Gleðilegt sumar 2008

Sæl verið þið - og gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti hefur alltaf verið mér kær enda á ég margar skemmtilegar minningar frá þeim degi. Einhvern veginn finnst mér samt að hann hafi færst óeðlilega mikið til á dagatalinu því að í nær hálfrar aldar gamalli minningunni tengi ég sumardaginn fyrsta við skrúðgöngu frá Austurbæjarskólanum og niður í miðbæ Reykjavíkur í blíðskapar veðri að mig minnir íklædd sparifötum, blárri sparikápu, hvítum hnésokkum, gulum "hatti" og telpnaveski. Flott lítil snót!
Vetri konungi var ekið á miklum vagni og hélt hann kveðjuræðu þegar komið var á áfangastað. Sumardrottningin sem var enn glæsilegri þar sem hún ók á fagurskreyttum vagni með tvær þernur sér til fulltingis hélt síðan aðra ræðu. Ég man hvað mér þóttu þernurnar hennar flottar, sérstaklega önnur þeirra - enda var það stóra systir mín sem hafði hlotið þennan heiður að fá að sitja á vagni Sumardrottningarinnar íklædd prinsessuklæðum.
Jæja - þá er að hverfa úr draumalandi fortíðar og segja fréttir af nútíðinni.

Margt hefur gerst frá síðasta bloggi og mál til komið að segja tíðindi!
Við Kristinn skruppum nýverið til La Jolla í Kaliforníu í Bandaríkjunum til að sækja námskeið hjá Marie Diamond Feng Shui meistaranum okkar. Það var bæði mjög lærdómsríkt og ánægjulegt og góð viðbótarþekking við Feng Shui vinnuna okkar hér heima. Ekki spillti það fyrir að góðkunningi okkar Höskuldur Þráinsson prófessor var þarna í La Jolla í rannsóknarleyfi og fór með okkur í mjög ánægjulega útsýnisferð um svæðið.

Við Kristinn höfum annars verið önnum kafin í Feng Shui vinnu bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. 
Núorðið notum við helst alltaf "dowsing" tæknina samhliða Feng Shui ráðgjöfinni. Um sl. helgi ákváðum við að athuga hvort ekki mætti nota "dowsing" tæknina til að bæta vellíðan ferfætlinga, hesta og kinda. Til þess völdum við stórbýli nokkurt norður í landi þar sem húsráðenur höfðu lýst sig áhugasama um að við kæmum á staðinn með dowsing pinnana. Þarna fundust all nokkrir staðir þar sem ástæða er til að ætla að umhverfið hafi haft neikvæð áhrif á líðan dýranna og gerðum við okkar besta til að bæta úr því. Að vísu verður líklega erfitt að fá staðfestingu á aukinni vellíðan beint frá íbúum húsanna, hestanna og kindanna, en vonum hið besta.

Í gær tókum við þátt í að umbreyta tveimur skrifstofum til að auka orkuflæðið. Það verður spennandi að fá að fylgjast með hvernig Feng Shui ráðgjöfin nýtist þeim sem þarna starfa.

Síðan tók við spennandi greining á fasteignum þar sem við vorum beðin um aðstoð við að greina hvaða húseign sé líklegast að muni henta viðkomandi best sem framtíðarhúsnæði.  Já, það má víst segja að verkefnin séu orðin margvísleg.

Nú er annars að njóta Sumardagsins fyrsta, horfa til himins og njóta hvers einasta sólargeisla í tilefni dagsins. Krókusarnir blómstra - og páskaliljurnar fara líklega loksins að blómstra.

Gleðilegt sumar!

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband