.
Nágrannarnir voru einnig komnir út á sameiginlega svæðið þannig að það var slegið upp 1. maí kaffi á gamla rólóvelli barnanna, kaffi og með því. Frábært að njóta veðurblíðunnar með góðum grönnum.

Garðvinnan hélt áfram fram eftir degi, skrapp síðan upp á Akranes í afmælisboð unglings fjölskyldunnar - heimabakaðar flatbökur og fleira góðgæði. Veðrið var held ég enn betra á Akranesi en í Reykjavík.

Síðla kvölds skrapp ég síðan á upprennandi kaffihús í hjarta Reykjavíkur, Kaffi Rót - staðsett í Hafnarstrætinu. Það er gaman að fylgjast með breytingunum sem þar hafa orðið síðustu vikurnar og eiga aðstandendur þess mikið hrós skilið fyrir frábæran dugnað og óeiginlegt starf. Þarna stefnir í enn meiri uppbyggingu á næstunni, sífellt fleiri eru að frétta af þessari "vin í eyðimörkinni" þar sem þú getur sest niður í rólegheitum, fengið þér gott kaffi og meðlæti og spjallað við kunningjana í notalegu umhverfi. Skemmtilegt andrúmsloft, huggulegheit, kaffihúsastemning og djúpir hægindastólar, tónlistarflutningur og myndlistarsýning. Góður endir á skemmtilegum degi.

Enn skín sólin - en frekari garðvinna verður að bíða því að í dag er ég að undirbúa þátttöku í sýningunni Heilsa, húð og hár sem verður um helgina. Sem sagt spennandi helgi framundan.

Góða helgi!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband