Nemendamiðað skólastarf og Barnasáttmálinn

Innleiðing Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna í reykvískum skólum
Nú er mikið fjallað um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í skóla Reykjavíkur í tengslum við nemendamiðað skólastarf. Þegar skólastjórnendur leik og grunnskóla þurfa nú þegar að velta hverri einustu 10 krónu mynt nokkrum sinnum í hendi sér áður en ákveðið er í hvaða verkefni innan skólans peningurinn á að fara - þá má búast við að mörgum þykir undarlegt að nú eigi að fara í gang með enn eina áherslubreytinguna í skólakerfinu. En er það í raun og veru svo? Eru við ekki í dag að leggja kapp á að virða margvíslegan rétt bæði leik- og grunnskólabarnanna okkar? Ég held það. Við getum hins vegar alltaf gert betur.

Á Öskudagsráðstefnunni svonefndu, sem haldin var fyrir kennara hér í höfuðborginni á Öskudaginn, var megin áherslan á nemendamiðað skólastarf og kynnt innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í einum skóla á Englandi. Að mörgu leyti mjög áhugaverð kynning. Af kynningarmyndböndum sem þarna voru sýnd þar sem börnin í viðkomandi skóla sögðu frá skólastarfinu var auðfundið að mikil áhersla virtist vera á að leita eftir styrkleikum hvers og eins og að leyfa börnunum að njóta sín sem best í þekkingarleitinni. Ég er sannfærð um að kennarar í leik og grunnskólum Reykjavíkur leggja sig nú þegar eftir þessu. Hinar stóru bekkjardeildir í reykvískum skóla án aðgreiningar - þar sem allir eiga að fá að njóta sín - þá verður þetta hinsvegar oft afar erfitt í framkvæmd. 

Þröngt mega sáttir sitja
Annað sem var áberandi á myndböndunum sem voru sýnd frá enska skólanum voru húsakynnin. Í enska skólanum virtist vera talsvert aðþrengt varðandi húsrými, hver fermeter virtist nýttur - eða svo var að sjá. Í dag þegar erfitt er að koma frístundastarfi grunnskólanna fyrir inni í skólabyggingum eftir skóla þá væri okkur fróðlegt að læra að nýta skólarýmið betur. Það gætum við hugsanlega lært bæði af skólanum í Englandi og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum. 

Jákvæður agi - námsfriður og sjálfstraust
Agi virtist líka mikill - þ.e. jákvæður agi. Það kom greinilega fram að börnin litu á það sem sinn rétt að aðrir nemendur kæmu vel fram við sig og að vinnufriður ríkti. Allir ættu að koma vel fram hver við annan. Annað sem var athyglisvert var að nemendur voru í skólabúningum - sem dregur úr að aðskilnaði eftir efnahag. Nokkrir skólar í Reykjavík bjóða í dag upp á merktar skólapeysur þó notkun þeirra sé ekki orðin algeng.

England - Indland
Fyrirlestur og myndbandið minntu mig á margt sem ég sá og upplifði á skólaheimsóknum mínum á Indlandi árið 2001 þegar við fórum um 10 manna hópur kennara og annarra sem höfðum brennandi áhuga á árangursríkri kennslu og heimsóttum 12 indverska skóla á 10 dögum, skóla sem voru þekktir fyrir afburða námsárangur nemenda af öllum þjóðfélagasþrepum. Mér virtist í fljótu bragði að eitt af því sem væri sammerkt skólanum á Englandi og skólunum sem ég heimsótti á Indlandi að kennsluhættir væru skipulagðir með það í huga að virkja áhuga einstaklingsins á náminu og að nemendinn væri látinn finna að hann réði við námið. Námsaðstoð,uppörvun, uppbygging sjálfstrausts og jákvæður agi virtust sjálfsagðir hlutar af skólastarfinu.

Hlúum að sérhverju barni
Þetta er hluti af því sem ég hef ótal sinnum talað fyrir bæði í borgarstjórn og á fundum skóla- og frístundaráðs, þ.e. að brýnt sé að koma til móts við þarfir nemenda, þeim sé veitt aðstoð við námið strax og ljóst sé að aðstoðar sé þörf. Með sultarólinni sem umlykur skólana í dag og sífellt er strekkt á, tel ég að það megi teljast kraftaverki næst ef okkur tekst að innleiða þessa "nýju" (en samt gömlu) áherslur í skólakerfinu okkar með þeim hætti að nemendamiðað skólastarf verði að raunveruleika með farsælum hætti.

Kvíði - þunglyndi - andlegir og líkamlegir erfiðleikar
Í dag er mikið talað um að kvíði og þunglyndi séu að verða sífellt meira áberandi hjá börnum og unglingum. Getur verið að þetta hafi alltaf verið - en nú sé fullorðið fólk frekar farið að taka eftir ýmsum einkennum sem geta bent til þess að barn sé kvíðið eða jafnvel þunglynt? Getur verið að við séum alltof fljót á okkur að setja kvíða og þunglyndisstimpilinn á umsagnarblaðið? Getur verið að skólakerfið okkar ýti í dag undir að mörgum börnum líður ekki nógu vel? Getur verið að það við teljum okkur vera að gera svo vel en í raun séu inngrip sérfræðinganna að missa marks? 


Allt að 3ja ára bið eftir brýnni aðstoð
Biðlistar eftir greiningum eru lengri en eðlilegt getur talist - amk. í ýmsum hverfum Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar sjá um ýmsa sértæka þjónustu, greiningar og meðferðir þegar börnunum okkar líður illa og ýmsir brestir verða á skólagöngunni. Í dag getur barn þurft að bíða í allt að því þrjú ár eftir því að nafn hans eða hennar sé næst á lista eftir viðtali og mögulegri greiningu á þjónustumiðstöð. Er hægt að réttlæta þessa löngu bið? Ég get ekki séð það. Þar að auki geta orðið langir biðlistar eftir sértækri þjónustu við börn sem af einhverjum ástæðum er talið brýnt að taka tímabundið út úr almennum skóla til að vinna að lausn á sértækum vanda þeirra.

Grunnþjónustu og velferð æskunnar í forgang
Verum skynsöm, spörum á "réttum" stöðum, hliðrum til verkefnum í þjóðfélaginu, frestum skipulags framkvæmdum og verkefnum sem mögulega geta beðið og gerum skólunum kleift að hlúa sem best að börnunum okkar. Það skortir ekki á þekkingu og hæfni kennaranna - það skortir að skólastjórnendum og kennurum sé veitt svigrúm til að vinna verk sín sem skyldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband