Færsluflokkur: Bloggar

Útigangsmenn? Samhjálp eða Reykjavíkurborg?

Nú berast þær fréttir að ákveðið hafi verið að velferðarsvið borgarinnar taki yfir rekstur Gistiskýlisins við Lindargötu. Samkvæmt frétt í fjölmiðlum hafi sú ákvörðun verið tekin á grundvelli nokkurra þúsunda króna sem borgin hafi geta sparað með því að taka tilboði í reksturinn frá öðrum aðila en Samhjálp. Það hlýtur að vera einhver önnur skýring. 

Allir sem eitthvað hafa fylgst með umfjöllun síðari ára tengdri utangarðsfólki, fólki sem hvergi á höfði sínu að halla á dimmum og köldum vetrarkvöldum, gistiskýlaumfjöllun, Samhjálp, hjálparsamtökum, sjálfboðavinnu. Vinnu sem ætti í raun ekki að vera sjálfboðavinna heldur kostuð af ríki og borg.

Hverjir eiga að taka við starfseminni? Er það fólk betur til þess fallið en starfsfólk Samhjálpar?

Að mínu mati eru skýringarnar sem fylgja fréttinni mjög svo ófullnægjandi. "S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs og fulltrúi Bjartrar framtíðar í velferðarráði, segir hagkvæmara að borgin sjái um reksturinn þar sem örlítið dýrara sé fyrir hana að fela öðrum hann." -

Hvað ætli mikill hluti af vinnunni við gistiskýlið hafi verið unnin í sjálfboðavinnu síðustu árin af hálfu Samhjálpar? Hvað ætli margir "heilbrigðir" einstaklingar úti í bæ - já og félagasamtök, hafi gaukað ýmsu að Samhjálp - einhverju sem þeir hafa svo geta nýtt ma fyrir skjólstæðinga sína í gistiskýlinu. Skyldi verða breyting á núna? 

Hver er hinn raunverulegi tilgangur með þessum algjörlega óskiljanlegu breytingum? Hverjir eiga að taka við stjórninni þarna? Hvað liggur á bak við þessa ákvörðun? Nú held ég að ráðamenn verði að fara í nánari útskýringar!

gisting.útigangsmenn

 


Um átaksverkefni til að efla og styrkja börn og unglinga í vanda sem og fjölskyldur þeirra.

Málefni grunnskólans eru mér afar hugleikin enda hef ég nýtt mestan hluta starfsævi minnar við kennslu. Sem varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og aðalmaður í skóla og frístundaráði (og sem aðalmaður í mannréttindaráði) legg ég mikla áherslu á að vinna að uppbyggingu og jákvæðri þróun innan kennslu- og uppeldismála í Reykjavík á víðum grunni. Kveikjan að því sem ég geri hér að umræðuefni er samtal mitt við skólastjóra nokkurn í grunnskóla í Reykjavík í byrjun október sl. en ég hafði þá sent fyrirspurn til nokkurra skólastjóra hvaða mál innan grunnskólans þeim þætti brýnast að unnið yrði í nú þegar og ég gæti hugsanleg aðstoðað þá við. Það sem þessum ágæta skólastjóra var efst í huga var vandi nemenda sem væru að fara útí eða komin í neyslu fíkniefna. 

Skólastjórinn sagði:
„Nemanda sem er kominn í neyslu er vikið tímabundið úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans. Sú lausn er því miður vandfundin. Nemandinn getur ekki verið í skólanum ef hann er í neyslu, hvað þá ef hann er farinn að selja. Bakland þessara barna heima fyrir er mjög misjafnt og er stundum svo til ekkert. Það er alltaf bið eftir meðferðarúrræði og börnin verða af lögbundinni kennslu á meðan þau bíða heima eftir að komast í úrræði“.

Til að vinna þessu máli brautargengi óskaði ég eftir og hóf umræðu um þetta mál á borgarstjórnarfundi 21. október 2014. Þrátt fyrir mikið og gott forvarnarstarf er fíkniefnavandi á meðal grunnskólanemenda sorgleg staðreynd – þó ekki sé hægt að fullyrða með vissu um heildar umfangið, hvorki hvað varðar einstaka skóla, skólahverfi né umfang neyslu og sölu hinna ýmsu vímuefna meðal nemendanna.
Þó svo að tilfellin séu ekki mörg þá vakna spurningar um hvernig hægt sé að standa sem best að sem öflugustu forvarnarstarfi og svo hvernig sé heillavænlegast að vinna að því að hjálpa börnum og unglingum sem af einhverjum ástæðum leiðast út í vímu- og fíkniefnanotkun, hjálpa þeim til að vinna sig út úr fíkninni. Þá er mikið starf fyrir höndum að vinna að sjálfseflingu unga fólksins og hjálpa því að öðlast þann kjark og styrk sem þarf til að ná tökum á heilbrigðu líferni á nýjan leik og síðan til að ná góðum tökum á náminu til að vinna upp það sem fór forgörðum.

Við getum vissulega fagnað auknum áhuga ungs fólks á heilbrigðu líferni, margs konar íþróttum og hollustu en við megum ekki loka augunum fyrir því sem miður fer. Vímuefna- og eiturlyfjaváin verður sífellt alvarlegri og það þarf ekki annað en að rýna smávegis í minningargreinar um ungt fólk til að skynja alvarleikann. Það hlýtur að eiga að vera eitt af forgangsverkefnum skóla- og borgaryfirvalda sem og foreldra og annarra aðstandenda að vinna að sem allra bestu úrbótum í þessum málaflokki og efla og styrkja unga fólkið okkar eftir því sem tök eru á. Til þess þarf aukið fé, auknar fjárveitingar núna til öflugra forvarna og uppbyggingar sem geta skilað sér margfalt til borgarinnar síðar. 

Í Verklagsreglum sem unnar voru af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur sem og Velferðarsviði Reykjavíkur og voru síðast uppfærðar árið 2012 er rakið hvernig bregðast skuli við fjölþættum vanda grunnskólanema og hvaða þjónustu beri að veita þeim.  Þar er m.a. að finna í hvaða ferli mál eiga að fara ef grunur leikur á að nemandi sé undir áhrifum vímuefna í skólanum eða á skólalóð, hafi þau undir höndum, dreifi þeim eða selji í skólanum eða á skólalóðinni.

Við yfirlestur vinnuferlanna sem virðast nokkuð skýrir (og hægt er að finna á netinu) væri hægt að telja að þessi mál væru í góðum farvegi  - en er það svo?

Í dag er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr skóla í eina viku, sbr. 15. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla ber skólanefnd ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði aldrei síðar en innan þriggja vikna. Samkvæmt þessu getur nemandi því verið án skóla- eða kennsluúrræðis í allt að þrjár vikur en í einhverjum tilvikum fær nemandi kennslu í skólanum utan hefðbundins kennslutíma. Nemendur sem eru í meðferð á Bugl eða Stuðlum hafa fengið kennslu frá Brúarskóla meðan á innlögn stendur og er það vel. Engir sérmenntaðir meðferðaraðilar á þessu sviði (þ.e. að vinna með nemendur sem hafa verið í, eða eru í, vímuefnavanda) starfa hinsvegar í grunnskólunum þannig að þegar nemandinn hefur lokið meðferð og kemur aftur í skólann fer veittur stuðningur mögulega eftir aðstæðum í skólanum þó þeim sé til að byrja með fylgt dálítið eftir af fulltrúum Brúarskóla og grunnskólum standi einnig til boða ráðgjöf frá ráðgjafarsviði Brúarskóla varðandi skólagöngu og nám þessara nemenda.  En það er takmarkað hvað hægt er að vinna mikið upp námslega séð í almennum kennslustundum og hætta á unglingurinn dragist enn meira  aftur úr námslega séð. Fyrst og fremst þarf þó að leggja áherslu á að vinna með sjálfstraustið, sjálfsvirðinguna, ánægju og gleði unglingsins. Oft þyrfti að breyta áherslum í námi, fækka um tíma bóklegum áherslum og leyfa nemandanum að fást við ýmsa verklega námsþætti sem geta um leið stuðlað að innri endurhæfingu og jákvæðri sjálfsmynd.


Notkun fíkniefna setur ekki aðeins spor á sjálfan fíkilinn heldur getur fjölskylda hans ekki síður þurft á miklum stuðningi að halda sem og fræðslu varðandi hvernig sé best að veita barninu aðhald og stuðning til að auka líkurnar á að fullur bati náist.  Annað getur ekki verið án hins ef varanlegur bati á að nást og því áríðandi að samtvinna meðferðarúrræði til handa bæði nemandanum og fjölskyldu hans.
Það er brýnt að kannað sé með hvaða hætti borgin getur styrkt ennfrekar þau meðferðarúrræði sem í dag standa ungum fíkniefnaneytendum og fjölskyldum þeirra til boða og hvernig megi stytta biðtímann eftir virkri þjónustu. Eins er brýnt að skerpa á virkri eftirmeðferð eftir að nemandinn kemur úr meðferðarúrræðinu. Það verður að ríkja jafnræði meðal reykvískra barna og unglinga hvað þetta varðar. Það er með öllu óásættanlegt að það geti farið eftir því í hvaða hverfi borgarinnar barnið býr hversu fljótt það kemst í virkt úrræði. Slíkt er ekki bjóðandi í Reykjavík árið 2015.

En hvaða nemendur eru líklegri an aðrir til að leita í fíknina? Ánægður, glaðlyndur unglingur sem er fullur sjálfstrausts, er í góðum samskiptum við fjölskyldu sína og félaga, tekur þátt í markvissu félags-, íþrótta eða tómstundastarfi og gengur vel í skólanum, hann eða hún er að öllum líkindum mun ólíklegri til að lenda í klóm vímu - og eiturlyfjafíkninnar en unglingi sem á í miklum erfiðleikum í námi, er með brotna sjálfsímynd og lélegt sjálfstraust, er í lélegum félagslegum samskiptum og er hugsanlega þolandi eineltis, andlegs eða líkamlegs ofbeldis.

Eitt besta forvarnarúrræðið hlýtur að vera að leggja aukna áherslu á að byggja upp vellíðan, gott sjálfstraust, ákveðna sjálfsvirðingu og innri gleði. Lífsleikni  í víðum skilningi þarf að þræða í auknu mæli í daglegt skólastarf með þetta í huga. Hér er ekki hægt að undanskilja uppalendur og heimilin. Foreldrar bera ábyrgð á vellíðan og velgengni barna sinna.

Við hjá Framsókn og flugvallarvinum viljum efla uppbyggingarstarf innan skólanna til að byggja betur upp andlega sterka einstaklinga sem fá að njóta sín betur í skólakerfinu og daglegu lífi, þeir fái að vaxa, dafna og þroskast á eigin forsendum, verða félagslega sterkir ekki síður en vel menntaðir.

Í viðleitni minni til að koma í gang gagnvirkum umræðum og markvissu ferli til virkra úrbóta hvað varðar að efla og styrkja börn og unglinga í vanda tengdan vímuefnum – sem og fjölskyldur þeirra, þá opnaði ég umræðu um málið á borgarstjórnarfundi 21.10.2014 eins og ég gat um hér að framan.

Í lok máls mín lagði ég fram tillögu máli mínu til stuðnings, tillögu sem tæki til samvinnu þriggja stórra sviða í borginni þ.e. skóla og frístundasviðs, velferðarsviðs og mannréttindasviðs til að endurskoða í sameiningu Verklagsreglur um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Það gleðilega gerðist að meirihluti borgarstjórnar óskaði eftir að fá að taka þátt í bókuninn – með smá orðalagsbreytingum þó sem ég samþykkti og var málinu síðan vísað til borgarráðs.

Í kjölfarið var farið að vinna í málinu og á fundi skóla- og frístundaráðs 4. febrúar sl. mættu fulltrúar velferðarsviðs til að kynna hvernig þessari þjónustu væri háttað í dag og nefndu dæmi um leiðir sem þættu vænlegar til jákvæðra umbóta.
Það er vafalítið hægt að finna ýmsar leiðir til virkra úrbóta til að vinna á vímuefnavánni meðal grunnskólanemenda. Hér verða allir að taka höndum saman og vinna einhuga að því að koma virkum úrræðum í gang og þannig að nemendur og fjölskyldur þeirra fái þann stuðning sem þarf án tillits til búsetu.

Tillögu mína er hægt að lesa í opinberum fundargerðum borgarstjórnar frá 21.10.2014 en þar segir:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:  Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og mannréttindaskrifstofu að endurskoða gildandi verklagsreglur sem samþykktar voru 2012 um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Sérstökum sjónum verði beint að nemendum í vímuefnavanda, auk annarra þeirra þátta sem taka þarf tillit til í þessum efnum. Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 
Hægt er að hlusta á málflutning minn og umræðuna um málið á upptöku frá fundinum.  


Pisakönnunin - og hvað svo?

Pisakönnunin svonefnda er víða til umræðu þessa dagana og sitt sýnist hverjum um það hvort hafi átt að birta niðurstöður hennar með þeim hætti sem nú er gert. Persónulega er ég hlynnt því að ekki sé verið að leyna gögnum sem þessum. Kennarar, foreldrar og nemendur eiga allir rétt á því að fá upplýsingar um það hvernig árangur kennslu í viðkomandi skóla er að koma út í samanburði við aðra skóla - en ekki hvað síst miðað við árangur sama skóla í síðustu könnun.

Á sama tíma eru þessar upplýsingar stórlega varasamar -- og afar viðkvæmar. Það að einhverjir skólar komi "illa út" samkvæmt Pisakönnuninni segir ekki allt um skólastarfið í viðkomandi skóla. Munum eftir því að þátttaka í könnuninni er valfrjáls. Það eina atriði - að hún er valfrjáls - segir okkur strax nokkuð til um að hún gefi ekki alls kostar rétta mynd af stöðu nemenda.

Svo er annað. Var tryggt að allir þeir sem svöruðu könnuninni skyldu til fulls spurningarnar og valkosti svara? Fengu allir nemendur sömu upplýsingar áður en þeir svöruðu spurningunum?

Vissulega er mikilvægt að hafa ákveðinn mælikvarða á helstu grunnþætti náms og það er að mínu mati einfaldlega mjög mikilvægt. Vörum okkur hinsvegar á því að fella dóma um þá skóla sem ekki koma eins vel út úr henni og við teljum eðlilegt. Það er svo margir þættir í skólastarfinu sem ætti að skoða í samhengi við niðurstöðurnar og ef fólk þekkir ekki nægilega til starfsins og aðstæðna (né heldur til nemendahópsins sem svaraði könnuninni) þá er hætt við að stutt sé í óþarfa fordóma í stað þess að nýta ætti niðurstöðurnar til uppbyggingar starfsins.

Ég læt hér staðar numið í bili en á eftir að tjá mig meira um niðurstöður Pisa-könnunarinnar á næstunni. 


Endurskoðum sameiningu skólastiga á milli hverfa!

"Nemendur sendir út fyrir heimahverfið" er fyrirsögn á grein í Morgunblaðinu 27. júní, bls 4 (rituð af Ingvari S. Birgissyni)
Greinin lýsir hluta af því sem gerist við sameiningu grunnskóla í Reykjavík. Þarna er því lýst að nemendur í sjött...a og sjöunda bekk í Vættaskóla - Engjum þurfa að sækja nám í Vættaskóla Borgum.
Á síðustu árum hafa allnokkrar grunnskóladeildir á unglingastigi í Reykjavík verið sameinaðar í hagræðingarskyni. Talað er um að þetta sé gert fyrir nemendur, með þeirra hag í huga því við þessar breytingar sé unnt að bjóða upp á meira námsval og einnig verði auðveldara fyrir nemendur að nýta ýmsa þjónustu s.s. sérfræðiráðgjöf.
Persónulega set ég heilmikið spurningarmerki við sameiningartilburðina. Vissulega er skynsamlegt að skoða alla möguleika, en mér þykir gengið of langt í tilvikinu sem er lýst í blaðagreininni, þar er sagt frá því að börn sem eru enn á miðstigi eigi nú að sækja skóla í öðru hverfi.
Sagt er að göngustígir hafi verið bættir á milli hverfanna og lýsing á þeim bætt. Það er í sjálfu sér hið besta mál en hvað annað er gert til að auka á öryggi barnanna sem fara þurfa í annað hverfi til að sækja skólann dags daglega?
Er þetta nauðsynlegt? Þarf að færa þau yfir í annan skóla varðandi allt námið eða væri nóg að hluti af kennslunni væri sóttur yfir í næsta hverfi?
Það er að mörgu að hyggja þegar á að hagræða í kerfinu. Leggjum áherslu á að hagræða á skynsamlegan hátt, höfum þarfir og öryggi barnanna í fyrirrúmi. Fjárhagslegar áherslur í sparnaði skila sér ekki alltaf á þann hátt sem fólk hyggur.
Sjá meira
engivættarskóli

Jólin koma ábyggilega kl.18 24.12.

Já, nú eru jólin alveg að koma.
 Dagarnir, já klukkustundirnar þjóta áfram á ógnarhraða.  Margur vildi vafalítið geta stoppað klukkuna, þó ekki væri nema í nokkrar klukkustundir, bara svona til rétt að ná að gera allt sem við viljum ná að gera fyrir jólin. Við þurfum að ná að skoða betur gjafaúrvalið, kíkja á tónlistarviðburði, fara á kaffihús og setjast niður með vinkonunum í smá jólaglögg.  Það er svo margt sem er gaman að gera svona rétt fyrir jólin og skemmtilegast þegar við ákveðum að gefa okkur tíma til að njóta þessa sérstaka andrúmslofts sem fyllir borg og bæ fáeinar vikur á hverju ári. Það verður nefnilega allt eitthvað svo öðruvísi þennan stutta tíma sem er almennt alltof fljótur að fljúga frá okkur.

Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli um þessi jól? Það er yndælt að fara á jólatónleika, hlusta á nýjustu jólalögin og teygja stórutána inn á kaffihúsin þar sem misreyndir rithöfunar og ljóðskáld lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum.  Skemmtilegast er þó að geta deilt slíkum upplifunum með góðum vinum.

Börnin reynum við að setja í forgang, tökum fagnandi boðum þeirra um að mæta sem gestir á helgileiki í skólanum þeirra, horfa á þau sem hirðingja eða vitringa, hlýða  þeim yfir textann eða æfa með þeim danssporin fyrir jólaballið. Allt þetta er ómetanlegt fyrir okkur öll, því þrátt fyrir allt annríkið þá er það jú þetta sem gefur lífinu gildi og börnin muna eftir þegar þau eldast.

Hvað skiptir þig mestu máli um þessi jól? Er verkefnalistinn þinn langt kominn?

Kaupa jólagjafir _____ X?  Jólatónleikar ______ X?   Jólaleikritið í skólanum ____ X?
Baka sörur ____ ?    Kaupa tilbúið smákökudeig og baka _____? Redda Laufabrauði ___ ?
Skipuleggja jólaboðin ___?   Velja jólavínið ___? Dót í skóinn ___ ? Jóladresssið klárt ___? Föt fyrir jólaboðin ___?

Hverju ertu að gleyma?  Ábyggilega einhverju?  Punktaðu það hjá þér?
Hvað af þessu skiptir mestu máli? Eða – skipta þessi atriðið yfirhöfuð einhverju veigamiklu máli? Jú – einhver þeirra, en ef til vill ekki eins mikið og við viljum vera láta.

Staðreyndin er jú sú að kl. 18 á aðfangadag, þá koma jólin. Jólin í hverju því formi sem við höfum haft í huga innra með okkur. Jólafriðurinn svífur til okkar í gegnum tónana í jólamessunum. Kirkjur landsins fyllast pott þétt einu sinni á ári, á aðfangadagskvöld. Það segir sína sögu. Fólk kemur prúðbúið til kirkju og það er einhver leyndardómsfull lotning í loftinu. Allir taka undir í Heimsumból og jafnvel ókunnugir bjóða hver öðrum gleðileg jól.

Í ár skulum við virkilega njóta þess að halda jól óháð því hverjar aðstæður okkar eru. Jólin koma nefnilega til okkar ef við leyfum þeim það, hvort heldur sem við náum öllu því sem við höfðum ætlað okkur.
Kæru lesendur, innilega gleðiríka jólahátíð. Megir þú njóta hennar á þann hátt sem þér hentar með fjölskyldu þinni og vinum.

Með jólakveðjum

Jóna Björg Sætran
www.coach.is

055

 


Feng Shui fræðin, 5000 ára gömul en nýtast enn!

Feng Shui, þessi margra alda gömlu fræði, heimsspeki og listgrein, eru enn í góðu gildi. Það var fyrir bráðum níu árum síðan að ég kynntist Feng Shui fræðunum fyrst fyrir alvöru. Orkuflæði, hugarró, friðsæld, vellíðan  - allt var þetta eitthvað sem maður sá fallegar myndir af og var fjallað um í erlendum fræðibókum, en hvernig var þetta gert? Hvernig gat það verið að það hvernig maður sneri rúminu sínu, hvaða myndir voru valdar sem veggskreytingar, hvaða hlutir voru staðsettir hvar, hvar speglarnir voru staðsettir, - hvernig mátti það vera að þessi atriði gæti skipt máli varðandi vellíðan og hamingju fólks? Feng Shui fyrir betri líðan í svefnherberginu? Gat það verið? Það var ofar mínum skilningi.  

Þá var ég svo heppin að fá tækifæri til að kynnast þessu nánar og smá saman lærðist hvernig nýta má Feng Shui fræðin t.d. fyrir heimilið almennt.

Það er alltaf afar ánægjulegt þegar hægt er að vinna með umhverfið og gera það þannig að okkur líði betur. Umhverfi okkar skiptir svo miklu máli. 

Eitt finnst mér afskaplega undarlegt varðandi nánasta umhverfi fyrirtækja. Það er hvað það getur verið erfitt að finna aðaldyrnar, það hvar á að komast inn í fyrirtækið til að geta nýtt sér þjónustu þess.
Þetta á ekki bara við stórfyrirtæki, þetta getur líka átt við einkaheimili. Eitt sinn kvartaði fólk undan því við mig að gestir sem kæmu í heimsókn kæmu nær aldrei að aðaldyrunum í gegnum garðinn (sem var mjög fallegur) heldur bönkuðu gestir á bakdyrnar hjá bílskúrnum. Húsráðendum þótti þetta leitt því umhverfi aðaldyranna var mjög vandað og garðurinn augnayndi. Þegar ég svo kom á staðinn ..... þá ók ég sjálf fram hjá húsinu því ég sá hvergi húsnúmer sem passaði við það sem hafði verið gefið upp. Við að bakka og leita betur sá ég það loksins .... og fór að því. Þá kom skýringin á þessu. Það vantaði að færa til húsnúmerið, húsnúmerið var einungis á hlið hússins, við bakdyrainnganginn. Þegar ekið var fyrir framan húsið,  eftir aðalgötunni var ekkert númer að sjá.

Næsta dag færðu húsráðendur húsnúmerið og komu því fyrir á áberandi stað sem leiddi þá gestina rétta leið.  Flóknara var það nú ekki. 


Hvað á að verða um kennarastéttina?

Einu sinni fyrir langa löngu hélt ég úti bloggi hér á vefnum. Af einhverjum dularfullum ástæðum dróg fyrir bloggskýið - þangað til í dag. Þetta er jú frábær leið til að koma hugsunum sínum og skoðunum á framfæri og því um að gera að nýta sér það. Hver veit nema það verði hægt að koma einhverjum skoðanaskiptum í gang. 

Eitt sem brennur á mér þessa mánuðina er það hvernig komið er fyrir afstöðu íslenskra ráðamanna gagnvart kennarastétt landsins. Það sætir furðu margra sem til þekkja hve kennarastarfið er lítils metið í þjóðfélaginu. Þjóðfélagið byggir á fólkinu sem býr í landinu. Samfélagið mótast af líðan fólks. Börnin erfa landið. Barnabörnin líka. Hvernig kemur þjóðfélagið fram við þessi börn sem eru að vaxa upp í dag og eiga að erfa landið. Hvaða þjónustu eru þau að fá? Hvernig líður þeim dags daglega? Hér á ég ekki aðeins við hvernig þau eru að standa sig í námi og hvaða einkunnir þau útskrifast með úr grunn- eða framhalsskóla. Það er ekki síður mikilvægt að spyrja sig hvernig þeim líður innra með sér. Hver er þeirra andlega líðan?
Hvað kemur þetta því við hvernig ráðamenn landsins meta kennarastétt landsins og meta hvaða laun skulu greidd fyrir þá vinnu sem kennarar sinna? Jú - kennararnir eiga ekki aðeins að sinna uppfræðslu nemenda sinna heldur er í síauknu mæli orðið áberandi uppeldishlutverks skólanna. Kennarastarfið verður sífellt umfangsmeira, föstum viðverutímum kennara  fjölgar og sífellt fjölgar þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að kennarar sinni.  
Á sama tíma og kröfur aukast á starf, umfang og skyldur kennara, þá dregur úr raun virði kennaralaunanna. Hvernig má það vera? Á þessi þróun að halda áfram í sömu átt? 
Hér er ekki við skólastjórnendur að sakast. Skólastjórnendur eru almennt með hendur all bundnar og geta ekki þrátt fyrir einbeittan vilja skipulagt skólastarf í sínum skóla á þann hátt sem þeim þykir vera vænlegast til árangurs. Þeir geta séð möguleika sem þeim er ekki fært að nýta vegna annmarka kerfisins. 
Er ekki kominn tími til að breyta þessari launastefnu?  Hvað finnst þér?


Krókusar og Kaffi Rót

Gærdagurinn var í senn ánægjulegur og annasamur - eins og flestir dagar eru jú sem betur fer.
Sólin skein svo glatt að ekki var hjá því komist að drífa sig út í sólina í smá garðvinnu við að hreinsa dauða trjákvisti og annan garðaúrgang. Blómstrandi krókusarnir njóta nú frelsisins í hreinsuðum beðum og gleðja augað ásamt túlípönum og páskaliljum. Það er ótrúlegt hvað birtir til í litlum garði við það að margra ára tré eru lækkuð í loftinu svo um munar. Nú er loksins hægt að deila blómadýrðinni með nágrönnunum. Þó "skógarhöggið" hafi gengið nærri viðkvæmum tilfinningum fyrir mánuði síðan er eftirsjáin mun minni nú þegar við fáum notið sólargeislanna betur en um áraraðir.
Nágrannarnir voru einnig komnir út á sameiginlega svæðið þannig að það var slegið upp 1. maí kaffi á gamla rólóvelli barnanna, kaffi og með því. Frábært að njóta veðurblíðunnar með góðum grönnum.

Garðvinnan hélt áfram fram eftir degi, skrapp síðan upp á Akranes í afmælisboð unglings fjölskyldunnar - heimabakaðar flatbökur og fleira góðgæði. Veðrið var held ég enn betra á Akranesi en í Reykjavík.

Síðla kvölds skrapp ég síðan á upprennandi kaffihús í hjarta Reykjavíkur, Kaffi Rót - staðsett í Hafnarstrætinu. Það er gaman að fylgjast með breytingunum sem þar hafa orðið síðustu vikurnar og eiga aðstandendur þess mikið hrós skilið fyrir frábæran dugnað og óeiginlegt starf. Þarna stefnir í enn meiri uppbyggingu á næstunni, sífellt fleiri eru að frétta af þessari "vin í eyðimörkinni" þar sem þú getur sest niður í rólegheitum, fengið þér gott kaffi og meðlæti og spjallað við kunningjana í notalegu umhverfi. Skemmtilegt andrúmsloft, huggulegheit, kaffihúsastemning og djúpir hægindastólar, tónlistarflutningur og myndlistarsýning. Góður endir á skemmtilegum degi.

Enn skín sólin - en frekari garðvinna verður að bíða því að í dag er ég að undirbúa þátttöku í sýningunni Heilsa, húð og hár sem verður um helgina. Sem sagt spennandi helgi framundan.

Góða helgi!  


Let´s go! Enskukennsla 3 ára barna .... eða ?

Lítil dótturdóttir mín, 3ja og hálfs árs gömul hnáta, hefur heldur betur komið ömmu sinni á óvart með óvæntri enskukunnáttu sinni. Ég hélt mér hefði misheyrst núna um helgina þegar ég taldi mig heyra barnið bregða fyrir sig ýmsum stuttum setningum á ensku. Orðin komu í réttu samhengi við ýmsar athafnir voru með áhersluþunga og ótrúlega réttum framburði.

Litla hnátan er eins og margir jafnaldrar hennar í leikskóla og það fyrsta sem mér datt í hug var að þar væri farið að kenna börnunum ensku. Mér er kunnugt um að svo er gert með allgóðum árangri á sumum leikskólum - en þó frekar í deildum eldri leikskólabarna. Í ljós kom að svo var ekki. Hinsvegar sagði hnátan mér stolt að Dora hefði kennt sér þetta, Dora í barnasjónvarpinu.
Þekkir þú þessa ágætu kennslukonu? Ef svo er ekki, þá er Dora aðalpersónan í erlendu barnaefni sem hefur náð gríðarlega miklum vinsældum og er það líklega ekki síst að þakka víðtækri markaðssetningu.

Þetta atvik varð til þess að ég fór enn einu sinni að hugsa um hvað eðli og inntak barnaefnis í sjónvarpinu hefur mikið að segja fyrir litlar og óharðnaðar sálir ekki síður en fyrir stálpaðri börn. Fyrrnefnd Dora kemur fram í stuttum bandarískum sjónvarpsþáttum þar sem auk skemmtiefnis er m.a. lögð áhersla á að kenna ungum áhorfendum ýmislegt sem telst jákvætt í mannlegum samskiptum. Hér ætla ég mér ekki að vera með neina stjörnugjöf enda hef ég ekki séð nægilega marga þætti til að slíkt teldist raunhæft. Þarna er hinsvega ágætis dæmi um gildi vandaðs sjónvarpsefnis fyrir börn. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft - og í víðtækari merkingu en við gerum okkur oft grein fyrir.

Allt myndefni hefur áhrif á okkur, hvort sem um er að ræða ljósmyndir, teikningar eða hreyfimyndir. Sum áhrifin eru að fullu meðvituð, önnur ómeðvituð en hafa samt mótandi áhrif á undirmeðvitundina. Þetta leiðir hugann m.a. að því efni sem haldið er að börnum okkar og barnabörnum í formi bóka, tölvuleikja og kvikmynda sem ætluð eru börnum. Ef efnið höfðar til barnanna og þau fá og viðhalda áhuga á efninu drekka þau í sig þar sem þar er kennt. Barn sem ekki er farið að tala móðurmál sitt hreint fer jafnvel að slá um sig með erlendum orðaforða svo eftir er tekið.

