Um átaksverkefni til að efla og styrkja börn og unglinga í vanda sem og fjölskyldur þeirra.

Málefni grunnskólans eru mér afar hugleikin enda hef ég nýtt mestan hluta starfsævi minnar við kennslu. Sem varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og aðalmaður í skóla og frístundaráði (og sem aðalmaður í mannréttindaráði) legg ég mikla áherslu á að vinna að uppbyggingu og jákvæðri þróun innan kennslu- og uppeldismála í Reykjavík á víðum grunni. Kveikjan að því sem ég geri hér að umræðuefni er samtal mitt við skólastjóra nokkurn í grunnskóla í Reykjavík í byrjun október sl. en ég hafði þá sent fyrirspurn til nokkurra skólastjóra hvaða mál innan grunnskólans þeim þætti brýnast að unnið yrði í nú þegar og ég gæti hugsanleg aðstoðað þá við. Það sem þessum ágæta skólastjóra var efst í huga var vandi nemenda sem væru að fara útí eða komin í neyslu fíkniefna. 

Skólastjórinn sagði:
„Nemanda sem er kominn í neyslu er vikið tímabundið úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans. Sú lausn er því miður vandfundin. Nemandinn getur ekki verið í skólanum ef hann er í neyslu, hvað þá ef hann er farinn að selja. Bakland þessara barna heima fyrir er mjög misjafnt og er stundum svo til ekkert. Það er alltaf bið eftir meðferðarúrræði og börnin verða af lögbundinni kennslu á meðan þau bíða heima eftir að komast í úrræði“.

Til að vinna þessu máli brautargengi óskaði ég eftir og hóf umræðu um þetta mál á borgarstjórnarfundi 21. október 2014. Þrátt fyrir mikið og gott forvarnarstarf er fíkniefnavandi á meðal grunnskólanemenda sorgleg staðreynd – þó ekki sé hægt að fullyrða með vissu um heildar umfangið, hvorki hvað varðar einstaka skóla, skólahverfi né umfang neyslu og sölu hinna ýmsu vímuefna meðal nemendanna.
Þó svo að tilfellin séu ekki mörg þá vakna spurningar um hvernig hægt sé að standa sem best að sem öflugustu forvarnarstarfi og svo hvernig sé heillavænlegast að vinna að því að hjálpa börnum og unglingum sem af einhverjum ástæðum leiðast út í vímu- og fíkniefnanotkun, hjálpa þeim til að vinna sig út úr fíkninni. Þá er mikið starf fyrir höndum að vinna að sjálfseflingu unga fólksins og hjálpa því að öðlast þann kjark og styrk sem þarf til að ná tökum á heilbrigðu líferni á nýjan leik og síðan til að ná góðum tökum á náminu til að vinna upp það sem fór forgörðum.

Við getum vissulega fagnað auknum áhuga ungs fólks á heilbrigðu líferni, margs konar íþróttum og hollustu en við megum ekki loka augunum fyrir því sem miður fer. Vímuefna- og eiturlyfjaváin verður sífellt alvarlegri og það þarf ekki annað en að rýna smávegis í minningargreinar um ungt fólk til að skynja alvarleikann. Það hlýtur að eiga að vera eitt af forgangsverkefnum skóla- og borgaryfirvalda sem og foreldra og annarra aðstandenda að vinna að sem allra bestu úrbótum í þessum málaflokki og efla og styrkja unga fólkið okkar eftir því sem tök eru á. Til þess þarf aukið fé, auknar fjárveitingar núna til öflugra forvarna og uppbyggingar sem geta skilað sér margfalt til borgarinnar síðar. 

Í Verklagsreglum sem unnar voru af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur sem og Velferðarsviði Reykjavíkur og voru síðast uppfærðar árið 2012 er rakið hvernig bregðast skuli við fjölþættum vanda grunnskólanema og hvaða þjónustu beri að veita þeim.  Þar er m.a. að finna í hvaða ferli mál eiga að fara ef grunur leikur á að nemandi sé undir áhrifum vímuefna í skólanum eða á skólalóð, hafi þau undir höndum, dreifi þeim eða selji í skólanum eða á skólalóðinni.

Við yfirlestur vinnuferlanna sem virðast nokkuð skýrir (og hægt er að finna á netinu) væri hægt að telja að þessi mál væru í góðum farvegi  - en er það svo?

Í dag er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr skóla í eina viku, sbr. 15. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla ber skólanefnd ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði aldrei síðar en innan þriggja vikna. Samkvæmt þessu getur nemandi því verið án skóla- eða kennsluúrræðis í allt að þrjár vikur en í einhverjum tilvikum fær nemandi kennslu í skólanum utan hefðbundins kennslutíma. Nemendur sem eru í meðferð á Bugl eða Stuðlum hafa fengið kennslu frá Brúarskóla meðan á innlögn stendur og er það vel. Engir sérmenntaðir meðferðaraðilar á þessu sviði (þ.e. að vinna með nemendur sem hafa verið í, eða eru í, vímuefnavanda) starfa hinsvegar í grunnskólunum þannig að þegar nemandinn hefur lokið meðferð og kemur aftur í skólann fer veittur stuðningur mögulega eftir aðstæðum í skólanum þó þeim sé til að byrja með fylgt dálítið eftir af fulltrúum Brúarskóla og grunnskólum standi einnig til boða ráðgjöf frá ráðgjafarsviði Brúarskóla varðandi skólagöngu og nám þessara nemenda.  En það er takmarkað hvað hægt er að vinna mikið upp námslega séð í almennum kennslustundum og hætta á unglingurinn dragist enn meira  aftur úr námslega séð. Fyrst og fremst þarf þó að leggja áherslu á að vinna með sjálfstraustið, sjálfsvirðinguna, ánægju og gleði unglingsins. Oft þyrfti að breyta áherslum í námi, fækka um tíma bóklegum áherslum og leyfa nemandanum að fást við ýmsa verklega námsþætti sem geta um leið stuðlað að innri endurhæfingu og jákvæðri sjálfsmynd.


Notkun fíkniefna setur ekki aðeins spor á sjálfan fíkilinn heldur getur fjölskylda hans ekki síður þurft á miklum stuðningi að halda sem og fræðslu varðandi hvernig sé best að veita barninu aðhald og stuðning til að auka líkurnar á að fullur bati náist.  Annað getur ekki verið án hins ef varanlegur bati á að nást og því áríðandi að samtvinna meðferðarúrræði til handa bæði nemandanum og fjölskyldu hans.
Það er brýnt að kannað sé með hvaða hætti borgin getur styrkt ennfrekar þau meðferðarúrræði sem í dag standa ungum fíkniefnaneytendum og fjölskyldum þeirra til boða og hvernig megi stytta biðtímann eftir virkri þjónustu. Eins er brýnt að skerpa á virkri eftirmeðferð eftir að nemandinn kemur úr meðferðarúrræðinu. Það verður að ríkja jafnræði meðal reykvískra barna og unglinga hvað þetta varðar. Það er með öllu óásættanlegt að það geti farið eftir því í hvaða hverfi borgarinnar barnið býr hversu fljótt það kemst í virkt úrræði. Slíkt er ekki bjóðandi í Reykjavík árið 2015.

En hvaða nemendur eru líklegri an aðrir til að leita í fíknina? Ánægður, glaðlyndur unglingur sem er fullur sjálfstrausts, er í góðum samskiptum við fjölskyldu sína og félaga, tekur þátt í markvissu félags-, íþrótta eða tómstundastarfi og gengur vel í skólanum, hann eða hún er að öllum líkindum mun ólíklegri til að lenda í klóm vímu - og eiturlyfjafíkninnar en unglingi sem á í miklum erfiðleikum í námi, er með brotna sjálfsímynd og lélegt sjálfstraust, er í lélegum félagslegum samskiptum og er hugsanlega þolandi eineltis, andlegs eða líkamlegs ofbeldis.

Eitt besta forvarnarúrræðið hlýtur að vera að leggja aukna áherslu á að byggja upp vellíðan, gott sjálfstraust, ákveðna sjálfsvirðingu og innri gleði. Lífsleikni  í víðum skilningi þarf að þræða í auknu mæli í daglegt skólastarf með þetta í huga. Hér er ekki hægt að undanskilja uppalendur og heimilin. Foreldrar bera ábyrgð á vellíðan og velgengni barna sinna.

Við hjá Framsókn og flugvallarvinum viljum efla uppbyggingarstarf innan skólanna til að byggja betur upp andlega sterka einstaklinga sem fá að njóta sín betur í skólakerfinu og daglegu lífi, þeir fái að vaxa, dafna og þroskast á eigin forsendum, verða félagslega sterkir ekki síður en vel menntaðir.

Í viðleitni minni til að koma í gang gagnvirkum umræðum og markvissu ferli til virkra úrbóta hvað varðar að efla og styrkja börn og unglinga í vanda tengdan vímuefnum – sem og fjölskyldur þeirra, þá opnaði ég umræðu um málið á borgarstjórnarfundi 21.10.2014 eins og ég gat um hér að framan.

Í lok máls mín lagði ég fram tillögu máli mínu til stuðnings, tillögu sem tæki til samvinnu þriggja stórra sviða í borginni þ.e. skóla og frístundasviðs, velferðarsviðs og mannréttindasviðs til að endurskoða í sameiningu Verklagsreglur um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Það gleðilega gerðist að meirihluti borgarstjórnar óskaði eftir að fá að taka þátt í bókuninn – með smá orðalagsbreytingum þó sem ég samþykkti og var málinu síðan vísað til borgarráðs.

Í kjölfarið var farið að vinna í málinu og á fundi skóla- og frístundaráðs 4. febrúar sl. mættu fulltrúar velferðarsviðs til að kynna hvernig þessari þjónustu væri háttað í dag og nefndu dæmi um leiðir sem þættu vænlegar til jákvæðra umbóta.
Það er vafalítið hægt að finna ýmsar leiðir til virkra úrbóta til að vinna á vímuefnavánni meðal grunnskólanemenda. Hér verða allir að taka höndum saman og vinna einhuga að því að koma virkum úrræðum í gang og þannig að nemendur og fjölskyldur þeirra fái þann stuðning sem þarf án tillits til búsetu.

Tillögu mína er hægt að lesa í opinberum fundargerðum borgarstjórnar frá 21.10.2014 en þar segir:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:  Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og mannréttindaskrifstofu að endurskoða gildandi verklagsreglur sem samþykktar voru 2012 um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Sérstökum sjónum verði beint að nemendum í vímuefnavanda, auk annarra þeirra þátta sem taka þarf tillit til í þessum efnum. Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 
Hægt er að hlusta á málflutning minn og umræðuna um málið á upptöku frá fundinum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Er fólk að leita lausna á unglingavandamálum?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1415089/

Jón Þórhallsson, 12.2.2015 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband