6.10.2015 | 10:24
Fyrirhugaðar breytingar á námsmati 10.bekkinga eru ekki tímabærar
Njóta allir 10. bekkingar jafnræðis í vor hvað varðar námsmatið óháð skóla og búsetu?
Illugi, - hvernig væri að fresta nýja námsmatinu um eitt ár? - Vöndum til verka!
Það er með ólíkindum að nú þegar meira en mánuður er liðinn af skólaárinu, þá eru kennarar ekki með skýr skilaboð með hvaða hætti eigi að meta þekkingu, frammistöðu og virkni nemenda í 10. bekk. Misvísandi skilaboð og óvissa skapa óþarfa kvíða hjá nemendum.
Hvernig verður námsmatið í vetur? Hvernig verður einkunnagjöfin í vor? Hvernig verður ákveðið hvaða krakkar fá A og hverjir fá bara B+ eða B ?
"Ef ég fæ bara B er ég þá miklu lélegri en þeir sem fá B+? Hvaða munur er á A og B+? Verður einkunnagjöfin sambærileg í öllum grunnskólunum? Verða tekin upp samræmd próf eða verða inntökupróf í framhaldsskólana. Hvernig kemst ég sem best út úr námsmatinu? Hvernig geta allir kennarar metið hæfni nemenda á alveg sambærilegan hátt? Hvað skipta hæfniviðmiðin miklu máli í lokamatinu? Er ykkur sem ráðið þessu virkilega alvara með því að við sem erum í 10. bekk eigum að geta gert allt það sem þið setjið sem hæfnimarkmið? Þið hljótið að vera að grínast er það ekki annars?"
Njóta allir 10. bekkingar jafnræðis þegar þeir útskrifast í vor hvað varðar námsmatið bæði óháð skóla og búsetu? Skiptir máli hvort Ari og Anna búa í Reykjavík eða á t.d. Vopnafirði? Skiptir máli hvort Baldur og Björg búa í vesturhluta eða austurhluta Reykjavíkur, Garðabæ eða Kópavogi? Verður þau öll metin á sambærilegan hátt í 10.bekknum sínum í vetur? Hvernig er það mögulegt ef matsaðferðir liggja ekki fyrir fyllilega augljósar öllum?
Óraunhæf hæfnimarkmið
Nú á að leggja ofuráherslu á að nemendur geti nýtt sér þekkingu sína við hinar ýmsu aðstæður og það er gott eitt um það að segja enda er til lítils að eyða mörgum árum í grunnskóla í að læra eitthvað sem nýtist ekki síðar. Þannig hefur það þó ekki verið hingað til. Núna þykir mér þó gengið heldur langt í þessum efnum því það er með ólíkindum að lesa um hin háleitu hæfnimarkmið sem blessaðar unglingarnir okkar eiga að standa undir eftir nokkra mánuði. Það er engu líkara en þeir sem hönnuðu sum hæfnimarkmiðin hafi villst á handriti og talið sig vera að skrifa hæfniviðmið fyrir mun eldri einstaklinga. Höfundarnir hafi amk verið með einstaklinga í huga sem hafi verið þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga í grunnskóla þar sem einstaklingsmiðað nám stóð algjörlega undir nafni, þar sem hver og einn fékk að njóta hæfileika sinna sem skyldi, fékk fyllilega að blómstra undir leiðsögn sinna frábæru kennara. Þar sem aðstæður hafi verið með talsvert öðrum hætti en því hvernig raunverulegar aðstæður eru í íslenskum grunnskólum í dag þar sem tími og fé er naumt skammtað, víða skortir viðhlítandi tækjabúnað og nútímalegar aðstæður til skapandi kennslu, bæði innandyra og fyrir utan sjálft skólahúsnæðið. Svo má ekki gleyma þróunarverkefnum sem gætu mörg hver undirbúið unga fólkið undir nám og störf framtíðarsamfélagi þar sem þau munu vafalítið mörg þurfa að skapa sér sinn eiginn atvinnuvettvang sökum vaxandi atvinnuleysis.
Vandaðra breytinga er þörf
Vissulega er breytinga þörf í menntakerfinu okkar hér á Íslandi en alla þróunarvinnu verður að vanda vel til því annars valda ómarkvissar og ósamhæfðar breytingar meiri skaða en framförum. Nýja námskráin sem er enn kölluð ný þó hún sé orðin nokkurra ára gömul boðar miklar breytingar sem geta orðið samfélaginu góð lyftistöng þegar litið er til áhrifa þeirra til framtíðar. Það þarf hinsvegar að gefa skólunum, stjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum ráðrúm til að átta sig á þessum breytingum til hlítar. Þannig er staðan ekki í dag, því miður. Skólafólk hefur leitað eftir leiðbeiningum frá yfirvaldi menntamála en þær leiðbeiningar hafa hingað til verið af alltof skornum skammti.
Væri nú ekki skynsamlegra að fresta breytingum á námsmati um eitt ár til viðbótar til að hægt verði að ná góðri samstöðu um námsmatið, samvinnu allra sem koma að málinu - og ekki síst til að tryggja jafnræði allra 10. bekkinga að vori.
"Illugi, - hvað liggur okkur á?"
Jóna Björg Sætran
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.