Let´s go! Enskukennsla 3 ára barna .... eða ?

Lítil dótturdóttir mín, 3ja og hálfs árs gömul hnáta, hefur heldur betur komið ömmu sinni á óvart með óvæntri enskukunnáttu sinni. Ég hélt mér hefði misheyrst núna um helgina þegar ég taldi mig heyra barnið bregða fyrir sig ýmsum stuttum setningum á ensku. Orðin komu í réttu samhengi við ýmsar athafnir voru með áhersluþunga og ótrúlega réttum framburði.

Litla hnátan er eins og margir jafnaldrar hennar í leikskóla og það fyrsta sem mér datt í hug var að þar væri farið að kenna börnunum ensku. Mér er kunnugt um að svo er gert með allgóðum árangri á sumum leikskólum - en þó frekar í deildum eldri leikskólabarna. Í ljós kom að svo var ekki. Hinsvegar sagði hnátan mér stolt að Dora hefði kennt sér þetta, Dora í barnasjónvarpinu.
Þekkir þú þessa ágætu kennslukonu? Ef svo er ekki, þá er Dora aðalpersónan í erlendu barnaefni sem hefur náð gríðarlega miklum vinsældum og er það líklega ekki síst að þakka víðtækri markaðssetningu.

Þetta atvik varð til þess að ég fór enn einu sinni að hugsa um hvað eðli og inntak barnaefnis í sjónvarpinu hefur mikið að segja fyrir litlar og óharðnaðar sálir ekki síður en fyrir stálpaðri börn. Fyrrnefnd Dora kemur fram í stuttum bandarískum sjónvarpsþáttum þar sem auk skemmtiefnis er m.a. lögð áhersla á að kenna ungum áhorfendum ýmislegt sem telst jákvætt í mannlegum samskiptum. Hér ætla ég mér ekki að vera með neina stjörnugjöf enda hef ég ekki séð nægilega marga þætti til að slíkt teldist raunhæft. Þarna er hinsvega ágætis dæmi um gildi vandaðs sjónvarpsefnis fyrir börn. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft - og í víðtækari merkingu en við gerum okkur oft grein fyrir.

Allt myndefni hefur áhrif á okkur, hvort sem um er að ræða ljósmyndir, teikningar eða hreyfimyndir. Sum áhrifin eru að fullu meðvituð, önnur ómeðvituð en hafa samt mótandi áhrif á undirmeðvitundina. Þetta leiðir hugann m.a. að því efni sem haldið er að börnum okkar og barnabörnum í formi bóka, tölvuleikja og kvikmynda sem ætluð eru börnum. Ef efnið höfðar til barnanna og þau fá og viðhalda áhuga á efninu drekka þau í sig þar sem þar er kennt. Barn sem ekki er farið að tala móðurmál sitt hreint fer jafnvel að slá um sig með erlendum orðaforða svo eftir er tekið.

Í tengslum við þetta fer ég ósjálfrátt að velta því fyrir mér hvernig kennsluefnishöfundar gætu komið efni sínu mun betur til skila til nemenda ef höfundarnir gætu nýtt sér alla þá tækni sem skemmtanaiðnaðurinn býr yfir. Hugsið ykkur hvað það gæti verið gaman að læra - bæði í skólanum og eins fyrir skólann. Ég er viss um að árangurinn yrði miklu meiri. Þar skiptir í mínum huga ekki mestu máli að allir fái 10 á prófum heldur að nemendur á öllum aldri fái námsefni við hæfi, skemmtilegt og jákvætt námsefni sem byggir auk annars á að efla sjálfstraust nemandans.
Mikið yrði þá gaman - bæði í skólunum og heima. 

Let´s go! Thank you! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, systir mín var að verða mjög pirruð á þessari Dóru, þar til ég sagði henni frá því að Dora the Explorer talaði spænsku í enskri útgáfu. Systurdóttur mín er ekki mikið að herma eftir þættinum, en finnst hann mjög skemmtilegur. Ég get þó sagt það að óþýdd barnaefni hjálpaði mér að læra ensku þegar ég var yngri. Ég byrjaði að lesa ensku þegar ég var 11 ára og var orðin góð í ensku málfari þegar ég var um 7 ára. Tungumál stækka möguleikana og stækka heiminn ;)

Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 00:32

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég gaf 10 ára dóttur minni Dora the Explorer á ensku í jólagjöf í fyrra þar getur hún líka lært spænsku.  Þetta eru frábærir þættir sem krakkar á öllum aldri hafa gaman að.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.4.2008 kl. 00:37

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það fer auðvitað best á því að foreldrar ákveði hvað þeir vilja að börn sín læri á þessum aldri.  En við (ég og konan mín) notum sjónvarp til að kenna börnunum.  Við búum í Kanada, en viljum að börnin læri Íslensku (mál föður) og Eistnesku (mál móður). Við tölum því okkar móðurmál við börnin, ásamt því að tala Ensku okkar á milli.  Börnin okkar horfa því sem næst aldrei á "sjónvarp", heldur mest megnis DVD myndir.  Þá á annaðhvort Íslensku eða Eistnesku.  Stundum á Íslensku með Eistneskum texta.  Sonur okkar sem er 4. ára er því sem næst alfarið þrítyngdur, og dóttir okkar sem er 1og 1/2 stefnirí sömu átt.

Hæfileiki barna til að læra er stórkostlega vanmetinn, þau bókstaflega vilja og krefjast þess að læra það sem fyrir þeim er haft.  Drengurinn sem er 4. ára, þýðir stundum á milli okkar hjónanna frá Íslensku yfir á Eistnsku, eða öfugt án nokkurra vandkvæða.

G. Tómas Gunnarsson, 27.4.2008 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband