1.7.2014 | 00:07
Pisakönnunin - og hvað svo?
Pisakönnunin svonefnda er víða til umræðu þessa dagana og sitt sýnist hverjum um það hvort hafi átt að birta niðurstöður hennar með þeim hætti sem nú er gert. Persónulega er ég hlynnt því að ekki sé verið að leyna gögnum sem þessum. Kennarar, foreldrar og nemendur eiga allir rétt á því að fá upplýsingar um það hvernig árangur kennslu í viðkomandi skóla er að koma út í samanburði við aðra skóla - en ekki hvað síst miðað við árangur sama skóla í síðustu könnun.
Á sama tíma eru þessar upplýsingar stórlega varasamar -- og afar viðkvæmar. Það að einhverjir skólar komi "illa út" samkvæmt Pisakönnuninni segir ekki allt um skólastarfið í viðkomandi skóla. Munum eftir því að þátttaka í könnuninni er valfrjáls. Það eina atriði - að hún er valfrjáls - segir okkur strax nokkuð til um að hún gefi ekki alls kostar rétta mynd af stöðu nemenda.
Svo er annað. Var tryggt að allir þeir sem svöruðu könnuninni skyldu til fulls spurningarnar og valkosti svara? Fengu allir nemendur sömu upplýsingar áður en þeir svöruðu spurningunum?
Vissulega er mikilvægt að hafa ákveðinn mælikvarða á helstu grunnþætti náms og það er að mínu mati einfaldlega mjög mikilvægt. Vörum okkur hinsvegar á því að fella dóma um þá skóla sem ekki koma eins vel út úr henni og við teljum eðlilegt. Það er svo margir þættir í skólastarfinu sem ætti að skoða í samhengi við niðurstöðurnar og ef fólk þekkir ekki nægilega til starfsins og aðstæðna (né heldur til nemendahópsins sem svaraði könnuninni) þá er hætt við að stutt sé í óþarfa fordóma í stað þess að nýta ætti niðurstöðurnar til uppbyggingar starfsins.
Ég læt hér staðar numið í bili en á eftir að tjá mig meira um niðurstöður Pisa-könnunarinnar á næstunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.