Í tengslum við þetta fer ég ósjálfrátt að velta því fyrir mér hvernig kennsluefnishöfundar gætu komið efni sínu mun betur til skila til nemenda ef höfundarnir gætu nýtt sér alla þá tækni sem skemmtanaiðnaðurinn býr yfir. Hugsið ykkur hvað það gæti verið gaman að læra - bæði í skólanum og eins fyrir skólann. Ég er viss um að árangurinn yrði miklu meiri. Þar skiptir í mínum huga ekki mestu máli að allir fái 10 á prófum heldur að nemendur á öllum aldri fái námsefni við hæfi, skemmtilegt og jákvætt námsefni sem byggir auk annars á að efla sjálfstraust nemandans.
Mikið yrði þá gaman - bæði í skólunum og heima. 

Let´s go! Thank you! 


Gleðilegt sumar 2008

Sæl verið þið - og gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti hefur alltaf verið mér kær enda á ég margar skemmtilegar minningar frá þeim degi. Einhvern veginn finnst mér samt að hann hafi færst óeðlilega mikið til á dagatalinu því að í nær hálfrar aldar gamalli minningunni tengi ég sumardaginn fyrsta við skrúðgöngu frá Austurbæjarskólanum og niður í miðbæ Reykjavíkur í blíðskapar veðri að mig minnir íklædd sparifötum, blárri sparikápu, hvítum hnésokkum, gulum "hatti" og telpnaveski. Flott lítil snót!
Vetri konungi var ekið á miklum vagni og hélt hann kveðjuræðu þegar komið var á áfangastað. Sumardrottningin sem var enn glæsilegri þar sem hún ók á fagurskreyttum vagni með tvær þernur sér til fulltingis hélt síðan aðra ræðu. Ég man hvað mér þóttu þernurnar hennar flottar, sérstaklega önnur þeirra - enda var það stóra systir mín sem hafði hlotið þennan heiður að fá að sitja á vagni Sumardrottningarinnar íklædd prinsessuklæðum.
Jæja - þá er að hverfa úr draumalandi fortíðar og segja fréttir af nútíðinni.

Margt hefur gerst frá síðasta bloggi og mál til komið að segja tíðindi!
Við Kristinn skruppum nýverið til La Jolla í Kaliforníu í Bandaríkjunum til að sækja námskeið hjá Marie Diamond Feng Shui meistaranum okkar. Það var bæði mjög lærdómsríkt og ánægjulegt og góð viðbótarþekking við Feng Shui vinnuna okkar hér heima. Ekki spillti það fyrir að góðkunningi okkar Höskuldur Þráinsson prófessor var þarna í La Jolla í rannsóknarleyfi og fór með okkur í mjög ánægjulega útsýnisferð um svæðið.

Við Kristinn höfum annars verið önnum kafin í Feng Shui vinnu bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. 
Núorðið notum við helst alltaf "dowsing" tæknina samhliða Feng Shui ráðgjöfinni. Um sl. helgi ákváðum við að athuga hvort ekki mætti nota "dowsing" tæknina til að bæta vellíðan ferfætlinga, hesta og kinda. Til þess völdum við stórbýli nokkurt norður í landi þar sem húsráðenur höfðu lýst sig áhugasama um að við kæmum á staðinn með dowsing pinnana. Þarna fundust all nokkrir staðir þar sem ástæða er til að ætla að umhverfið hafi haft neikvæð áhrif á líðan dýranna og gerðum við okkar besta til að bæta úr því. Að vísu verður líklega erfitt að fá staðfestingu á aukinni vellíðan beint frá íbúum húsanna, hestanna og kindanna, en vonum hið besta.

Í gær tókum við þátt í að umbreyta tveimur skrifstofum til að auka orkuflæðið. Það verður spennandi að fá að fylgjast með hvernig Feng Shui ráðgjöfin nýtist þeim sem þarna starfa.

Síðan tók við spennandi greining á fasteignum þar sem við vorum beðin um aðstoð við að greina hvaða húseign sé líklegast að muni henta viðkomandi best sem framtíðarhúsnæði.  Já, það má víst segja að verkefnin séu orðin margvísleg.

Nú er annars að njóta Sumardagsins fyrsta, horfa til himins og njóta hvers einasta sólargeisla í tilefni dagsins. Krókusarnir blómstra - og páskaliljurnar fara líklega loksins að blómstra.

Gleðilegt sumar!

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband